Á nýjum „slóðum” (134)

Eitt mikilvægasta verkefnið á sviði upplýsingamiðlunar um landfræðileg gögn á netinu, er tenging við vefslóðir af ýmsu tagi. Framsetningu þeirra í veflausnum er gjarnan ætlað að gefa yfirsýn yfir landræn gögn og landfræðilegar vefþjónustur sem ekki er hægt að nálgast með samræmdum og/eða heildrænum hætti annars staðar á netinu. Núverandi verkefni undirritaðs á þessu sviði eru annars vegar vefgáttirnar tvær „landakort.is” (2007) og „landkönnun.is” (2018) og hins vegar kortasjárnar og jafnframt tilraunaverkefnin: „Vefkortasafnið” (2021) og „Loftmyndasafnið” (2021). Reyndar er fimmta verkefnið „Sérkortasafnið” tilbúið í prufuútgáfu, en bíður birtingar á opinberri vefslóð. Öll þessi verkefni eru byggð upp, fjármögnuð og rekin án opinberra styrkja eða fjárframlaga.

Vefkortasafnið er einstakt í sinni röð, en þar hefur verið mögulegt að kalla fram blaðskiptingar kortaflokka sem hafa verið útfærðar fyrir allt landið og fá síðan fram kort úr þessum þekktustu kortaflokkum Íslands með því að smella á reiti á skjánum. Fyrir nokkrum misserum voru tengd inn í fyrsta áfanga verkefnisins kort úr tæpum tveimur tugum kortaflokka, alls um 1500 kortatitlar sem þrjár stofnanir (Landsbókasafn Íslands, Landmælingar Íslands og Orkustofnun) höfðu sett út á netið og gert aðgengilegar. Reyndar voru lausnir stofnananna þriggja upphaflega eingöngu hugsaðar fyrir sérhannaða vefframsetningu á þeirra vegum á eigin vefsíðum, en ekki hugað að neins konar tengingum eða samræmi milli þeirra. Tengingin í Vefkortasafninu byggði sem sagt á því að afrita slóðir sem þegar voru á netinu og voru aðgengilegar gegnum vefþjóna og setja fram heildrænt á öðrum stað í gagnagrunni í tengslum við kortblaðaþekjur þekktustu kortaflokka af landinu. Þannig mætti fræðilega þróa eina skýra og einfalda lausn sem gerði það mögulegt að skoða öll kort af landinu úr þekktum kortaröðum frá hvaða stofnun eða safni sem er. Eina skilyrðið er að kortin hafi verið skönnuð og gerð aðgengileg á opnum vefþjóni hjá hverri og einni stofnananna.  Lausnin er því til og virkar vel, en vandamálið er að stofnanir í landinu hafa ekki klárað vinnu sína við að gera öll kort á sínu ábyrgðarsviði aðgengileg. Undantekningin frá því eru þó kort Orkustofnunar.

Vegna annarra verkefna fór lítil vinna fram við Vefkortasafnið lengst af á síðasta ári, en ég vildi einnig staldra við og athuga hvaða viðbrögð kæmu við verkefninu hjá notendum. Þegar ég fór að athuga málið á haustdögum kom í ljós að nokkur hluti tenginga við áðurnefnd 1500 kort hafði rofnað af einhverjum ástæðum. Við nánari athugun kom í ljós að kort á vefþjónum tveggja fyrrnefndra stofnana (Landsbókasafns og Orkustofnunar), höfðu verið færð til og sett á nýjar slóðir og í tilfelli Landsbókasafns umturnað þannig að eftir á var ómögulegt að finna út hvað var hvað. Ég hafði auðvitað ekki verið látinn vita, enda höfðu einhverjir aðrir en umsjónarmaður kortanna tekið ákvarðanir um færsluna og breytingu vefslóðanna án þess að gera sér grein fyrir að fyrri slóðirnar nýttist fleirum en einungis einni tiltekinni stofnun eða safni. Það reyndist hins vegar auðvelt að tengja aftur inn kort frá Orkustofnun.

Þetta leiðir hugann að því að það þarf að verða til einhvers konar formlegt samkomulag milli opinberra stofnana sem báru ábyrgð á gerð korta í fortíðinni eða hafa gefið út kort á liðnum áratugum. Sama er að segja um söfnin sem varðveita kortaflokka af Íslandi, enda eru ekki allir kortaflokkar gerðir af íslenskum stofnunum í upphafi, eins og þekkt dæmi sanna frá Dönum, Bandaríkjamönnum og Bretum.

Helstu stofnanir, fyrir utan þær þrjár fyrrnefndu, sem varðveita söfn eldri korta úr stærri kortaröðum og eiga eftir að leggja vinnu í að gera kortin aðgengileg á netinu eru: Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Sjómælingar Íslands. Í þann hóp má einnig bæta kortum frá Landsvirkjun, Rarik, Vegagerðinni og veitufyrirtækjunum sem síðar runnu saman og urðu að Orkuveitu Reykjavíkur (rafveita, vatnsveita og hitaveita). Í dag er staðan sú að tengingum við kort Landsbókasafns sem áður voru virkar í Vefkortasafninu hefur enn sem komið er ekki verið hægt að koma á aftur. Það er jafnframt miður að aðeins lítill hluti kortasafns Landmælinga Íslands og Landsbókasafns Íslands sé komin á það stig að hægt sé að tengja þau inn og er óskandi að unnið verði að slíku fyrir meginhluta kortasafna þeirra, svo að þau verði hæf til tengingar við Vefkortasafnið. Ekki er vitað til að á öðrum stofnunum sé nein vinna í gangi eða fyrirhugað að setja nein skönnuð kort á netið. Er vonandi að það viðhorf breytist.

Vefkortasafnið er mikilvægt samfélagslegt verkefni, sem ekki verður til lengdar hægt að reka af einstaklingi, þó að nauðsynlegt sé að byggja það upp á vinnslutíma undir samræmdri yfirsýn. Það er mjög miður ef áðurnefndu stofnanirnar sem bera ábyrgð á kortunum í sinni eigu eru hvorki  áhugasamar né tilbúnar til að taka höndum saman og styðja með innanhússvinnu hjá hverjum og einum að almenningur í landinu geti á einum stað í framtíðinni skoðað á netinu öll kort sem orðið hafa til af Íslandi.

Viðhald slíks verkefnis til framtíðar, þegar það væri tilbúið með öllu efni sem til er, þarf síðan að verða á ábyrgð einhverrar opinberrar stofnunar eða safns. Ég hef fyrir mörgum árum bent á það í pistli á landakort.is að brýn þörf sé á opinberri stefnu í varðveislumálum landfræðilegra gagna á Íslandi, en stefnan er ekki til og það er enginn sem telur það sitt hlutverk eða verkefni að semja hana hvað þá að framfylgja slíkri stefnu. Sú brýning á enn við og er ef til vill enn mikilvægari nú þegar stofnanir eru að renna saman í breyttar einingar sem leggja minni áherslur á menningararfinn heldur en stafræna vegferð með nýjum gögnum. Þekkingin á útgefnum og sérunnum eldri kortum er smátt og smátt að deyja þar út. Það er hlutverk stjórnvalda á stjórnsýslustigi ráðuneyta að beita sér fyrir því að stefnumótun á þessu sviði fari fram. Töf á þeirri stefnumótun kemur þó ekki í veg fyrir að stofnanir og söfn vinni saman að vefrænni framsetningu fyrir sína vefi og kortasjár auk samræmdrar framsetningar í Vefkortasafninu á þeim kortum sem stofnanirnar gerðu og gáfu út á fyrri tíð.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .