Loftmyndasafn Samsýnar (79)

Þegar fyrirtækið Samsýn ehf hóf loftmyndatökuflug á Íslandi bættist þriðja loftmyndasafnið við hér á landi, en safnið geymir nokkra tugi þúsunda loftmynda, flestar stafrænar. Fyrstu loftmyndirnar voru teknar árið 2000 og voru teknar myndir árlega síðsumars með tveimur undantekningum (2009 og 2013) fram til ársins 2015, en engin myndataka fór fram sumrin 2016 og 2017. Tekið var á filmur á tímabilinu 2000-2004 en frá og með árinu 2005 hefur öll myndataka verið stafræn og hefur hún farið fram í samstarfi við tvö erlend loftmyndatökufyrirtæki. Myndatökusvæðin ná yfir um þriðjung landsins, þar með talin öll þéttbýlissvæði. Meginmyndaþekjan er samfelld og nær yfir allt Snæfellsnes, Vesturland, Reykjanesskaga og láglendi á Suðurlandi austur fyrir Vík og upp á virkjanasvæðin við Þjórsá. Þá eru stór myndatökusvæði í Skagafirði, á Tröllaskaga, í Eyjafirði, kringum Mývatn og austan Skjálfanda, auk annarra minni svæða. Elsti hluti myndasafnsins er því bæði til á filmum og skannaður í góðri upplausn til myndavinnslu. Ekki liggur fyrir hvort allar filmurnar séu  varðveittar hér á landi. Nýrri hlutinn er því eingöngu til stafrænn. Stafræn myndataka gefur ýmsa möguleika fram yfir filmumyndatöku þar sem áður þurfti að velja einhverja eina gerð filma (svarthvíta, lit, innrauða lit, eða svarthvíta innrauða). Stafrænu gögnin hafa til dæmis gefið möguleika á að fá bæði fram litmyndir og innrauðar litmyndir úr sömu gagnaöfluninni, en þá þarf að afla gagna samtímis á fleiri böndum á öðrum bylgjulengdum rafsegulrófsins.
Aðgengi að upplýsingum um myndasafn Samsýnar á netinu er á kort.samsyn.is/loftmyndir/.  Aðgengi er einnig mögulegt fyrir áskrifendur að efni myndasafnsins í gegnum sérstaka vefþjónustu. Til að fá nánari upplýsingar t.d. um myndatökutíma, fluglínur, flughæð eða þekju einstakra mynda innan myndflákans þarf að hafa samband við Samsýn. Í landupplýsingakerfi fyrirtækisins eru síðan upplýsingar um allar fluglínur og hvern einasta myndramma, þannig að myndarmiðja allra mynda er til á stafrænu formi. Heildaryfirlit yfir öll myndatökusvæði má finna á vefslóðinni www.samsyn.is/loftmyndataka.
Fyrirtækið Samsýn var stofnað árið 1995 og keypti síðan ákveðna starfsemi út úr Verkfræðistofunni Hnit um áratug síðar. Meginstarfsemi fyrirtækisins tengist landupplýsingakerfum, kortagerð og stjórnkerfum fyrir vaktstöðvar svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtækið er umboðsaðili ESRI á Íslandi en þekktasta afurð þess er ArcInfo landupplýsingahugbúnaður með meiru. Hjá fyrirtækinu eru unnir ýmsir kortgrunnar og má nefna dæmi um birtingu þeirra á vefnum Já.is, þá eru unnin leiðsögukort fyrir GPS tæki og sambærilegan búnað og ýmis sérverkefni samkvæmt þörfum viðskiptavina sem fá þjónustu á mjög breiðu sviði í landupplýsingavinnslu.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .