Frumkvæði í varðveislumálum (16)

Árið 2010 stofnaði LÍSA (Samtök um landupplýsingar á Íslandi) varðveislunefnd til að auka umræðu um varðveislu landfræðilegra gagna, einkum korta, og setja á fót verkefni til að stuðla að öryggi kortagagna af ýmsum toga.

Í nefndinni voru auk tveggja fulltrúa LÍSU samtakanna, fulltrúi frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og fulltrúi frá Þjóðskjalasafni Íslands. Samtökin leituðu liðsinnis menntamálaráðuneytisins og hvatti þáverandi menntamálaráðherra LÍSU samtökin til að stofna þessa nefnd.

Varðveislunefndin var fyrst og fremst hugsuð sem samráðsvettvangur meðlima samtakanna með söfnunum, þar sem stuðla mætti að bættri varðveislu landfræðilegra gagna hjá stofnunum og sveitarfélögum og huga að skilum á slíku efni til safnanna eins og lög gera ráð fyrir. Haldin voru tvö fjölsótt málþing um varðveislumál landfræðilegra gagna, 2010 og 2013, þar sem farið var yfir mikilvægustu verkefni samfélagsins á þessu sviði.

Í tengslum við nefndarstarfið lauk Orkustofnun við nokkur verkefni í samráði við bæði söfnin og skilaði síðan frumgögnum korta frá stofnuninni, útgefinna sem óútgefinna, til safnanna. Við þessa vinnu varð til gagnagrunnur fyrir upplýsingar um kortasöfn og aðgang að þeim og til urðu verkferlar sem geta nýst öðrum stofnunum og sveitarfélögum. Í framhaldi af þessu var gerð tillaga innan LÍSU samtakanna að sambærilegum verkefnum um samráð nokkurra stofnana við söfnin. Vonandi er að kort fleiri stofnana rati í skráningu og að aðgengi verði opnað að þeim og upplýsingum um þau á netinu eins og dæmi eru nú til um fyrir íslensk kort.

Þrátt fyrir að flestir séu sammála um mikilvægi öruggrar varðveislu landfræðilegra gagna hér á landi, virðist verulega langt í land að virkja stofnanir og sveitarfélög á þessu sviði. Söfnin hafa lög og reglugerðir til að byggja á, en þau eru hugsuð út frá því sem margir landfræðingar líta á sem gamaldags skiptingu á verkefnum og efni eftir formgerð. Landsbókasafn ber fyrir sig að safnið eigi fyrst og fremst að safna og skrá prentuð kort samkvæmt lögum um skylduskil, en Þjóðskjalasafn ber því við að safnið eigi að fá til varðveislu öll skjöl og gögn, þar á meðal landfræðilegt efni. Sérfræðingur hjá safninu hefur hins vegar bent á að stefna safnsins sé að taka ekki við kortasöfnum nema þau séu fullskráð í geymsluskrá og pakkað á fyrirfram ákveðinn hátt. Á milli starfsviða safnanna eru svið og málefni á „einskis manns landi“, sem söfnin vinna ekki að, þar sem þessi málefni virðast ekki hafa beina tilvísun í lög þeirra og reglur. Dæmi þar um eru annars vegar afritun íslenskra kortasjáa sem enginn sinnir, þ.e. einungis fer fram afritun íslenskra vefsíðna og hins vegar skipuleg söfnun gervitunglagagna af landinu.

Notendur landfræðilegra gagna hugsa málin með öðrum hætti. Ef þeir þurfa upplýsingar um landsvæði vilja þeir fá að vita um allt sem þekkt er um svæðið og einnig að geta fengið yfirsýn yfir þau gögn sem til eru og fá þessar upplýsingar um gögnin helst á einum stað. Sama kortið getur verið til sem teikning, filma, prentuð útgáfa, stafræn rastamynd eða vektor gagnasett í landupplýsingakerfi. Loftmyndir eru varðveittar á nokkrum stöðum innanlands og einnig erlendis og gervitunglagögn sem sýna Ísland eru dreifð víða um heiminn. Engin stefna er í landinu um það hvernig eigi að stýra varðveislu þessara gagna og veruleg hætta er af þeim sökum á að mikilvægt efni fari forgörðum. Vandinn er hins vegar ekki lengur skortur á vitund um vandamálin, heldur að ekki er búið að velja leiðirnar til að takast á við þau. Út á við virkar þetta þannig að leiðarljósið af hálfu safnanna vanti og þau virðast ekki tilbúin til að sinna því leiðbeiningahlutverki sem þau ættu að hafa á þessu sviði, en það er líklega einkum vegna þess að bakgrunnur starfsmanna þeirra er annar en á sviði landupplýsinga.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...