Fyrir um tveimur áratugum, nánar tiltekið árið 1998 birtist lykilgrein í bandarísku tímariti eftir Dr. Michael Goodchild og bar hún einfaldlega heitið „The Geolibrary“. Þar var fjallað um aðgengi landfræðilegra gagna í söfnum og miðað við að veflausnir væru notaðar til að opna betur fyrir samnýtingu gagnanna. Um var að ræða umfjöllun um kort, loftmyndir, gervitunglagögn, ljósmyndir og annað landfræðilegt efni. Greinin vakti mikla athygli og spunnust í kjölfar hennar upp miklar umræður sem lesa mátti um í tímaritsgreinum næstu ár á eftir. Umfjöllunarefni greinarinnar átti rætur í undirbúningsvinnu fyrir útgáfu þekktrar skýrslu sem bar heitið „Distributed Geolibraries“ og var þar meðal annars hvatt til þess að samhæfðar netlausnir væru byggðar upp og nýttar til að veita samræmt aðgengi að ólíkum gerðum landfræðilegra gagna sem geymd voru á mismunandi stöðum.
Við gerð skýrslunnar og greinarinnar sáu höfundar auðvitað ekki að öllu leyti fyrir þá miklu tæknibyltingu sem átt hefur sér stað í landupplýsingavinnslu, veflausnum fyrir kortasjár og framsetningu landfræðilegra gagna á netinu, en þeir höfðu hins vegar mjög skýra sýn á mikilvægi betra og samræmdara aðgengis að skrám og öðru efni sem tengist korta- og myndasöfnum sem staðsett eru á ólíkum stöðum. Hugtakið „Geolibrary“ hefur kannski ekki fengið nægilega góða íslenska þýðingu, en hefur af einhverjum verið kallað „landfræðisafn“ og mætti allt eins kalla „landgagnasafn“.
Hugmyndafræði „dreifðra landgagnasafna“ hefur ekki verið mikið til umfjöllunar hér á landi annars staðar en í meistararitgerð undirritaðs frá Háskóla Íslands 2007 (Miðlun upplýsinga um landfræðileg gögn á Íslandi. Aðgengi, skráning og varðveisla). Þar er þessi hugsun og hugmyndafræði undirliggjandi meira og minna í öllu verkefninu og niðurstöðum þess. Á þeim rúma áratug sem liðinn er frá lokum áðurnefnds verkefnisins hef ég reynt að vekja athygli á þessum málstað með ýmsum hætti. Það hefur meðal annars verið gert með greinaskrifum, fyrirlestrum og ýmsum sérvefverkefnum. Jafnframt var stofnað til samráðsvettvangs á milli lykilsafna landsins á þessu sviði (Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns) með samtökum um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA) og haldin málþing um málefnið. Þá hafa vefverkefnin „landakort.is“ og „landkönnun.is“ sem eru í eigu og á ábyrgð undirritaðs verið nýtt til að hvetja til meiri vitundar um mikilvægi þessarar hugmyndafræði fyrir íslenskt samfélag.
Í pistlum sem skrifaðir hafa verið og eru aðgengilegir á áðurnefndum vefsíðum má lesa í smærri atriðum um margvísleg gagnasöfn, gagnaverkefni og ýmislegt sem vel hefur verið gert á þessu sviði hér á landi. Einnig kemur fram hvað hægt er að gera ef áhugi og fjármagn væru fyrir hendi og bent á verkefni sem geta verið fyrirmyndir eða reynslubanki fyrir ný gagna- og vefverkefni.
Á áðurnefndum vefsíðum hefur verið hvatt til þess að til verði tveir nýir lýsigagnagrunnar hér á landi, annars vegar fyrir upplýsingar um flokka korta- og fjarkönnunargagna og hins vegar fyrir upplýsingar um íslenskar kortasjár og landfræðilega vefi. Grunnur hefur nú verið lagður að báðum þessum verkefnum og þau í raun hafin með vinnslu tilraunaverkefna. Þessi lýsigagnaverkefni eru að mínu mati forsendan fyrir því að hægt verði að semja og fylgja eftir opinberri aðgengis- og varðveislustefnu fyrir landfræðileg gögn af Íslandi, sem ætti að vera verkefni á ábyrgð yfirvalda safnamála landsins (Mennta- og menningarmálaráðuneytis). Lýsigagnaverkefnið fyrir flokka korta- og fjarkönnunargagna er jafnframt forsendan fyrir því að hægt sé með góðu móti að fá þá heildarmynd sem nauðsynleg er fyrir gerð kortasjáa sem myndu veita með samræmdari hætti aðgengi að upplýsingum um kort, loftmyndir og gervitunglagögn. Það er því að mikilvægu markmiði að keppa. Með þeim veflausnum og tækni sem til er ætti ekki að þurfa að vera vandamál að útbúa aðgengið gegnum netið. Vandamálið er hins vegar það sama og svo oft áður; það þarf að taka saman og samræma upplýsingar um gögnin sem veita á aðgengið að. Þær upplýsingar eru dreifðar um allt samfélagið í söfnum, á stofnunum, hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum. Það hefur hins vegar með margvíslegum hætti verið sýnt fram á að þetta ætti ekki að vera óvinnandi verkefni og ekki óheyrilega kostnaðarsamt. Við þurfum hins vegar að vilja að þetta gerist og þeir eru ófáir sem hafa mikla þörf fyrir hið samræmda aðgengi að upplýsingum sem hugmyndafræði landgagnasafnsins byggir á.
Þorvaldur Bragason