Þegar kemur að því að tryggja varðveislu hins landræna menningararfs Íslendinga til framtíðar, blasir við að fara verður í sérstaka umræðu um menntunarmál á háskólastigi þar sem þverfagleg sjónarmið ráða för. Ólíklegt er að margnefnd varðveislumál lagist að ráði fyrr en breytingar verða á núverandi stöðu í samstillingu á kennslumálum á þessu sviði innan Háskóla Íslands. Fyrir utan það að varðveislustefnan er ekki til, ræður mestu um óvissuna að skortur er á bókasafns- og upplýsingafræðingum með þekkingu á hinum ólíku gerðum landrænna gagna og jafnframt vantar á vinnumarkaðinn landfræðinga með þekkingu á helstu þáttum gagnaskráningar og safnastarfs.
Þá væri einnig þörf fyrir sagnfræðinga með viðbótarmenntun annars vegar á sviði landfræði og hins vegar bókasafns- og upplýsingafræði.
Tvær leiðir eru einkum færar til úrbóta. Annars vegar er hægt að setja upp sérstakt námskeið þar sem farið væri á samræmdan hátt yfir þau fræðilegu mál sem segja má að séu brúin á milli landfræðinnar og upplýsingafræðinnar, þ.e. það sem nefnt hefur verið landræn upplýsingafræði. Hinn möguleikinn er að í mismunandi deildum Háskóla Íslands eru kennd námskeið sem taka á mörgum þeim þáttum sem nauðsynlegir eru til að mennta nemendur til starfa á þessu sviði. Að vísu þyrfti að bæta einhverju efni inn í nokkur af núverandi námskeiðum, meðal annars vegna fræðilegrar samþættingar. Síðari leiðin er líklega auðveldari í framkvæmd þó hún sé ef til vill ekki eins skilvirk.
Það er hins vegar ólíklegt að eitthvað gerist í þessum málum fyrr en einhverjir af kennurum Háskólans á áðurnefndum sviðum taka af skarið, beita sér fyrir samræmingarumræðu og leiða síðan samþættingarverkefni á þessu sviði. Ekki verður séð að viðbótarkostnaður Háskólans þyrfti að verða mikill verði seinni leiðin farin, því þar er hvorki um að ræða ný námskeið eða fleiri starfsmenn, heldur fyrst og fremst breyttar áherslur, samstilling milli nokkurra kennara og samstarf deilda og faggreina innan skólans. Lokaverkefni fyrir nemendur í samstarfi við stofnanir myndu skipta sköpum um að koma varðveislumálunum á hreyfingu. Þrátt fyrir viðræður við sérfræðinga innan Háskólans, greinaskrif og erindi á málþingum um varðveislumál hefur ekki tekist að hreyfa við kerfinu. Vonandi fær einhver áhuga á verkefninu áður en of langt líður.
Þorvaldur Bragason