Kortagerð í mælikvarða 1:25 000 (36)

Samræmd kortagerð á Íslandi í mælikvarða 1:25.000 hófst fyrir rúmum þremur áratugum, en helstu kortaraðir af landinu höfðu fram að því verið í mismunandi mælikvörðum, blaðskiptingum og vörpunum. Danir höfðu á fyrrihluta 20. aldar kortlagt allt landið í mælikvarða 1:100 000 og suður- og vesturhluta þess í 1:50 000, Bandaríkjamenn höfðu um miðja öldina kortlagt allt landið á 300 kortblöðum í 1:50 000 og síðar átt samstarf við Íslendinga um endurgerð þeirra korta, en það verkefni dagaði uppi á níunda áratugnum þegar um helmingur nýs 200 kortblaða kortaflokks hafði komið út.  Á fjögurra áratuga tímabili á seinni hluta 20. aldar unnu stofnanir í orkugeiranum (Raforkumálastjóri, Orkustofnun, Landsvirkjun og RARIK) að kortagerð í mælikvörðum 1: 20 000 sem og í stærri mælikvörðum af afmörkuðum svæðum á hálendi landsins. Á áttunda og níunda áratugnum unnu síðan Landmælingar Íslands að myndkortagerð hundraða titla af suðvesturhorni landsins í mælikvarða 1:10 000. Í kjölfar þessara verkefna þar sem þörf fyrir samræmdan kortagrunn af landinu kom enn sterkar í ljós, náðist samstaða margra stofnana um að leggjast á eitt um að Íslendingar eignuðust nýjan samstæðan kortgrunn í mælikvarða 1:25 000, sem mætti nýta við margs konar kortagerð (staðfræðikort, gróður- og jarðakort, vatnafarskort, jarðfræðikort svo eitthvað sé nefnt).   Sú vinna fór af stað hjá ýmsum stofnunum hér á landi, en dagaði uppi á tíunda áratugnum einkum þar sem stuðningur fékkst ekki hjá stjórnvöldum til að fjármagna verkefnið. Afrakstur þessarar vinnu var ekki skoðaður í heild þvert á stofnanir svo vitað sé, fyrr en árið 2014 í tilraunaverkefni Orkustofnunar um kortasjá fyrir þessi kort. Þar er gefin yfirsýn yfir merkilegt og áhugavert samstarfsverkefni í kortasögu þjóðarinnar, kafla sem á eftir að skrifa.

Blaðskipting kortaflokksins í mælikvarða 1:25 000 gerir ráð fyrir um 730 kortarömmum. Byggt er á blaðskiptingu sem fylgir lengdar og breiddarbaugum og þekur hvert kort 15´ austur vestur, en 7´30´´ norður suður. Nokkrar stofnanir hófu samstarf á ýmsum sviðum og þróuðust kortgrunnar hjá nokkrum þeirra, en grunnarnir voru einnig notaðir við vinnslu og til útgáfu staðfræðikorta (LMÍ), gróður- og jarðakorta (RALA/Náttúrufræðistofnun), vatnafarskorta, berggrunnskorta og jarðgrunnskorta (OS). Til urðu alls 164 kort eftir því sem best er vitað, þ.e. 63 útgefin kort og 101 grunnkort á ýmsum stigum, sem flest teljast ákveðið form af óútgefnum grunnkortum. Við skráningu kortasafns OS sem lauk á árunum 2011-2012 og birtingu upplýsinga um kortasafn stofnunarinnar á Netinu urðu til í gagnagrunni og landupplýsingakerfi OS upplýsingar sem gerðu það kleift að ná utan um það verkefni að birta yfirlit og almennar upplýsingar um öll kort sem þekkt eru í mælikvarða 1:25 000 á árabilinu 1984-2000. Aðgreinanlegir kortaflokkar innan verkefnisins eru í kortavefsjárverkefni OS taldir alls 11 að tölu, þ.e. fimm flokkar útgefinna korta og sex flokkar óútgefinna grunnkorta.

Landmælingar Íslands hófu útgáfu prentaðra staðfræðikorta í mælikvarða 1:25 000 af suðvesturlandi árið 1984 og komu alls 17 kort út af þeim landshluta, en síðar komu út 6 kortblöð af Austurlandi. Rannsóknastofnun landbúnaðarins og síðar Náttúrufræðistofnun stóð fyrir útgáfu gróðurkorta í mælikvarða 1:25 000 á árabilinu 1984-1990, fyrst af svæðum í Þingeyjarsýslum, 9 kort, þá 11 kortblöð af Snæfellsnesi og loks 8 kortblöð á suðvesturlandi. Gróðurkortin urðu því alls 28 talsins. Orkustofnun gaf á tímabilinu 1992-2000 út alls 12 kort í mælikvarða 1:25 000 af Reykjavík og nágrenni; fjögur berggrunnskort, fjögur jarðgrunnskort og fjögur vatnafarskort, þ.e. fjórir kortrammar þar sem sama grunnkortið var notað fyrir framsetningu á þremur mismunandi þemaflokkum korta. Útgefin kort í mælikvarða 1:25 000 í þessum kortaflokki eru því 63 talsins frá fjórum útgefendum.

Hugmyndafræði kortagerðarinnar miðaðist við að til yrðu kortgrunnar sem mætti samnýta fyrir gerð á margvíslegum kortum til útgáfu hjá ólíkum stofnunum. Grunnkortin úr þessum kortaflokki sem til eru á filmum á Orkustofnun og sem notuð voru í tilraunaverkefninu eru 101 talsins (1984-1990), alls sex efnisflokkar óútgefinna korta. Kortin voru gerð á vegum fjögurra íslenskra stofnana: Landmælinga Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (síðar flutt til Náttúrufræðistofnunar), Landsvirkjunar og Orkustofnunar, auk eldri kortafilma frá Army Map Service í Bandaríkjunum (líklega flestar frá 1961). Kortin eru mjög mismunandi að gerð og á ýmsum stigum, allt frá tiltölulega hráum hæðargrunnum yfir í að vera grunnkort með skýringum og mismunandi framsetningu á upplýsingum um vatnafar. Þá urðu til fjögur tilraunakort af Ölfusi, í útliti staðfræðikorta unnin fyrir Landmælingar Íslands hjá verkfræðistofunni Hnit, en kortin voru unnin á tölvutæku formi og sett fram sem litaprufur, en urðu aldrei formlegar útgáfur.

Saga þessarar kortagerðar hefur hins vegar aldrei birst í heild. Kortaflokkurinn hefur ekki einu sinni formlegt heiti svo vitað sé, til aðgreiningar frá öðrum. Skrifaðar voru fjölmargar vinnuskýrslur sem tengdust starfi níu vinnunefnda í tilraunaverkefni í kortagerð, sem unnið var á vegum umhverfisráðuneytisins á tímabilinu 1992-1994. Þar eru verðmætar heimildir, auk þess sem margir þeirra sem tóku þátt í tilraunaverkefninu og kortagerðinni eru enn viðloðandi fagið og gætu haft frá ýmsu að segja. Skýrslur tilraunaverkefnisins 1992-1994 og verkefni OS um Kortavefsjá 1:25 000 árið 2014 eru lykilþættir til að byggja á við söguritun. Í kortavefsjánni er mögulegt að skoða skannaðar myndir af þeim kortum sem aðgengileg voru þegar tilraunaverkefnið var unnið. Það er hins vegar mjög líklegt að einhver fleiri grunnkort séu til hjá áðurnefndum stofnunum. Með því að smella á ramma í þekjum kortavefsjárinnar má fá fram ítarlegri upplýsingar um hvert kort, auk þess sem þar er texti um kortin og lýsigögn fyrir gagnaþekjur. Það er þess vegna í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að einhver taki sig til, fylli betur inn í myndina og riti þessa sögu. Slíkt gæti til dæmis verið mögulegt efni í  lokaverkefni á meistarastigi í Háskóla Íslands.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...