Fjarkönnunargögn, kortaflokkar og kortasjár (47)

Framsetning og skráning lýsigagna fyrir stafræn landræn gagnasett á stofnunum er í meginatriðum tvenns konar. Annars vegar vegna notkunar innan stofnana eða á þeirra vegum og hins vegar vegna birtingar í samstarfsverkefnum á Netinu. Innan stofnana eru lýsigögn oft annað hvort skráð í lýsigagnahluta landupplýsingahugbúnaðar þeirra eða í einhvers konar ritvinnsluskjöl hvort sem þau eru birt á Netinu eða ekki, en undantekning er að færslur séu í sérstökum innri lýsigagnagrunnum stofnana. Birting íslenskra lýsigagna í samstarfsverkefnum á Netinu eru nú í Landupplýsingagátt LMÍ og í INSPIRE Geoportal, en fyrir tilkomu INSPIRE tilskipunarinnar sem sett var í lög á Íslandi 2011, voru landræn lýsigögn íslenskra stofnana og sveitarfélaga birt í Landlýsingu.

Eins og áður hefur komið fram setti Orkustofnun á árinu 2012 upp eigin lýsigagnagrunn til þess að tryggja stöðlun, samræmi og yfirsýn yfir öll lýsigögn fyrir landrænar upplýsingar á stofnuninni og byggir þar á 40 lykilþáttum í þremur alþjóðlegum lýsigagnastöðlum.

En það er aðeins hluti landfræðilegra gagna sem skráður er í þeim landfræðilegu lýsigagnaverkefnum sem þekkt eru í dag, enda eru þau verkefni nánast eingöngu hugsuð fyrir vel skilgreind stafræn landræn gagnasett, sem uppfærð eru með reglubundnum hætti.

Annar fagmálaflokkur á sviði slíkra gagna sem ekki er tekinn með í fyrrnefndum lýsigagnaverkefnum, eru nýir sem eldri kortaflokkar, fjarkönnunargögn og kortasjár. Um allt samfélagið eru til slík gögn sem engin miðlæg samræmd skráning er til fyrir. Yfirlitsskráning í formi lýsigagna fyrir áðurnefnt efni lendir því á ýmsan hátt á milli laga þegar litið er til lagalegs hlutverks safna og eru á einhvers konar einskis manns landi hvað varðar ábyrgð. Yfirsýn yfir þessi gögn er ekki til á einum stað og veruleg hætta á að eitthvað úr þeim misfarist, týnist og glatist. Þegar kemur að því að til verði opinber stefna í varðveislumálum landfræðilegra gagna, verða fyrstu spurningarnar um það hvaða gögn þarf að varðveita, hvar eru þau geymd, hvert er umfang þeirra og magn, hvaða svæði sýna þau og hvernig megi skipuleggja varðveisluna til framtíðar.

Til þess að halda utan um slíkar upplýsingar þarf að verða til sérstakur lýsigagnagrunnur fyrir kortaflokka og fjarkönnunargögn, slíkur grunnur er ekki til enn sem komið er, en frumgerð slíkrar gagnatöflu hefur verið prófuð í tilraunaverkefni hér á landi. Í þá frumgerð hefur einnig verið bætt möguleikum á að skrá nýjar sem aflagðar kortasjár, en enginn heldur utan um slíka skráningu hér á landi. Skráningarformið byggir á Dublin Core lýsigagnasniðinu og heldur utan um öll 15 kjarnaatriðin auk fimm efnisþátta til viðbótar, sem einnig eru undiratriði í staðlinum. Með þessum atriðum er auðvelt að halda utan um það sem talið er skipta mestu máli í samhæfðri skráningu. Sama formið mætti því nota hvort sem verið er að skrá eða birta upplýsingar um loftmyndaflokka, flokka gervitunglagagna, útgefna sem óútgefna kortaflokka eða kortasjár. Til að fá svæðisafmörkun í hnitum er notaður hugbúnaður sem fáanlegur er á Netinu og leyfir að draga „landrænan ramma“ (e. Bounding box) utan um svæðið sem gögnin sýna og skila stafrænni skrá beint inn í gagnagrunnstöfluna með hnitaafmörkun í fjórum tölum samkvæmt lengdar- og breiddarbaugum.

Gagnaskráningin gengur vel upp með þessu móti fyrir þau ólíku gögn og gagnaflokka sem hafa verið prófaðir. Eina atriðið sem ekki er í Dublin Core og þarf að bæta inn til viðbótar í skráninguna er mælikvarði korta. Það er mjög mikilvægt að koma á slíkri skráningu hér á landi fyrir gögn stofnana og safna í samfélaginu. Með því fæst smám saman sú heildarsýn sem er nauðsynleg til að hægt verði að leggja upp í stefnumótunarvinnu og gera aðgerðaáætlun, og í framhaldi af því takast á við skipulagningu skráningar fyrir þá gagnaflokka landfræðilegra gagna sem nauðsynlegt er að varðveita til framtíðar.

Lýsigagnaverkefni 

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .