Heildstæð varðveislustefna (2)
Það er ekki til varðveislustefna fyrir landræn (landfræðileg) gögn á Íslandi og sú staða háir samræmingu í landrænum varðveislumálum á öllum sviðum. Lesa meira…
Það er ekki til varðveislustefna fyrir landræn (landfræðileg) gögn á Íslandi og sú staða háir samræmingu í landrænum varðveislumálum á öllum sviðum. Lesa meira…
Gögnum má í meginatriðum skipta í tvo grunnflokka eftir því hvort þau eru í eðli sínu staðtengjanleg eða ekki. Landrænum (staðtengjanlegum) gögnum hefur oft verið skipt í fjóra yfirflokka: Lesa meira…
Fixlanda ehf hefur unnið 10 ný sérkort sem nú eru komin út hjá Máli og menningu. Kortin eru flest í mælikvarðanum 1:100 000 og á bakhlið þeirra eru nákvæmari kort sem sýna afmarkaðri svæði innan heildarsvæðisins, en flest þeirra eru í mælikvarða 1:50 000. Inn á kortin, sem byggja á sama kortgrunni og Íslandsatlas, eru merktar allar helstu aksturs- og gönguleiðir á svæðunum, auk þess sem þar er að finna mikinn fjölda örnefna og annarra gagnlegra upplýsinga. Þar eru einnig lýsingar og litmyndir af helstu náttúruperlum svæðisins og fuglateikningar eftir Jón Baldur Hlíðberg. Allur texti er á íslensku, ensku, þýsku og frönsku. Kortin sýna eftirtalin svæði: Reykjanes-Þingvellir, Gullfoss–Geysir–Hekla, Kjölur– Langjökull–Kerlingarfjöll, Landmannalaugar–Þórsmörk–Fjallabak, Skaftafell, Lónsöræfi– Snæfell, Askja–Herðubreið–Kverkfjöll, Akureyri–Mývatn–Dettifoss, Hornstrandir og Snæfellsnes.
Fyrir nokkru kom á markaðinn ný útgáfa af Íslandskorti fyrir Garmin leiðsögutæki. Um er að ræða vektorkort fyrir Garmin GPS tæki með leiðsöguhæfum vegakortum, ásamt götukorti af bæjarfélögum með heimilisföngum. Á kortinu eru um 40.000 örnefni, meira en 5.000 áhugaverðir staðir (POI), upplýsingar um vatnafar, þjóðvegi og fjallaslóða, en hæðarlínur eru með 20 metra millibili. Kortið er ætlað fyrir Garmin GPS, PC og Apple tölvur eða Smart GSM síma.
Meðal nokkurra nýjunga í þessari útgáfu má nefna að tvöfaldir vegir hafa verið skilgreindir á höfuðborgarsvæðinu og í nokkrum bæjarfélögum, nýjustu hverfin í bæjarfélögum hafa bæst við og þjóðvegir hafa verið lagfærðir eftir breytingar. Þá hefur strandlína verið uppfærð, skóglendi kemur fram, vötn eru skráð í örnefnaflokk og nokkrar gönguleiðir eru komnar inn. Kortin eru fáanleg hjá fjölda söluaðila um allt land.
Orkustofnun hefur tekið í notkun nýja vefsjá vegna umsýslu sinnar um auðlindir á landgrunni Íslands, en hana má finna á vefslóðinni www.landgrunnsvefsja.is. Vefsjánni er fyrst um sinn ætlað að gefa yfirlit yfir gögn sem tengjast Drekasvæðinu og gera upplýsingar um þau aðgengilegri á veraldarvefnum, en opnun vefsjárinnar tengist 1. útboði vegna rannsóknaleyfa á kolvetni á norðanverðu Drekasvæðinu. Lesa meira…
Þann 15. október s.l. var opnuð ný veflausn sem birtir fjölbreytt gögn um náttúrufar og auðlindir Íslands á vefslóðinni www.natturuvefsja.is. Náttúruvefsjáin er afrakstur þróunarsamstarfs sem á uppruna sinn í verkefni sem hlaut styrk frá Rannís árið 1999 og hefur verið þróað áfram undir stjórn Vatnamælinga Orkustofnunar með framlagi frá Orkustofnun, upplýsingasamfélaginu, og Gagarín með aðkomu stofnana sem sinna öflun gagna um náttúru Íslands. Lausnin bætir m.a. möguleika almennings og skólafólks á að skoða náttúrufarsupplýsingar og fræðast um auðlindir landsins á lifandi hátt. Markmiðið með Náttúruvefsjánni er að koma gögnum og niðurstöðum úr rannsóknum einstakra stofnana á framfæri á sameiginlegum vettvangi og í almenna notkun í leik og starfi. Þau nýtast jafnt stjórnsýslu, sérfræðingum, almenningi og fyrirtækjum, s.s. vegna búsetubreytinga, húsbygginga, í tengslum við ferðalög, afþreyingu og útivist. Lesa meira…
Um miðjan september var opnaður nýr vefur, Náttúrukortið, en þar er gervitunglamynd af Íslandi sem gefur yfirsýn yfir þau svæði sem hafa verið nýtt eða fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða raska á annan hátt. Svæðin eru merkt inn á myndina og kemur þar fram hvar í “virkjunarferlinu” fyrirhuguð virkjunarsvæði eru, það er að segja hvort framkvæmdir séu hafnar, hvort svæðið sé “í sigtinu” fyrir raforkuframleiðslu eða hvort svæðið sé óraskað. Að Náttúrukortinu stendur Framtíðarlandið, félag áhugafólks um framtíð Íslands.
Loftmyndir ehf. hafa á liðnum mánuðum unnið svonefndar „kortasjár“ fyrir nokkur sveitarfélög og eru þær flestar byggðar á loftmyndagrunni fyrirtækisins. Mismunandi er þó hvaða upplýsingar eru birtar í hverri vefsjá. Samkvæmt vefsíðu Loftmynda ehf, hafa eftirtalin sveitarfélög látið vinna fyrir sig nýjar kortasjár: Akureyrarbær, Akranes, Blönduós, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Mosfellsbær og Norðurþing.
Fixlanda ehf. hefur opnað nýja vefsíðu og netverslun með kort og kortabækur, www.fixlanda.is. Fyrirtækið sérhæfir sig í kortagerð og sölu korta, en þekktustu verkefni fyrirtækisins eru án efa fjölmörg kort sem Hans H. Hansen hefur unnið á undanförnum árum fyrir Mál og menningu, þ.m.t. Kortabók og Íslandsatlas. Fixlanda hefur einnig unnið að ýmsum korta- og landupplýsingaverkefnum fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir. Í vefversluninni má panta þær vörur sem fyrirtækið hefur unnið og þar er mögulegt að skoða sýnishorn af kortum. Á vefsíðunni eru fjölbreyttar upplýsingar um fyrirtækið, sögu þess og verkefni.
Landmælingar Íslands hafa uppfært vefsjána Myndaskjá, sem birt hefur upplýsingar um loftmyndir og Landsat gervitunglagögn undanfarin misseri. Umsýsluhugbúnaðurinn hefur verið uppfærður og framsetningarhluti hans hefur fengið nýtt útlit, en sú vinna hefur farið fram í samstarfi við Samsýn. Gögnin í myndaskjánum byggjast á um 70 gervitunglamyndum af landinu frá tímabilinu 2002-2007, en þær komu frá franska gervitunglinu SPOT-5. Þessi gögn voru upphaflega keypt til landsins í samstarfi fjölmargra íslenskra stofnana og sveitarfélaga. Landmælingar Íslands fengu síðan fyrirtækið GAF í Þýskalandi til að skeyta myndunum saman þannig að þær líti út sem ein heildarmynd af öllu landinu. Heildarmyndin er birt þannig að hver myndeining sýnir 10×10 metra reit á yfirborði, en Spot-5 gögn geta haft allt að 2,5 metra greinihæfni.