Almennt um íslenskar kortasjár  (131)

Nothæf tölfræði um íslenskar kortasjár hefur ekki verið fyrir hendi til þessa. Í pistli mínum sem birtur var á landakort.is fyrir meira en fjórum árum* varðandi afritun og heimildir um kortasjár var vakin athygli á þessari staðreynd og velt upp hugmyndum um hvað þyrfti að hafa í huga til að slík tölfræði gæti orðið til. Á árinu 2021 fór ég að huga að því að finna leið til að taka saman drög að slíkri tölfræði, eftir að hafa reynt að afla upplýsinga um eldri sem yngri kortasjár hjá þeim sem þekkja best til þessarar sögu.

Kortasjár bjóða uppá helstu leið okkar í dag til að birta og veita aðgengi að kortum og kortatengdu efni. Vægi kortabóka og útgefinna korta hefur minnkað jafnt og þétt eftir því sem aðgengi að kortasjám og veflausnum hefur orðið meira. Kortasjárnar eru hins vegar forgengilegri en kortabækurnar og hraðfara breytingar í veftækni gera það að verkum að þær vilja úreldast á fáum árum. Slík örlög leiða til þess að þeim er umsvifalaust lokað, í flestum tilfellum án úlitsafritunar og þar með eru heimildir um þær horfnar fyrir fullt og allt. Kortabækur og pappírskort varðveitast hins vegar vel og eru skráð og geymd sem slík meðal annars í söfnum um ókomna tíð.

Það er erfitt fyrir almenna notendur að hafa yfirsýn yfir alla þá kosti sem bjóðast varðandi kort af Íslandi á netinu. Fjölbreytnin er mikil í efnistökum kortasjánna og margir hafa mikla ánægju af því að flakka á milli fjölbreyttra kosta og kynna sér þannig einstakt efni eins og hægt er að gera í formi korta. Í slíkum tilfellum eru tenglagáttir eins og landakort.is mjög mikilvægar. Sú vefgátt var einnig mjög gagnleg þegar kom að því að finna heimildir aftur í tímann um gamlar kortasjár.

Helstu tól og tæki við þessa vinnu voru annars uppfletting á vefsafn.is sem haldið er úti á vegum Landsbókasafns Íslands. Þó engin kortasjá sjáist þar með birtingu útlits, þá er oft hægt að finna þar gamlar vefslóðir. Á vefsafn.is var einnig hægt að finna gamlar vefsíður stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja og rekja sig þannig með margar kortasjár að líklegum upphafstíma, en yfirleitt ekki lokunartíma.

Í upphafi gerði ég mér grein fyrir að heimildir eru oft af mjög skornum skammti. Lítið er til skrifað um flest verkefni í þessum flokki og því verður oft að beita ágiskunum, sérstaklega ef verið er að skoða það tímabil sem hver og ein kortasjá hefur verið opin öllum á netinu. Það má þó beita ákveðinni nálgun á ártöl, en þetta var það sem erfiðast var að fá fram. Þó að þeir sem sáu um kortasjárnar meðan þær voru opnar væru spurðir um það hvenær þeim hefði verið lokað var oft fátt um svör. Það er ekki alltaf hægt að treysta á minnið í slíkum málefnum

En hvað er talið vera kortasjá í þessari samantekt? Forsendurnar sem ég gaf mér voru að kortasjáin þarf að hafa verið opin öllum á netinu án lykilorðs og vefslóðin þarf að vera þekkt þó sjánni hafi síðar verið lokað. Aðgreining er jafnframt gerð milli kortasjáa sömu aðila ef skipt hefur verið um þjónustuaðila og notaður annar hugbúnaðar jafnvel þó notuð sé sama vefslóð. Þannig er ekki óalgengt að kortsajár sveitarfélaga teljist vera tvær eða jafnvel fleiri ef skipt hefur verið um þjónustuaðila / hugbúnaðarsala og þar með kemur einnig fram gjörbreytt útliti og virkni.

Frá því að fyrstu kortasjárnar komu fram hér á landi fyrir meira en tveimur áratugum hefur margt breyst. Þjónustuaðilar sem voru fyrirferðarmiklir í byrjun tímabilsins hafa horfið af markaðnum og nýir komið í staðinn. Virkni og útlit hugbúnaðarlausna hefur breyst umtalsvert á tímabilinu og fáar ef nokkrar kortasjár sem voru til fyrir um áratug eru lengur til í sömu mynd og þær voru upphaflega.

Hér verður annars ekki farið djúpt í að birta nána greiningu á þeim fjölda kortasjáa sem eru þjónustaðar af hverju fyrirtæki, en miðað við núverandi stöðu er eins og vitað er eitt fyrirtæki, Loftmyndir ehf. að þjónusta flesta, einkum er það áberandi í hópi sveitarfélaganna. Hins vegar er meira jafnvægi í fjölda þegar kemur að kortasjám annarra en sveitarfélaga, en á þeim markaði eru Loftmyndir og Samsýn með jafnari hlut. Þá hefur Alta komið inn á þennan markað með vaxandi hætti á liðnum árum. Önnur fyrirtæki eins og til dæmis Snertill og Gagarín hafa hins vegar horfið af þessum markaði.

Miðað við fyrrnefndar forsendur kom í ljós að í lok árs 2021 hafa fundist heimildir um á þriðja hundrað kortasjár. Um þriðjungi þeirra hefur verið lokað en opnar kortasjár sem þekktar eru á þessum tímapunkti eru um 140. Gera verður fyrirvara um þessar tölur þar sem heimildir um einhverjar gamlar kortasjár, sem falla að fyrrnefndri skilgreiningu, kunna að hafa týnst eða gleymst, en ekki er útilokað að heimildir eða vefslóðir gætu komið fram síðar við frekari leit. Heildartalan er því eitthvað hærri, en hversu mikið hærri er erfitt um að segja. Æskilegt er að þessar og fyllri niðurstöður verði settar fram á netinu síðar, ef til vill í sjálfstæðum lýsigagnagrunni. Þannig gætu þeir sem til þekkja komið með ábendingar og athugasemdir, sem myndu fylla betur inn í myndina. Það er hins vegar ekki ásættanlegt að áratugir líði án þess að lykilsafn landsins, Landsbókasafn, sem tekur reglulega afrit af öllum íslenskum vefsíðum á íslenskum lénum til birtingar á vefsafn.is takist ekki á við þá áskorun að finna lausn á afritunarmálum íslenskra kortasjáa. Það eru ekki rök að þetta efni sé of flókið og þar með þurfi ekkert að gera. Nú þegar hafa yfir 80 kortasjár horfið af netinu fyrir fullt og allt án þess að við munum hvernig flestar þeira litu út. Orkustofnun er líklega eina stofnunin sem hefur birt á vefsíðu sinni upplýsingar um sögu, útlit og virkni allra eldri kortasjáa, þ.e. þeirra fimm kortasjáa stofnunarinnar sem hefur verið lokað.

Þegar nánari heimildasöfnun hefur ferið fram, er stefnt að því að birta síðar á þessum vettvangi nánari greiningu á opinberum íslenskum kortasjám.

Þorvaldur Bragason

*„Kortasjár. Afritun og heimildir“ birtist sem pistill nr. 32 á landakort.is þann 24. maí 2016. Pistillinn var endurbirtur í bókinni „Kortagögn og málefni kortasafna“ (2020) sem kafli 6.7 á bls. 109-111.

 

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...