Gagnasamstarf í Evrópu á tímum CERCO (42)

CERCO (e. European Committee of Official Mapping Agencies) voru samtök forstjóra kortastofnana innan Evrópu. Upphaf samtakanna má rekja aftur til áranna 1979-1980, þegar forstjórar nokkurra kortastofnana í vestur Evrópu tóku að hittast reglulega til að ræða sameiginleg mál á sviði kortagerðar og landmælinga, en ýmis verkefni þeirra náðu út yfir landamæri ríkjanna sem í hlut áttu. Fljótlega bættust fleiri ríki í hópinn um leið og mikilvægir snertifletirnir fyrir samstarf komu betur í ljós, þannig að upp úr 1990 voru flestöll lönd vestur Evrópu komin í samtökin. Ísland varð þátttakandi árið 1991. Nafni samtakanna og skipulagi var síðan breytt árið 2002 og voru þau lögð niður um leið og ný samtök EuroGeographics urðu til.

CERCO samtökin höfðu mikil áhrif á þróun á sviði kortagerðar, landmælinga og hinnar ört vaxandi stafrænu landupplýsingatækni. Forstjórar kortastofnananna hittust árlega ásamt staðgenglum sínum, kynntu nýjungar, ræddu sameiginleg hagsmunamál og einnig ýmis vandamál sem skynsamlegt var talið að leysa með sameiginlegum verkefnum. Í því ljósi voru settar upp fjölmargar vinnunefndir, sem tóku á hinum ýmsu fagsviðum. Fljótlega varð vinnunefndakerfið of stórt og þungt í vöfum, bæði vegna þess að nokkur skörun var milli sviða og vinna þurfti að samræmingu sem ekki var gott að ná nema brjóta verkefnið upp. Árið 1993 var sett upp ný vinnunefnd með þremur föstum starfsmönnum og skyldi hún taka yfir verksvið eldri nefnda. Fékk hún heitið MEGRIN (Multi-purpose European Ground Related Information Network) og lagði meðal annars grunn að mikilvægri vinnu á sviði margvíslegra staðlaverkefna, sem skiptu verulegu máli þegar endurskoðun eldri staðla fór fram og gerð nýrra alþjóðlegra landupplýsingastaðla varð að raunveruleika mörgum árum síðar.

Megrin setti síðan upp fyrsta landfræðilega lýsigagnavefinn í Evrópu GDDD (Geographic Data Description Directory) sem var tímamótaverkefni á því sviði. Þar fór fram prófun á aðferðafræði og notkun eldri staðla við fjölþjóðlegt samstarfsverkefni, sem þróaðist fyrst á eftir yfir í að einstök lönd settu upp eigin lýsigagnavefi með betra notendaviðmóti. Reynslan af GDDD leiddi síðan til leitar að annarri lausn sem hefði möguleika á að nota mismunandi tungumál. Jafnframt var safnað saman upplýsingum í öllum þátttökulöndunum og búið til gagnasett um stjórnsýslumörk í Evrópu (SABE – Seamless Administrative Boundaries of Europe), en Evrópusambandið hafði óskað eftir að slíkt gagnasett yrði búið til. Í framhaldi af því var gerð fyrsta útgáfan af lagskiptu stafrænu Evrópugagnasetti með kortaupplýsingum í mælikvarða 1:250 000, sem fékk vinnuheitið PETIT.

Mikilvægasta verkefnið sem unnið var í samstarfi þjóðanna innan CERCO var hins vegar án efa endurmæling staðsetningakerfis Evrópu (EUREF), en Ísland var mælt á þann hátt árið 1993 sem skilaði sér í nýrri viðmiðun fyrir landið, ÍSNET93. Hvert landið af öðru bættist síðan í samtökin í kjölfar nýrra GPS mælinga, fyrst Eystrasaltsríkin og nokkur lönd í austur Evrópu, svo fyrrum ríki Júgóslavíu og loks fleiri fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna, þau sem vestast liggja.

Með þessari fjölgun breyttust samtökin nokkuð, en áður var starf innan þeirra meira byggt á persónulegum samskiptum og vináttu þeirra einstaklinga sem í hlut áttu, en tvöföldun á fjölda aðildarríkja kallaði á annað skipulag sem var sett upp með EuroGeographics. Reynslan af verkefnum á vegum CERCO leiddi til þróunar hugmynda um nýtt verklag, annars konar framsetningar gagna, opnari samskipta með gögn og gerð nýrra staðla, en allt hafði þetta mikil áhrif á það hvernig INSPIRE hugmyndafræðin þróaðist á fyrsta áratug þessarar aldar.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .