Rannsóknarbókasöfn og kortasöfn týna tölunni (136)
Þegar rætt hefur verið um tegundir bókasafna í gegnum tíðina voru einkum fjórar gerðir safna nefndar: Þjóðbókasöfn eins og Landsbókasafn, Almenningsbókasöfn eins og bókasöfn bæjarfélaga, Skólabókasöfn eins og í skólum á öllum skólastigum og Rannsóknarbókasöfn einkum í opinberum stofnunum. Síðastnefnda tegundin, Rannsóknarbókasöfnin, sem geta verið innbyrðis mjög ólíkar starfseiningar að stærð og eðli og með ólíka gerð safnkosts, hafa á liðnum áratugum orðið fyrir barðinu á töluverðum niðurskurði hér á landi sem jaðrar jafnvel við skemmdarverk á sumum sviðum. Mörgum rannsóknarbókasafnanna hefur verið lokað og safnkostinum dreift með gjöfum eða yfirtöku einhverra opinberra eða einkaaðila, eða að safnkostinum hefur að hluta til verið fargað. Kort af ýmsu tagi hafa verið hluti safnkosts fjölmargra rannsóknarbókasafna hinna ýmsu stofnana og því hefur með þessum umskiptum orðið rof á aðgengi að kortum í einhverjum tilfellum. Lesa meira…