Aðgengis- og varðveislustefnu vantar (103)

Samhæfing verkefna sem falla undir fagsvið upplýsingafræði landrænna gagna verður að byggjast á stefnu um aðgengismál og varðveislu slíkra gagna, en opinber stefna í þessum málaflokki er ekki til. Vinna við gerð aðgengis- og varðveislustefnunnar ætti almennt að falla undir upplýsingastefnu stjórnvalda en sértæk ábyrgð þessa fagmálaflokks tilheyrir að öllum líkindum mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem yfirvalds lykilsafna landsins sem og háskólanna. Ráðuneytið þyrfti að huga að því að láta greina stöðuna, sem gerði það mögulegt að þeir sem veljast til að undirbúa og vinna við að setja fram slíka stefnu í framtíðinni hafi fyrirliggjandi forsendur fyrir framan sig þegar vinnan hefst.

En hvað þarf til að aðgengis- og varðveislustefna fyrir landfræðileg gögn hér á landi verði að veruleika? Eru þessar upplýsingar ekki til skráðar einhvers staðar með samræmdum hætti á einum stað og eru ekki til erlendar fyrirmyndir að slíku verkefni? Svarið við hvoru tveggja er nei. Það er hins vegar að mínu mati sem betur fer til allgóð fyrirmynd að því hvernig mætti hugsanlega vinna að þessu stefnumótunarverkefni, en sú fyrirmynd birtist í desember 2013 í skýrslunni: „Aðgerðaáætlun um uppbyggingu, rekstur og viðhald grunngerðar fyrir stafrænar landupplýsingar um Ísland“. Skýrslan var unnin af nefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Samræmingarnefnd um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, sem var skipuð tímabundið í tengslum við lög nr. 44/2011 um grunngerð fyrir stafrænar upplýsingar á Íslandi.  Þessi skýrsla tekur á stafrænum landupplýsingamálum í samfélaginu og kom fram með margar góðar hugmyndir þó ekki hafi nema að litlu leyti verið farið eftir þeim enn. Í skýrslunni er hins vegar ekkert fjallað um landfræðilegu frumgögnin í samfélaginu (hefðbundin kort, loftmyndir og gervitunglamyndir), sem er það vandamál sem við þurfum að leysa. Það er því engin efnisleg skörun milli þessara verkefna þó framkvæmd stefnumótunar gæti hugsanlega unnist eftir svipuðum ferlum.

Það vantar því enn forsendurnar fyrir því að hægt sé að vinna verkefnið, en þær eru að til þarf að vera samræmt yfirlit yfir alla gagnaflokka, hvort sem þeir tengjast kortum, loftmyndum eða gervitunglagögnum af landinu. Þetta á við upplýsingaöflun meðal annars um eðli gagna, á hvaða formi þau eru, hvaða svæði þau sýna, hver á þau og varðveitir, hvar þau eru geymd (á Íslandi eða erlendis), hvert er ástand þeirra og skráningarstaða, hvert er umfang eða magn gagna í hverjum gagna- eða efnisflokki, eða er beint aðgengi að einhverjum upplýsingum um þau á netinu annað hvort í kortasjám eða á vefsíðum. Svona mætti lengi telja en ljóst er að þessar upplýsingar eru ekki til á einum stað og ekki viðlit að ná þeim saman nema leggja af stað í leiðangur með reynsluna að vopni við að afla þessara upplýsinga áður en undirbúningsstarf um aðgengis- og varðveislustefnu landfræðilegra gagna á Íslandi getur hafist.

Slíkt gagnaöflunarverkefni hefur verið undirbúið og skipulagt og hægt er að hefjast handa nú þegar ef opinber stuðningur ráðuneytis sem bakhjarls slíks verkefnis og fjármagn fengist til gagnasöfnunarinnar. Verði verkefni sem þetta ekki unnið áður en stefnumótunarstarfið færi fram væri verið að setja stefnu út frá óljósum forsendum sem myndi ekki skila tilætluðum árangri, þar sem heildarsýnin væri ekki fyrir hendi.

Fljótt á litið er talið að flokkar íslenskra korta (þ.e. samhangandi kort samkvæmt skilgreindri blaðskiptingu) geti hugsanlega verið hátt í tvö hundruð þegar allir óútgefnir kortaflokkar þ.á.m. skipulagskort og önnur tæknikort (skipt niður á ábyrgðaraðila og ólíka mælikvarða) eru tekin með í myndina. Flokkar fjarkönnunargagna (loftmynda og gervitunglagagna) gætu einnig verið nokkuð á annað hundraðið, eftir því hvernig flokkun væri skilgreind. Í hverjum gagnaflokki getur verið mikill fjöldi korta eða mynda, eins og í sumum loftmyndaflokkum þar sem myndir skipta þúsundum eða líkt og dæmi eru um á annan tug þúsunda, allt niður í kortaflokka sem samanstanda aðeins af nokkrum kortblöðum.

Þetta efni er mjög dreift á stofnunum, hjá sveitarfélögum, í söfnum og hjá fyrirtækjum innanlands sem utan. Það er án efa seinlegt að vinna hverja færslu þar sem upplýsingar um þau 20 atriði sem fyrirhuguð skráning um hvert gagnasafn nær til liggja oft alls ekki fyrir og jafnvel eru ekki á stofnunum lengur neinir starfsmenn sem þekkja til gerðar gagnaflokksins. Því getur þurft að fara út í umtalsvert grúsk til að fá niðurstöður í skráningar og án efa er ekki í öllum tilfellum hægt að klára útfyllingu allra skráningaratriða.

Með slíka skrá í aðgengilegri netlausn væri hins vegar hægt að fá tiltölulega góða nálgun á umfang gagna hjá hverjum aðila, gagnagerð og gagnaflokka hvers og eins, gagnamagn og vísun í nánari upplýsingar svo dæmi séu tekin. Með skrána fyrir framan sig væri hægt að leggja upp stefnumótun og gerð forgangsraðaðrar aðgerðaáætlunar fyrir verkefnið. Þar með væri hægt að meta umfang verkefna hverrar stofnunar og annarra aðila við að skrá og ganga frá sínu efni bæði til varðveislu og aðgengis á netinu, sem er nauðsynlegt að skipuleggja frá byrjun. Síðan yrði þetta efni eðli málsins samkvæmt ekki geymt á einum eða tveimur stöðum, heldur mögulegt gegnum veflausn að skoða gögn og finna hvar hvaða gögn eru fáanleg innanlands sem utan.

Niðurstöður fyrrnefnds skráningarverkefnis ættu einnig að geta skilað upplýsingum til að nýta við það að skipuleggja uppsetningu á kortasjám annars vegar fyrir íslensk kort og hins vegar fyrir íslensk fjarkönnunargögn. Á þessari stundu eru allar tölur um gagnamagn einungis ágiskanir. Talið er að loftmyndir af landinu séu nokkuð á þriðja hundrað þúsund mismunandi myndir (1937-2018), ef til vill 250 000. Gervitunglamyndir með þokkalegri upplausn, sem langflestar geymast erlendis, skipta samkvæmt skrám tugum þúsunda (1972-2018), en útgefnir og óútgefnir kortatitlar sem falla undir mismunandi lög (Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn) eru hugsanlega á annan tug þúsunda. Það er því eftir miklu að slægjast að búa til það heildaryfirlit sem enginn hefur í dag. Slíkt þarf að gera sem fyrst meðan enn eru á meðal okkar margir þeirra sem best þekkja til gagnasafnanna og þó einhverjir þeirra séu komnir á eftirlaun mætti enn leita til þeirra.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...