Kortasjár – Íslenskur hugbúnaður (20)

Kortasjár (e. spatial / geographical portals) eru sérhæfðar vefsíður með hugbúnaði sem gerir það kleift að finna og fá aðgengi að landfræðilegum upplýsingum í gegnum kortaviðmót á netinu.

Hugbúnaður kortasjáa þróaðist í framhaldi af þeirri tæknibyltingu í kortagerð sem kom fram með landupplýsingakerfum og síðar með veraldarvefnum. Það kom ekki á óvart að fyrstu íslensku kortasjárnar byggðu á búnaði frá öflugustu fyrirtækjum heims í framleiðslu hugbúnaðar fyrir vinnslu landupplýsinga, en helstu alþjóðlegu fyrirtækin í þessum geira þróuðu fljótlega lausnir á þessu sviði sem hafa síðan verið í stöðugri uppfærslu og notaðar í ýmsum kortasjárverkefnum hér á landi.

Á miðjum tíunda áratug síðustu aldar hóf íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Gagarín hönnun hugbúnaðarins “Flashmap“, sem fékk byr undir báða vængi við undirbúning að verkefni um Náttúruvefsjá. Sú hugbúnaðarlausn þróaðist síðan sem samstarfsverkefni fyrirtækja og stofnana á nokkurra ára tímabili. Við hönnun hugbúnaðarins var lögð áhersla á einfalda og notendavæna lausn sem gæti auðveldað bæði innskráningu og miðlun samræmdra upplýsinga úr ýmsum áttum. Þar eru til staðar eiginleikar eins og þysjun, tilfærsla á skjá, prentun, mælikvarði og staðsetningarhnit, auk þess sem mögulegt er að færa til þekjur í lista (Virk lög) til að draga fram ólík áhersluatriði. Hugbúnaðurinn gefur kost á að miðla ýmiss konar upplýsingum eins og fróðleikstexta, lýsigögnum og ítarefni, þar sem meðal annars er vísað til annars efnis með tenglum í gagnatöflur og efni á vefsíðum á netinu.  Auk Náttúruvefsjár var frumútgáfa hugbúnaðarins notuð á tímabili fyrir kortasjár á vegum nokkurra stofnana, eins og Umhverfisstofnunar (fjórar kortasjár fyrir Þjóðgarða) og Námsgagnastofnunar, en fyrrnefndum kortasjám Umhverfisstofnunar hefur öllum verið lokað.

Á árinu 2008 stóð Orkustofnun frammi fyrir því að þurfa að birta í kortasjá upplýsingar um gögn af Drekasvæðinu (í norðausturhluta íslensku efnahagslögsögunnar), vegna fyrirhugaðs útboðs á leyfum til rannsókna og vinnslu á kolvetni (olíu). Eftir skoðun nokkurra erlendra hugbúnaðarkosta var tekin ákvörðun um að nýta þá fjárfestingu og þekkingu sem til hafði orðið við þróun og uppbyggingu Náttúruvefsjár og þróa tvær nýjar kortasjár fyrir stofnunina í samstarfi við Gagarín, enda hafði stofnunin greitt umtalsverðan hluta kostnaðar við þróun Náttúruvefsjár. Bætt var við kortasjárhugbúnaðinn ýmiss konar virkni sem var nauðsynleg til að geta birt gögn í Landgrunnsvefsjá (2009). Þar má nefna möguleika til að birta upplýsingar með því að smella á „gegnsæja“ reiti og birta efni á fleiri tungumálum, en ensk útgáfa kortasjárinnar var opnuð samhliða þeirri íslensku. Framsetning gagna í Náttúruvefsjá miðaðist við notkun viðmiðs ÍSN93, en þar sem Landgrunnsvefsjáin birtir gögn frá öðru svæði á yfirborði jarðar þurfti að nota annað viðmiðskerfi fyrir gögn byggt á WGS 84, UTM Zone 29. Eftir opnun Landgrunnsvefsjár var ákveðið að koma einnig upp Orkuvefsjá (2010). Hún nýtir á sama hátt hina uppfærðu hugbúnaðarlausn sem gerð var fyrir Landgrunnsvefsjá, en er frábrugðin að því leyti að viðmið í henni er ÍSN93. Í framhaldi af opnun Orkuvefsjár var nokkrum misserum síðar ákveðið að loka Gagnavefsjá Orkustofnunar og um leið var Náttúruvefsjá lokað þar sem fullreynt var talið að verkefnið myndi ekki fá stuðning í stjórnkerfinu. Orkustofnun er því orðin önnur af tveimur stofnunum sem nýtir kortasjár (Flashmap) frá Gagarín. Búnaðurinn er einfaldur og þægilegur í notkun og hefur sérstaka og áhugaverða eiginleika sem skipta miklu máli í framsetningu margs konar upplýsinga. Sú staðreynd að hugbúnaðurinn er ekki lengur uppfærður af framleiðanda, mun verða til þess að Orkustofnun þarf líklega innan tíðar að finna annan hugbúnað til birtingar gagna sinna á netinu, enda eru tækniframfarir í þessum geira mjög hraðar. Slík breyting er líklega brýnni fyrir Orkuvefsjá en Landgrunnsvefsjá. Mörgum mun eflaust þykja eftirsjá að ýmsum hugbúnaðareiginleikum Flashmap, enda er þar auðvelt að birta meðal annars gögn með fjölbreyttu ítarefni og tenglum í aðrar upplýsingar auk þess sem birting efnis á fleiri tungumálum en íslensku er þægileg fyrir þá sem halda utan um birtingu gagna. Það vantar hins vegar nýja tækni og eiginleika sem til eru í öðrum nýrri lausnum og svo meiri hraða. Það verður sjónarsviptir af því þegar þessi hugbúnaður hverfur af netinu.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...