Að framfylgja INSPIRE tilskipuninni (104)

Það hljóta allir sem vinna með landfræðileg gögn að vera sammála um mikilvægi þess að geta haft góða yfirsýn yfir hvað til er af stafrænum gagnasettum, vita til dæmis úr hverju þau eru gerð, sjá hvaða svæði þau sýna og fá upplýsingar um hvernig er hægt að fá aðgengi eða afrit af þeim. Af þessum ástæðum eru meðal annars lýsigagnagrunnar, lýsigagnaþjónustur og niðurhalsþjónustur mikilvægar. Til þess að eiga samskipti með og samnýta gögn er nauðsynlegt að gagnasett á sérhverju fagsviði séu gerð með sama hætti og sama gagnasettinu ekki viðhaldið á mörgum ólíkum stöðum í einu. Þess vegna eru staðlar nauðsynlegir. Jafnframt verður að vera á hreinu skilgreiningin á því hver gerir hvað og hver ber ábyrgð á hvaða gögnum í samfélaginu. Til þess að ná utan um þessi og fleiri sambærileg málefni á sviði stafrænna landupplýsinga varð INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins til.

INSPIRE (Infrastructure for Spatial Information in Europe) kom fram fyrir meira en áratug síðan og var sett í lög allra landa innan Evrópusambandsins og á evrópska efnahagssvæðinu á næstu árum á eftir, þar á meðal á Íslandi árið 2011 (Lög um grunngerð stafrænna landupplýsinga, nr. 44/2011). Í hverju landi er ábyrgðaraðili skilgreindur og ber honum að framfylgja innleiðingu tilskipunarinnar í sínu landi samkvæmt ákveðinni tímaáætlun. Ábyrgðin á Íslandi er hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem hefur falið Landmælingum Íslands að framfylgja verkefninu fyrir sína hönd. Stofnunin hefur unnið að verkefninu um árabil og má lesa um framkvæmd og stöðu þess á sérstökum vefhluta á vefsíðu Landmælinga. Ráðuneytið skipaði svonefnda samræmingarnefnd sem skilaði aðgerðaáætlun í verkefninu í árslok 2013. Í nefndinni sátu 10 fulltrúar tilnefndir af ráðuneytum, samtökum og stofnunum sem vinna á sviði landupplýsinga. Samstaða varð í nefndinni um mat á þeirri stöðu sem skýrslan tilgreinir og einnig voru fulltrúarnir í nefndinni sammála um hvað þyrfti að gera til að nýta slagkraftinn sem fengist með svo mikilvægri tilskipun.

Stöðumatið byggðist meðal annars á víðtækum könnunum sem fyrirtækið Alta vann fyrir Landmælingar og gaf að mínu mati gott yfirlit um stöðu ýmissa þátta varðandi stafræn landfræðileg gagnasett á Íslandi.  Sem fulltrúa í nefndinni fannst mér það ef til vill mikilvægast að skýrslan tók til þess að ákvarða þyrfti hvert ætti að vera hlutverk allra þeirra íslensku stofnana sem eiga gögn og hvaða stofnanir ættu að bera ábyrgð á gerð gagnasetta í öllum 34 efnisflokkum (viðaukagreinum) tilskipunarinnar. Um það var gerður langur og mjög góður viðauki í skýrslunni þar sem fjallað var um hverjir ættu gögn í hvaða flokki og í mörgum tilfellum bent á hvaða stofnanir ættu að bera faglegu ábyrgðina. Í tæpum helmingi tilfellanna 34 lá ekki fyrir ákvörðun um hvaða stofnun það ætti að vera, en þar voru einkum fagmál innan viðauka III, þar sem er 21 undirgrein (efnisflokkar).

Landmælingar Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytið unnu síðan í framhaldinu að skýrslugerð um efnisgreinar í viðaukum I og II og skiluðu um það stöðuskýrslum, en í nær öllum þeim greinum var ekki ágreiningur um ábyrgð stofnana. Einhver misseri eru liðin síðan það var og ekki vitað til þess að sambærileg vinna sé í gangi fyrir efnisatriðin í viðauka III, enda eru þar flóknustu úrlausnaratriðin hvað ábyrgðina varðar. Eitt atriði úr viðauka II var þó skilið eftir, en það er hvaða stofnun á að bera ábyrgð á jarðfræðigögnum (II-4).

Ábyrgð í hverjum málaflokki felur það í sér að viðkomandi stofnun þarf að taka saman gögn á tilteknu fagsviði, bæði sín eigin og fá gögn á sama sviði frá öðrum stofnunum í sama landi séu þau til, og skipa þeim í gagnatöflur og landræn gagnasett samkvæmt fyrirfram skilgreindum tæknilýsingum (Technical Guidelines) frá INSPIRE. Gagnasettunum á síðan að skila til Evrópusambandsins fyrir tiltekinn tíma. Í þessu sambandi er ljóst að það getur tekið bæði tíma og falið í sér verulegan kostnað á hverri stofnun að vinna slíkt verk. Jafnframt er verið að skuldbinda viðkomandi stofnun til að viðhalda gögnunum til framtíðar. Ákvarðanir liggja hins vegar ekki fyrir um landsábyrgð í hátt í helmingi þeirra málaflokka sem eru í viðaukum aðgerðaáætlunarinnar, þó að í mörgum tilfellum ætti að vera nokkuð ljóst hverjum ber að taka ábyrgðina. Í þeim tilfellum þar sem óákveðið er hver beri ábyrgð, þá þarf slík ákvörðun að mínu mati að vera á borði forstjóra viðkomandi stofnunar með vitund og samþykki ráðuneytis stofnunarinnar. Slíkar skuldbindingar geta ekki verið eingöngu ákvarðaðar af fagsviðsstjórum viðkomandi stofnana eða sérfræðingum þeirra á sviði landupplýsinga.

Það er rétt að fram komi að INSPIRE tilskipunin gerir ekki kröfur um að til verði ný gögn á vinnslutíma tilskipunarinnar, heldur að þeim gögnum sem til eru á hverju sviði verði skipað á skilgreindan hátt samkvæmt fyrirfram gerðum tæknilýsingum, sem reyndar reynast misítarlegar eftir efnisflokkum. Þá fjallar tilskipunin ekkert um eldri landfræðileg gögn sem ekki eru stafræn, heldur fyrst og fremst ný stafræn gagnasett. Spyrja má einnig hvað eigi að gera með gagnasögu eldri stafrænna gagnasetta, sem að einhverju leyti má lesa út úr lýsigagnaverkefninu Landlýsingu sem nú hefur verið lokað og eldri gerð landupplýsingagáttar LMÍ.  Tilskipunin tekur ekki á slíku. Það er því ljóst að við erum með verkfæri í höndunum til að skipuleggja verkefni framtíðar, en ekki til að fara með sama hætti í gegnum og skipuleggja aðgengi að arfi fortíðar.

Ákvörðun um ábyrgð á fagmálaflokkunum sem skilgreindir eru í INSPIRE tilskipuninni eru að mínu mati brýnasta verkefnið í innleiðingunni á Íslandi. Aðgerðaáætlunin sem er orðin fimm ára er þar mjög góður vegvísir, en því miður er eins og eitthvað hafi stöðvast og ekki sé verið að vinna nægjanlega í að lagfæra stöðuna sem þar kemur fram. Þó að gert hafi verið „INSPIRE“ gagnasett á flestum sviðum undir viðauka I og II og skilað út til Evrópu á ensku, er ekki þar með sagt að íslenska útgáfa gagnasettsins sé af viðunandi gerð fyrir innanlandsnot á Íslandi. Það hefur hugsanlega þvert á móti ekki verið gert neitt í að laga gögnin og við það býr landupplýsingageirinn í landinu. Nokkur dæmi um gagnasett sem í fyrrnefndri könnun Alta kom fram að þyrfti að laga, samræma eða útfæra með meiri nákvæmni eru: strandlína landsins, gagnasett um þjóðlendulínu, stórstraumsfjörumörk, sveitarfélagamörk og jarðamörk. Þegar sömu spurningar hefur verið spurt síðar í könnunum á þessu sviði hafa svipaðar niðurstöður komið í ljós.

Nú virðist hreyfing vera að komast á umræðu um þetta mál hjá Landmælingum Íslands og er vonandi að með samráði komi fram ákvarðanir í áðurnefndum málum. Það verða allir að leggjast á eitt um að setja verkefni eins og þessi í forgang og stýra þá fjármagni viðkomandi ráðuneyta þannig að þau fáist unnin. Í einhverjum tilfellum eru notendur núverandi gagnasetta í vandræðum með að vinna önnur lögbundin verkefni sín vegna fyrrnefndrar stöðu.

INSPIRE tilskipunin og hið gríðarlaga umfang stafrænna landupplýsingaverkefna í tengslum við hana í öllum löndum Evrópu er eitt stærsta tækifæri sem íslenskt samfélag hefur fengið um langan tíma til að ná mikilvægum skrefum í samræmingu, samhæfingu og skipulagi landfræðilegra gagna. Tilskipunin sem hluti af hugmyndafræði GSDI (Global Spatial Data Infrastructure) er í raun alþjóðleg tilraun til að samstilla vinnslu með öll stafræn landupplýsingagögn, í hvaða landi sem þau eru unnin. Það er ekki endalaus tími í verkefninu þar sem ákveðnar vörður eru varðandi tímasetningar og verklok. Látum ekki gott tækifæri fara forgörðum.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...