Að þýða „Spatial Data Infrastructure“ (40)

Hugmyndafræði grunngerðar á sviði landupplýsinga hefur verið mikið í umræðunni síðasta aldarfjórðunginn. Á ensku er talað um Spatial Data Infrastructure (SDI) sem skiptist í meginatriðum í hnattræna grunngerð (e. Global SDI), svæðisbundna grunngerð (e. Regional SDI) og landsgrunngerð (e. National SDI). INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins fjallar í rauninni um innleiðingarverkefni fyrir þessa hugmyndafræði í löndum Evrópu og á evrópska efnahagssvæðinu, þar sem stöðluð upplýsingagjöf, gagnavinnsla og gagnamiðlun á landsvísu í einu landi á að ganga upp í heildarmynd fyrir svæðisbundna og hnattræna grunngerð.

En hvað felst í raun og veru í orðinu grunngerð? Einfaldasta svarið við því er að hugmyndafræðin snýst um skipulag á sviði landfræðilegra upplýsinga í mjög víðum skilningi. Orðanotkun fyrir þetta hugtak hefur hins vegar verið nokkuð mismunandi. Margir hafa á liðnum árum notað þýðinguna „grunngerð landupplýsinga“, aðrir „grunngerð landfræðilegra gagna“ og einhverjir „grunngerð landrænna gagna“. Þegar lög nr. 44/2011 um innleiðingu INSPIRE voru samþykkt á Alþingi var notað hugtakið „grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar“.

Þegar þýðingarþjónusta utanríkisráðuneytisins fékk í framhaldi af lagasetningunni nokkrar skýrslur og skjöl um INSPIRE til þýðingar komu upp nokkrar spurningar, þar sem þau orð og hugtök sem notuð voru í daglegu tali í fagmáli landupplýsinga voru ekki endilega nákvæmar þýðingar á erlendum fagheitum. Því lagði þýðingarþjónustan fram tillögu að mjög róttækri ákvörðun sem fór í fyrstu nokkuð þvert í marga sem unnið hafa með landupplýsingar. Orðanefnd LÍSU og þýðingarþjónusta Utanríkisráðuneytisins áttu um tíma í viðræðum um þessi mál, en það er hins vegar staðreynd að þegar þýðingarþjónustan hefur þýtt og gengið frá skjali og í raun „gefið út“ íslenska gerð þess verður ekki auðveldlega aftur snúið. Það má hins vegar segja að þó margt af því sem þarna kom á blað hafi í upphafi stuðað marga, er ýmislegt sem venst vel.

Frá sjónarhóli hugmyndafræðinnar um kerfisbundinn efnisorðalykil var grunnhugtakið sett fram nokkuð breytt frá orðræðunni sem verið hafði fyrir stafræn landfræðigögn, þ.e. landgögn (e. spatial data). Með því að festa forskeytið „spatial“ sem „land“ kemur fjöldi orða í kjölfarið sem huga þarf að. Spatial Data Infrastructure verður þá „grunngerð landgagna“ og er um leið samheiti við aðrar þýðingar hugtaksins eins og „grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar“. Spatial database, gagnagrunnur fyrir landgögn, verður landgagnagrunnur; spatial dataset series, flokkur þekja af landgögnum, verður landgagnaröð sem er þrengra heiti en landgagnagrunnur; spatial dataset, þekja stafrænna landgagna, verður landgagnasett sem er þrengra heiti en landgagnaflokkur og spatial dataset service, vefþjónusta fyrir landgagnasett, verður landgagnaþjónusta sem er þá skylt heiti. Landgagnaþekja, þekja stafrænna landgagna, verður þá samheiti við landgagnasett (e. spatial dataset). Almenna hugtakið gögn er svo víðara heiti en bæði landgögn og staðgögn (e. geospatial data) í merkingunni stafræn landfræðileg gögn.

Nánar um landræn efnisorð á landakort.is.

Þorvaldur Bragason

 

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .