Helstu kortaflokkar Íslands eru miðaðir við fastar blaðskiptingar, þar sem landinu er deilt upp í blaðskiptingarreiti og nær þá hvert kortblað yfir einn reit í blaðskiptingunni. Ef auðkenni blaðskiptingarreits er skráð með lýsigögnum korts er mögulegt að sýna í kortasjá hvaða svæði kortið nær yfir og tengja þar við þær upplýsingar sem við á. Til þess að við getum haft gott aðgengi á netinu að helstu kortaflokkum Íslands, þarf að setja fram upplýsingar í sérstakri kortasjá um helstu blaðskiptingar og afmörkun einstakra kortblaða innan þeirra hér á landi. Þetta þurfum við að geta gert á skjá með því að kalla fram upplýsingar gegnum val á reitum á korti.
Mikilvægt er að til séu vönduð landfræðileg gagnasett sem sýni þekktustu blaðskiptingarnar, með innbyggðum upplýsingum um númer reita og heiti kortblaða. Það eru einkum stofnanir og söfn sem þurfa á slíkum þekjum að halda vegna framsetningar margvíslegra upplýsinga um kort sem ernars ekki aðgengileg með heildstæðum hætti í gegnum landfræðilega leit í kortasjám eftir stafrænum yfirlitskortum.
Þekjur með kortblaðaskiptingum eru verðmæt gögn. Þær mikilvægustu eru einkum taldar tengjast kortaflokkum sem eru á ábyrgðarsviði Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar, Sjómælinga, Orkustofnunar og reyndar fleiri íslenskra stofnana, en svo einnig þekjur tengdar kortum Dana og Bandaríkjamanna hér á landi á síðustu öld. Með því að setja fram sérstaka kortasjá með blaðskiptingum fyrir aðgengi korta í stórum kortaflokkum og tengja við kortrammana lýsigögn og stafrænar myndir af kortum væri hægt að opna fyrir mjög áhugaverða leið til að skoða sögulega þróun hér á landi og rannsaka fjölmargt í samfélaginu með hliðsjón af eldri kortum. Mikilvægustu blaðskiptingarnar í þessu máli á fyrsta stigi eru að mínum dómi; kortblaðaskiptingar Dana í mælikvörðum 1:50 000 og 1: 100 000, kortblaðaskiptingar AMS annars vegar og DMA hins vegar í mælikvarða 1:50 000 og kortaflokksins í mælikvarða 1:25 000.
Stafrænt efni til að nota og þróa áfram í slíku verkefni er til á ýmsum stöðum og margt af því hefur jafnvel verið birt á netinu, þó það hafi oft verið gert með aðra nálgun í huga. Ekki er hægt að hafa samræmt aðgengi að kortunum með þessum hætti, því ekki er til íslensk kortasjá á þessu sviði. Við höfum meðal annars séð þetta efni birtast með ólíkum hætti á Íslandskortavef Landsbókasafns Íslands, í kortaleit á vef Landmælinga Íslands og á vefsíðu og í kortasjám á vegum Orkustofnunar. Nokkrar blaðskiptingar eru til, þó þær séu ekki allar fullkláraðar. Í einhverjum tilfellum vantar uppá heiti reita þar sem blaðskipting var gerð fyrir allt landið, en kort komu aðeins út af hluta þess. Þarna er verk að vinna og mikilvægt að efna til samstarfs stofnana og safna. Erlendis eru til sögulegar kortasjár fyrir kortasöfn, t.d. CartoMundi og OldMapsOnline, sem byggja framsetningu upplýsinga um kortaflokka, meðal annars lýsigagna og mynda af kortblöðum, á slíkum þekjum. Sú kortasjá hér á landi sem kemst næst þessum hugmyndum er kortasjá fyrir Kortasafn Orkustofnunar, byggð á hugbúnaði frá Alta, en þar er hins vegar gengið útfrá nokkuð ólíkri hugmyndafræði við gerð skráa og framsetningu reita.
Hugmyndir hafa verið uppi um að finna farveg fyrir gerð nýrrar kortasjár á áðurnefndu sviði hér á landi, þar sem vefframsetning korta margra ólíkra stofnana er tengd saman á einum stað og gefin samræmd mynd af upplýsingum um stærstu og þekktustu landsþekjandi kortaflokkana sem við þekkjum. Til þess þarf hins vegar fjárhagslegan stuðning og velvilja stofnana og safna sem hafa hagsmuna að gæta af því að slíkt verkefni verði að raunveruleika. Stuðningur við þetta verkefni ætti einnig að verða eitt af undirmarkmiðum þeirrar opinberu forgangsröðuðu heildarstefnu sem lengi hefur verið kallað eftir og nauðsynleg er á landsvísu vegna varðveislu og aðgengis að upplýsingum um eldri landfræðigögn hér á landi.
Þorvaldur Bragason