Fjarkönnunarnefndir RANNÍS (65)

Segja má að Íslendingar hafi tekið tiltölulega fljótt við sér varðandi stefnumótun á sviði fjarkönnunar, eftir að fyrstu skýjalausu Landsat gervitunglamyndir af Íslandi voru teknar árið 1972. Í kjölfarið fóru slíkar myndir að berast til margra íslenskra stofnana frá Bandaríkjunum og var það einkum að undirlagi Dr. Richard S. Williams hjá bandarísku jarðfræðistofnuninni (U.S. Geological Survey) sem hefur áratugum saman verði tengdur sögu fjarkönnunar á Íslandi með samstarfsverkefnum við ýmsa aðila hér á landi, auk þess sem hann hefur verið ötull við að senda hingað til lands gögn af ýmsu tagi í gegnum tíðina. Í upphafi var hann í miklu samstarfi við Gylfa Má Guðbergsson prófessor í landfræði við Háskóla Íslands sem meðal annars  vann að verkefnum á sviði túlkunar gervitunglagagna með tilliti til gróðurs á Íslandi.  Í seinni tíð hefur hann starfað mikið með Oddi Sigurðssyni jarðfræðingi, en þeir hafa unnið að mörgum rannsóknaverkefnum og útgáfu rita á sviði íslenskra jökla, þar sem loftljósmyndir Odds, loftmyndir og gervitunglagögn gegna lykilhlutverki.

Eftir fjarkönnunarráðstefnu hér á landi í september 1974 skipaði Rannsóknaráð ríkisins fjarkönnunarnefnd í ársbyrjun 1975 og átti hún að taka afstöðu til niðurstaðna ráðstefnunnar sem haldin hafði verið um framtíðarskipulag fjarkönnunarmála á Íslandi. Tíu manna nefnd skilaði ítarlegri skýrslu sem kom út í ágúst 1976 með tillögum einkum um skipulag mála sem tengjast veðurtunglagögnum, uppbyggingu starfsemi og gagnaöflunar á sviði loftmyndatöku úr flugvélum, hugmyndum um að setja upp fjarkönnunarstofu og um kennslu á sviði fjarkönnunar á háskólastigi. Skýrslan vakti á sínum tíma mikla athygli enda geymdi hún mikilvægan fróðleik um gervitunglagögn og loftmyndir sem þar var saman kominn á einum stað. Útkoma skýrslunnar vakti vonir um að nýir tíma væru í vændum með nýtingu hinnar nýju tækni og hins mikla flóðs gagna sem brostið hafði á. Efasemdarraddir voru hins vegar hjá einhverjum um notagildi myndefnisins, einkum vegna takmarkaðrar greinihæfni fyrstu Landsat gagnanna (myndeiningar sýndu 80×80 metra á yfirborði jarðar).

Í stuttu máli komst lítið af tillögum nefndarinnar í framkvæmd þrátt fyrir góðar væntingar margra og því fór svo að skipuð var önnur fjarkönnunarnefnd. Hún var að hluta til skipuð sömu einstaklingum og áður og undir forystu sama formanns, Markúsar Á. Einarssonar veðurfræðings, en nefndin skilaði nýrri skýrslu sumarið 1985. Í skýrslunni var hert á fyrri tillögum, meðal annars lagt til að komið yrði upp tækjabúnaði hér á landi bæði til öflunar og lágmarksúrvinnslu fjölbreytilegri fjarkönnunargagna sem og aðstöðu til varðveislu og aðgengis að slíkum gögnum. Þá var einnig hvatt til þess að stofnanir sem búa yfir sérþekkingu á sviði fjarkönnunar héldu á lofti stöðugri kynningu á þeim möguleikum sem fælust í notkun fjarkönnunargagna.

Veganesti seinni skýrslunnar með tillögum og umfjöllun um mikilvægi málaflokksins leiddi síðan til gagnakaupa, gagnaúrvinnslu og margvíslegra verkefna sem áttu á næstu árum eftir að líta dagsins ljós, meðal annars hjá Landmælingum Íslands (gerð Landsat heildarmynda), Upplýsinga- og merkjafræðistofu Háskóla Íslands (þróun myndatökubúnaðar og úrvinnslu gagna), Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins (verkefni um jarðvegsvernd og skipulag uppgræðslu).

Þriðja og síðasta fjarkönnunarnefndin var síðan skipuð á vegum umhverfisráðuneytisins og skilaði hún skýrslu árið 1997, en tillögur þeirrar skýrslu hafa síðan legið til grundvallar margra verkefna í samfélaginu á síðustu tveimur áratugum, til dæmis gerð SPOT heildarmyndar af landinu  og vinnslu Corine landflokkunarverkefnisins á Íslandi hjá Landmælingum Íslands.

Þorvaldur Bragason

 

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...