Kortasafn Landmælinga Íslands (77)

Landmælingar Íslands voru fram á þessa öld hin eiginlega kortagerðarstofnun Íslendinga. Þar með er ekki verið að segja að stofnunin sé það ekki enn í stafrænum nútíma skilningi. Í hinum gamla hefðbundna skilningi sem kortagerðarstofnun og útgefandi meðal annars staðfræði- og ferðakorta landsins um áratuga skeið hefur orðið breyting á í kjölfar stjórnvaldsákvörðunar fyrir rúmum áratug.  Þá var stofnuninni gert að hætta almennri kortagerð, kortaútgáfu og kortasölu, en í framhaldi af því voru kortagrunnar og kortalagerar seldir fyrirtæki á markaði með opinberu útboði.
Kortagerð og útgáfa staðfræði- og ferðakorta Landmælinga Íslands byggði í meginatriðum á kortagerð Dana frá fyrri hluta 20. aldar og á kortagerð Bandaríkjamanna um og eftir miðja öldina. Íslendingar tóku við kortum og kortagerð Dana eftir lýðveldisstofnun.

Landmælingar Íslands urðu sjálfstæð stofnun árið 1956, eftir að hafa verið deild innan Vegagerðarinnar og sá stofnunin um viðhald og uppfærslu dönsku kortanna einkum í mælikvörðum 1:100 000 og 1:250 000. Jafnframt voru þróaðar nýjar útgáfur Íslandskorta af ýmsum gerðum, í ólíkum mælikvörðum og gefnar út á markaði. Lengst af var stofnunin fjármögnuð að grunnhluta á fjárlögum, en krafa gerð um tiltölulega hátt sértekjuhlutfall.  Því réðst kortagerð og kortaútgáfa oft af möguleikum ákveðinna kortatitla til að seljast og þannig mátti afla meiri fjár inn í reksturinn. Stofnunin viðhélt lengi útgáfu dönsku Atlasblaðanna í mælikvarða 1:100 000 (87 titlar) og voru kortin annað hvort prentuð í nýjum útgáfum án breytinga eða endurskoðuð milli útgáfa. Nýjar ferðaútgáfur korta í fleiri mælikvörðum eins og 1:250 000, 1:500 000, 1:750 000 og 1:1 000 000 komu út með reglubundnum hætti um áratuga skeið. Í þessum áherslum á útgáfu og sölu korta varð stundum misbrestur á að haldið væri til haga eintökum af sérhverri prentun kortanna. Þau einfaldlega seldust upp í hillunni og voru þar með búin og ekki til fram að næstu prentun. Ef prentsmiðja sem lögum samkvæmt átti að senda eintök af öllum prentunum korta til Landsbókasafns gerði það ekki, varð ekki um neina varðveislu viðkomandi útgáfu að ræða.

Á þeirri hálfu öld sem Landmælingar Íslands sáu um kortagerð og opinbera kortaútgáfu hér á landi varð til veglegt safn Íslandskorta. Stór hluti þess eru auðvitað eintök af hinum ýmsu prentunum og útgáfum sem stofnunin stóð að, en einnig mikið af öðrum Íslandskortum sem bárust til stofnunarinnar eða voru keypt til hennar.
Það var þó ekki fyrr en undir síðustu aldamót að farið var að undirbúa skráningu kortasafns Landmælinga Íslands með markvissum hætti. Eftir að skoðuð höfðu verið möguleg skráningarkerfi erlendis var ákveðið að setja upp eigið skráningarkerfi sem fékk heitið „Kortabrunnur“ og reyndist það kerfi mjög vel. Eftir að Landmælingar tóku til starfa á Akranesi í ársbyrjun 1999 var safnið síðan skráð á nokkrum misserum. Eingöngu var um skráningu prentaðra útgáfa að ræða, en ekki filma eða handrita. Afrit af skránni var afhent Landsbókasafni vegna samræmingar og mögulegrar samkeyrslu. Orkustofnun fékk leyfi Landmælinga til að nota hugbúnað kortabrunnsins fyrir eigin kortabrunn og skráningu kortasafns OS.
Skráin sem til varð á Landmælingum með skráningu í brunninn var síðan notuð til að útbúa grunn fyrir aðgengi að kortasafninu með leitarvalmynd á vefsíðu stofnunarinnar. Öll kortin voru skönnuð í góðri upplausn og gerð niðurhlaðanleg. Með því að skoða kortasafn stofnunarinnar á netinu koma í ljós fjölbreyttir möguleikar til að finna áhugaverð kort. Þar má leita eftir leitarorði, tugum innlendra sem erlendra kortaflokka, ólíkum mælikvörðum, afmarka leit með reitum á korti, setja inn afmörkun með hnitum eða leita eftir tilteknu árabili. Safnkosturinn er því mjög aðgengilegur notendum þó enn eigi eftir að setja fram blaðskiptingar kortaflokkanna með leitarmöguleikum að kortum eins og víða er unnið að í erlendum kortasöfnum og dæmi eru einnig til um hér á landi.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .