Eldri gervitunglagögn í söfnum á Íslandi (89)

Aðbúnaður eldri gervitunglagagna á Íslandi hefur ekki verið talinn góður þegar litið er til varðveisluskilyrða, eins og fram kom í könnun frá árinu 2006, og birtist í greininni „Varðveisla fjarkönnunargagna á Íslandi og miðlun upplýsinga um þau“. Könnunin er nú meira en áratugar gömul og ekki talið að málefnið hafi verið rannsakað síðan. Þar kemur meðal annars fram að segulbönd og aðrir segulmiðlar með gervitunglagögnum á íslenskum stofnunum hafi ekki verið geymdir í hita- og rakastilltum geymslum og loftræsti- og eldvarnarbúnaður hafi ekki verið til staðar í þeim. Tekið skal fram að í könnuninni komu ekki fram upplýsingar um varðveislu veðurtunglagagna, en á þeim tíma var talið að sama staða væri þar varðandi áðurnefnda geymsluþætti. Ekki hefur heyrst að þetta ástand hafi breyst að ráði til þessa dags og því eru gervitunglagögnin sem til eru á segulmiðlum líklega flest enn geymd við stofuhita hér á landi. Elstu stafrænu gervitunglagögn af Íslandi sem til eru í landinu voru líklega keyrð út á segulbönd fyrir meira en 40 árum síðan. Á fyrsta aldarfjórðungi þessarar nýju tækni var þeim aðallega miðlað ýmist á stórum segulböndum eða á kassettum af ýmsum gerðum. Búið er að afleggja segulbandsstöðvar, tölvur og hugbúnað sem notaður var á þessum tíma og því eru ekki lengur taldir möguleikar til að afrita elstu segulgögnin hér á landi. Því er nokkur hluti gagnanna óaðgengilegur og ætla má að nokkur hluti þessa efnis sé orðinn ónothæfur. Það er hins vegar ekki víst að efnið sé landsmönnum endanlega glatað, því oft er mögulegt að kaupa aftur eldra efni erlendis sem hefur væntanlega verið geymt við betri aðstæður.
Ef veðurtunglamyndir með lítilli myndupplausn eru frátaldar, var áætlað árið 2006 að um 1000 stafrænar gervitunglamyndir væru til í landinu. 20% væru frá jarðkönnunargervitunglum eins og Landsat og Spot (auk Jers-1, IRS-1D, Ikonos og Aster), en um 80% frá öðrum gervitunglum eins og ERS-1, ERS-2 og Envisat. Ef fyrri flokkurinn er skoðaður nánar kemur í ljós að af um 200 myndum var helmingurinn til á fleiri en einni stofnun, 10% aðeins til á LMÍ en rúm 40% einungis hjá öðrum en LMÍ. 60% af öllu myndefninu var til í safni LMÍ og því sést að mestu af myndefninu hafði á þeim tíma verið miðlað milli stofnana, sem var talið jákvætt sem öryggisatriði.
Talið er að magn stafrænna gervitunglamynda sem til eru á Íslandi hafi margfaldast á þeim áratug sem liðinn er síðan könnunin var gerð. Því miður er talið að varðveisla eldra efnis sé með sama hætti og þá var. Miðað við rannsóknir á endingartíma segulbanda og annarra segulmiðla er nokkuð víst að elsti hluti þessara gagna sé ónýtur. Nýrra efni sem hefur verið keypt og vistað á tölvukerfum er í minni hættu. Þar sem gögnin hafa þótt rýmisfrek á tölvukerfum eru þau ekki endilega höfð aðgengileg, en hafa oft verið afrituð og geymd með öðrum hætti. Varðveisluaðstæður þeirra afrita eru hugsanlega ekki nægjanlega góðar þegar lengra líður. Þar sem myndefni er geymt við bestu aðstæður erlendis, fer víða fram reglubundin afritun myndefnis til að tryggja gagnaöryggi.
Það er engin heildræn stefna í innkaupum gervitunglagagna hér á landi. Stofnanir hafa keypt inn gögn vegna sértækra verkefna og þeim ekkert endilega miðlað til annarra hugsanlegra notenda, nema um formlegt samstarf stofnana sé að ræða. Því er ekki ólíklegt að um einhvern tvíverknað hafi verið að ræða í innkaupum.
Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það er enginn einn ábyrgðaraðili á málaflokknum til í landinu. Það kaupa allir sín gervitunglagögn sem þeir þurfa á að halda fyrir eigin verkefni og miðla þeim ekki sérstaklega til annarra nema ef um sérstakt stofnanasamstarf er að ræða um gagnakaup. Það er heldur enginn sem telur sig nú um stundir bera ábyrgð á varðveislu, heildarskráningu og bættu aðgengi að upplýsingum um öll gervitunglagögn af landinu sem til eru hérlendis. Ef fram heldur sem horfir mun enn meira efni glatast (skemmast, týnast eða ónýtast vegna eðlis segulmiðlanna). Ef langur tími líður verður frekar ósennilegt að hægt verði að fá allt eldra myndefni keypt eins og enn er talið mögulegt.
Í hnattrænu samhengi þarf að vera hægt að skoða breytingar á yfirborði landsins með samanburði gervitunglagagna frá löngum tíma. Það er því brýn nauðsyn að sett verið af stað vinna við að skipuleggja varðveislu- og aðgengismál upplýsinga um gervitunglagögn af Íslandi. Í mínum huga er það í verkahring mennta- og menningarmálaráðuneytis, sem yfirvalds safnanna og háskólasamfélagsins í landinu, að beita sér fyrir gerð slíkrar stefnu.

Þorvaldur Bragason
Nánari upplýsingar: Þorvaldur Bragason og Guðrún Gísladóttir, 2007: Varðveisla fjarkönnunargagna á Íslandi og miðlun upplýsinga um þau. Landabréfið, 23(1) 3-24.

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .