Samtök kortastofnana í Evrópu, CERCO síðar EuroGeographics, höfðu töluverð áhrif á umræður um málefni landrænna lýsigagna í Evrópu, fyrst með GDDD verkefninu (Geographical Data Description Directory) í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar og síðar með EuroMapFinder í upphafi þessarar aldar, en í því var byggt á hugmyndafræði Svissneska GeoCAT verkefnisins. Þar var mikil áhersla á vefhugbúnað sem veitti aðgang að lýsigagnaskrám á nokkrum tungumálum, í því tilfelli fjórum. EuroMapFinder náði reyndar aldrei flugi eftir opnun á Netinu árið 2005, en þá hafði umræðan um INSPIRE tekið yfir og í tengslum við hana kom fljótlega fram á Netinu nýr evrópskur lýsigagnavefur, INSPIRE Geoportal, sem settur var upp af Evrópusambandinu í tengslum við tilskipunina. Jafnframt var farið að þróa landrænar lýsigagnalausnir byggðar á nýjum alþjóðlegum staðli.
Finnar og Danir voru framan af leiðandi í lýsigagnavinnu á vegum CERCO og því kom ekki á óvart að ýmsar nýjungar kæmu úr þeim farvegi. Danski lýsigagnahugbúnaðurinn, Geodata-info, sem síðar var einnig notaður fyrir íslenska lýsigagnavefinn Landlýsingu, var hannaður hjá dönsku kortastofnuninni, Kort- og matrikelstyrelsen (KMS), í samstarfi við Danmarks Tekniske Universitet (DTU). Starf KMS á þessu sviði hófst árið 1992, fyrstu lýsigögnum var dreift á disklingum 1994, en samstarf KMS og DTU hófst árið 1996 sem á endanum skilaði hugbúnaði Geodata-info.dk á veraldarvefinn árið 1997. Vefurinn þótti mikið framfaraskref í aðgengi að landrænum lýsigögnum í Evrópu. Á þeim tíma miðaðist framsetning lýsigagna í álfunni við evrópska lýsigagnastaðalinn CEN TC 287, en árið 2003 kom fram alþjóðlegi lýsigagnastaðallinn ISO 19115 fyrir landfræðileg gögn og varð samstaða á heimsvísu um að smám saman yrði dregið úr notkun eldri staðla, þar á meðal FGDC, CEN/TC 287 og ANZLIC. Danski hugbúnaðurinn eins og margir aðrir var þó keyrður áfram um sinn með sama hætti og áður. Danir útfærðu hugbúnaðinn einnig fyrir grænlensk landupplýsingagögn með sérstökum lýsigagnavef og notuðu búnaðinn síðan sjálfir áfram fyrir dönsk gögn næstu árin, þar til um áratug síðar að þeir lögðu hann af og tóku í gagnið nýjan búnað sem unninn var í samstarfi Norðurlandaþjóða og miðaði við lýsigagnaskráningu samkvæmt hinum alþjóðlega ISO 19115 staðli.
Geodata-info.dk byggði annars vegar á innsetningarhugbúnaði fyrir lýsigögn og hins vegar á búnaði til að varpa skráðum gögnum úr gagnagrunni yfir í vefviðmót þar sem leita mátti að upplýsingum eftir nokkrum fyrirfram skilgreindum leiðum. Samhliða innsláttarhugbúnaði sem var staðsettur miðlægt á einum stað fyrir verkefnið, voru útbúin eyðublöð fyrir þátttakendur í verkefninu vegna söfnunar upplýsinga um gagnasett stofnana og sveitarfélaga. Í vefviðmótinu var hægt að leita að upplýsingum um stofnanir og sveitarfélög, sjá yfirlit yfir gagnasett þeirra, raða gagnasettum eftir titli, sjá efnisflokka, mælikvarðaflokka og flokkun eftir landsvæðum svo eitthvað sé nefnt. Með því að skoða lista yfir þátttakendur mátti finna upplýsingar um hvaða gagnasöfn hver þeirra hafði undir höndum auk upplýsinga um póstföng, símanúmer og vefsíður.
Með því að skoða lýsigagnafærslurnar sjálfar mátti síðan fá mjög ítarlegar upplýsingar um hvert gagnasett, þ.á.m. ágrip um efnisinnihald, tilgang, gerð gagna, notkun, uppruna, nákvæmni, staðsetningarkerfi, umfang og stöðu gagna, gagnaskilgreiningar (t.d. eigindi), takmarkanir á notkun, réttindi, ábyrgðaraðila, tengiliði, gagnamiðla og form svo eitthvað sé nefnt.
Hugbúnaðurinn og leyfi til að nota hann fékkst hingað til lands án endurgjalds og var gerður samstarfssamningur um verkefnið milli Landmælinga Íslands og Kort- og matrikelstyrelsen á árinu 1998, með ákvæðum um þátttöku samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA) að nýtingu búnaðarins. Gert var sérstakt samkomulag þar um milli LMÍ og LÍSU, en samtökin höfðu þá þegar stofnað sérstaka lýsigagnanefnd. Verkefnið fékk heitið Landlýsing. Lýsigagnanefnd LÍSU samtakanna (um tíma fagráð Landlýsingar) stjórnaði síðan þýðingum á hugbúnaði, vefviðmóti og eyðublöðum auk þess að standa fyrir efnissöfnun meðal þátttakenda í verkefninu frá upphafi. Skipulagsstofnun lagði til vinnu við aðlögun hugbúnaðar fyrir íslenskt umhverfi og innan vinnunefnda LÍSU var unnið að skilgreiningum hugtaka og þróun skráningaraðferða fyrir íslenskar aðstæður. Hugbúnaðurinn var settur upp á vefþjón hjá LMÍ á árinu 2000, þar sem verkefnið var vistað þar til því var lokað seint á árinu 2014. Nefndin sá um yfirlestur en innsláttur upplýsinga fór fram hjá LMÍ. Það var síðan hlutverk lýsigagnanefndarinnar að hvetja til skráningar á landrænum lýsigögnum meðal þeirra sem vinna og halda utan um slík gögn hér á landi.
Þorvaldur Bragason