EuroMapFinder og EuroGeographics (43)

EuroGeographics samtökin voru formlega stofnuð árið 2002, en samtökin tóku við af CERCO sem samtök forstjóra evrópskra kortastofnana. Á þessum tíma hafði fjölgað mjög í CERCO samtökunum og fleiri þátttökulönd gáfu möguleika á víðtækara samstarfi og miðlun reynslu milli landa. Jafnframt var orðið nauðsynlegt að breyta MEGRIN samstarfsverkefninu sem samtökin ráku, þar sem þörf var á formlegri aðila til að standa meðal annars að framleiðslu og sölu á nýjum sameiginlegum evrópskum gagnasettum.

Fyrstu árin beindist athyglin mjög að gerð nýrra evrópskra heildargagnasetta sem höfðu verið í undirbúningi. Á fyrri stigum í verkefni eins og SABE (stjórnsýslumörk í Evrópu) höfðu komið upp margvísleg vandamál við að taka saman gögn frá öllum hinum ólíku kortastofnunum og setja saman, enda oft um mismunandi gagnaform og mælikvarða að ræða. Eitt dæmið um slíkt var að sum lönd áttu á þeim tíma stjórnsýslumörk í mælikvarða 1:5000 meðan önnur áttu aðeins gögn í mælikvarða 1:750 000. Í því tilfelli varð að búa til heildargögn í tveimur viðmiðunarmælikvörðum.

Samhliða starfi CERCO og EuroGeographics voru á fjögurra ára fresti frá árinu 1995 haldnar í boði Ordnance Survey í Bretlandi heimsráðstefnur kortastofnana, en þær voru haldnar í St. Johns College í Cambridge. Þessar ráðstefnur voru mjög vel undirbúnar og leiddu saman í einum sal í heila viku í hvert sinn forstjóra og staðgengla þeirra frá kortastofnunum flestra landa heims. Þar varð mikil miðlun og samstilltur skilningur á stöðu korta- og landupplýsingamála í heiminum, sem leiddi til sterkari umræðu um staðlagerð, samræmingu gagna, gagnaaðgengi, gerð betri gagnasetta af stærri svæðum og hnattræn kortagögn.

Þessi umræða hafði áhrif á það að EuroGeographics byggðu upp gagnasett af Evrópu með víðara samhengi í huga. SABE, stjórnsýslumörk í Evrópu, þróaðist í EuroBoundaryMap (1:100 000), PETIT, lagskipt staðfræðikort, þróaðist í EuroRegionalMap (1:250 000) og nýtt gagnasett EuroGlobalMap, hugsað til að vera innlegg í hnattrænt lagskipt kort í mælikvarða 1:1000 000 varð til. Síðar varð svo til EuroDEM (hæðargögn).

Starfsemi og viðleitni EuroGeographics til að veita gott aðgengi að upplýsingum um gögn og gagnasett í gegnum betri lýsigagnalausnir, er af mörgum talið meðal þess markverðasta sem gert var á fyrstu árunum í sögu samtakanna. Ein skýrasta reynslan af lýsigagnaverkefninu GDDD var að hinir ólíku notendur skildu ekki fræðileg hugtök með sama hætti, flækjustig við leit var hátt, lýsigögnin voru á ólíkum tungumálum og grafíska framsetningu vantaði. Til að bregðast við þessu hófst leit að lausn fyrir nýtt lýsigagnaverkefni EuroMapFinder (EMF), sem átti að veita aðgengi að upplýsingum á fleiri tungumálum, bjóða upp á grafíska framsetningu á kortum og afmörkun á kortrömmum og nota nýjan alþjóðlegan lýsigagnastaðal, ISO 19115, sem þá var í þróun og tók gildi árið 2003. Slík hugbúnaðarlausn fannst í svissneska GeoCat lýsigagnaverkefninu. Þar var eðli málsins samkvæmt vegna jafnrar réttarstöðu tungumála aðgengi að vefviðmóti á fjórum mismunandi tungumálum. Til að samræma skráningarþætti þurfti síðan að búa til kjarna atriða til að setja fram og var það unnið í LaClef verkefninu. EuroMapFinder verkefnið var opnað á Netinu og kynnt árið 2005. Það varð hins vegar ekki mjög langlíft og því var á endanum lokað 2011 þrátt fyrir mjög áhugaverða kosti, til dæmis varðandi það að notendur gátu nýtt sér efni úr lýsigagnaskrám á ólíkum tungumálum, þar sem hægt var að breyta um val á tungumáli í vefviðmóti. Geocat.ch er hins vegar enn aðgengilegt á Netinu.

Með framsetningu INSPIRE Geoportal, sem er sameiginlegur lýsigagnavefur fyrir öll lönd Evrópu, kom fram lausn sem skaraðist við tilgang og hugmyndafræði EMF, þannig að ákveðið var að hætta verkefninu. Það er hins vegar ljóst að reynsla úr þessum þremur verkefnum; GDDD, EuroMapFinder og LaClef hefur verið mikilvæg við þróun hugmyndafræði INSPIRE um lýsigagnastaðal (kjarna) og uppsetningu lýsigagnagáttar. Þar er hins vegar farin önnur leið til að koma til móts við þarfir notenda. Til dæmis er boðið upp á að velja textaþýðingu á fjölmörgum tungumálum með þýðingartólum á netinu.

EuroGeographics samtökin leggja því ekki lengur áherslu á landræn lýsigagnaverkefni með sama hætti og áður, en á vef samtakanna hefur þó verið sérvefur „EuroGeoInfo“ sem hefur veitt aðgengi að upplýsingum um starfsemi á vegum aðildarstofnananna í hverju landi; a) á sviði þróunar grunngerðar landupplýsinga, b) um gagna- og vefþjónustu á sviði landupplýsinga í hverju landi og c) um Evrópugagnasett sem samtökin framleiða og viðhalda, en þar birtast ítarleg lýsigögn um gagnasettin.

Af þessu má ljóst vera að hugmyndafræði og mörg verkefni tengd INSPIRE eiga rætur að rekja til margvíslegra landupplýsingaverkefna sem unnin hafa verið í fjölþjóðlegu samstarfi á vegum evrópskra kortastofnana á liðnum áratugum.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .