apríl 2006

Leiðsögutæki í bíla selst vel hjá R. Sigmundsson

R.Sigmundsson hefur verið með til sölu nýtt leiðsögutæki í bíla sem selst hefur vel að undanförnu. Tækið sem er af gerðinni Nüvi 350 og er handhægt leiðsögutæki sem hentar þeim breiða hópi fólks sem vill hafa leiðsögutæki til að nota í bílinn í hálendisferðum á sumrin, en vill jafnframt geta notað tækið erlendis, hvort heldur er til að rata fótgangandi í helgarferðinni eða í bílnum. Tækið fæst bæði með Evrópukorti og Íslandskorti.

Náttúrufræðistofnun opnar Plöntuvefsjá

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur opnað nýja Plöntuvefsjá á Netinu. Með plöntuvefsjánni er Náttúrufræðistofnun að taka í sína þjónustu nýjustu tækni í miðlun upplýsinga um Netið þannig að notandinn getur nálgast traustar og áreiðanlegar upplýsingar um náttúru Íslands á myndrænan hátt. Plöntuvefsjáin er fyrsti áfangi í rafrænni miðlun náttúrufarsgagna stofnunarinnar og í henni má finna ítarlegar upplýsingar um háplöntur, mosa, fléttur og sveppi, útbreiðslu þeirra og einnig staðreyndasíður sem gefa ítarlegar upplýsingar um sérhverja plöntutegund með plöntulýsingu, ljósmyndum, röðun tegundar innan flokkunarfræðinnar, upplýsingum um búsvæði og útbreiðslu og fróðleik um skaðsemi og nytjar plöntunnar.

Nýr Vegaatlas Landmælinga Íslands

Landmælingar Íslands hafa gefið út nýjan Vegaatlas í mælikvarða 1:200 000. Kortin í atlasinum eru unnin upp úr ferðakortum í mælikvarða 1:250 000, en þannig fæst meira rými fyrir ýmsar ferðaupplýsingar.

Auk venjulegra korta sem eru á 50 blaðsíðum eru ýmis þemakort, s.s. um gististaði, tjaldsvæði, söfn, sundlaugar, golfvelli og fleira. Einnig er ítarleg nafnaskrá með yfir 15.500 örnefnum. Sérstaða bókarinnar felst meðal annars í skemmtilegu formi sem er á henni, en samanbrotin er hún aðeins 16 x 31 cm og því handhæg í bílinn. Þegar Vegaatlasinn hefur verið opnaður koma kostir þessa brots í ljós því þá er hægt að skoða opnu sem er um 60 cm breið og gefur því mjög góða yfirsýn yfir stórt landsvæði. Einnig er hægt að skoða eina blaðsíðu eða þá brjóta bókina saman í upphaflega formið og er notandinn þá kominn með 16 cm breiða kortasíðu. (Apríl 2006).

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...