Atlasblöðin – 1:100 000 (83)

Fjórðungsblöðin í mælikvarða 1:50 000 og Atlasblöðin í mælikvarða 1:100 000 hafa í almennri umræðu hér á landi gegnum tíðina oft verið nefnd „Herforingjaráðskortin“, þó að strangt til tekið hafi Fjórðungsblöðin ef til vill meira tilkall til þeirrar nafngiftar en Atlasblöðin. Þó að í upphafi kortagerðarinnar hafi verið mælt í 1:50 000 miðað við kortagerð Fjórðungsblaða, var það aðeins fyrstu árin, en mælingarnar miðuðu við 1:100 000 eftir það. Mælingadeild danska herforingjaráðsins var lögð af á þriðja áratug aldarinnar og ný stofnun Geodætisk Institut tók við 1928 eftir samruna fleiri stofnana. Eftir að mælingarnar á Íslandi hófust aftur árið 1930 komu kortin út í kortaröð Atlasblaða 1:100 000, en kortrammar samkvæmt þeirri blaðskiptingu eru alls 87 talsins. Áferð, framsetning tákna og litaval Atlasblaðanna þykir mjög vel heppnað og hafa sumir haldið því fram að þau séu „fallegustu“ Íslandskortin. Hvað sem um það má segja þá er mikið samræmi og gott heildarútlit á kortaflokknum. Ef kortin væru límd saman í eina þekju myndu þau verða yfir fjórir metrar á hæð og yfir fimm metrar á breidd.

Hvert Atlasblað hefur komið út í mörgum útgáfum og hver útgáfa í jafnvel enn fleiri endurprentunum án breytinga. Þeir titlar sem oftast hafa komið út eru eitthvað á annan tuginn og má því ætla að mismunandi endurprentanir og endurskoðaðar útgáfur séu einhvers staðar á milli 500 og 1000, en fjöldinn hefur ekki verið talinn svo vitað sé. Ítarlegasta skráin yfir Atlasblöðin er hjá Landsbókasafni Íslands, en Landmælingar Íslands eiga einnig ítarlega skrá yfir sinn safnkost. Að skoða skrár og og hlaða niður myndum af kortunum er mögulegt í veflausnum hjá báðum þessum stofnunum. Vitað er að á einhverju tímabili var misbrestur á að kortum sem prentuð voru í prentsmiðjum hér á landi væri skilað í prentskilum til Landsbókasafns eins og lög gera ráð fyrir. Á sama hátt voru um lengri eða skemmri tíma ekki tekin til hliðar eintök af hverri prentun hjá útgefandanum eftir lýðveldisstofnun, þ.e. Landmælingum Íslands. Það er því vitað að fleiri útgáfur hafa farið í framleiðslu en skrárnar gefa til kynna. Á sínum tíma var reynt að halda spjaldskrá yfir endurprentanir og þar af endurskoðaðar og leiðréttar útgáfur en ekki er vitað um það hve heildstæð skráin er.  Þessar heimildir og fleiri þarf að yfirfara til að ná heildarmynd yfir útgáfur þessa merka kortaflokks í kortasögunni.

Atlasblöðin voru, eins og fram hefur komið áður, gerð með landmælingum og landgreiningu á láglendi í byggð hringinn í kringum landið fram til 1936. Hálendið var síðan landmælt en því verki lauk sumarið 1939. Lokið var við gerð kortanna í Kaupmannahöfn á stríðsárunum, þar sem teknar höfðu verið loftmyndir af hálendinu sumrin 1937 og 1938. Með þessari tilhögun var mögulegt að ljúka kortagerðinni formlega, sem annars hefði ekki gengið vegna styrjaldarinnar og birta nýjar útgáfur Atlasblaðanna í bók Nörlunds, Islands kortlægning (1944).

Atlasblöðin eru víða til á söfnum, hjá stofnunum og sveitarfélögum og þá gjarnan innbundin í svonefnd „Kalamazzo“ bindi sem gefur möguleika á að umgangast kortin í flötum og óbrotnum útgáfum. Almenningur hafði kortin gjarnan með á ferðalögum í hvítri kápu með fána eða skjaldarmerki Íslands sem var eins konar vörumerki kortaflokksins. Þegar leið fram á síðustu áratugi 20. aldar var hætt að endurskoða og uppfæra efni Atlasblaðanna, enda þá uppi áform um að klára loks nýja útgáfu af staðfræðikortum 1:50 000 í samstarfi LMÍ við Bandaríkjamenn samkvæmt NATO samningum, sem Bandaríkjamönnum hafði gengið illa að standa við. Þegar gerðar voru breytingar á stofnunum vestanhafs sem áttu að hafa með málið að gera var þeirri kortagerð hætt þegar aðeins rúmur helmingur kortanna hafði komið út. Þegar LMÍ hættu kortagerð og kortaútgáfu fyrir tæpum áratug var lager stofnunarinnar af öllum prentuðum kortum seldur samkvæmt útboði til einkafyrirtækis (Iðnú), sem hafði þá möguleika á áframhaldandi endurprentun kortaflokksins.

Af áðurnefndu má ráða að ekki er vanþörf á að finna út úr hátt í aldarlangri útgáfusögu Atlasblaðanna 1:100 000, en fyrsta kortið í þeim mælikvarða er talið útgefið árið 1921. Til að ná þessari heildarmynd þurfa nokkrir aðilar að leggjast á árarnar með samstarfi, því engin ein stofnun eða safn á allar upplýsingarnar sem þarf til að fá þessa mikilvægu heildarmynd, þó þær tvær sem áður voru nefndar geymi meginhluta þess sem til þarf.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...