Áhugi virðist hafa vaxið mjög á liðnum árum á að skipuleggja og vinna fjölþjóðlegar kortasjár á ýmsum sértækum sviðum. Annars vegar er um að ræða kortasjár þar sem efni er safnað á einn stað frá mörgum löndum og sett saman gagnasett til birtingar miðlægt. Hins vegar er um að ræða kortasjár þar sem gögn hvers lands eða stofnunar eftir því sem við á eru sett á vefþjón í hverju landi og síðan sótt yfir netið og birt í kortasjá þar sem gögnin birtast sem eitt samsett kort. Síðarnefnda leiðin er sú sem Evróputilskipunin INSPIRE um grunngerð stafrænna landupplýsinga gerir kröfur um.
Fjölþjóðlega staðla vantar til framsetningar gagna á ýmsum sviðum. Í INSPIRE verkefninu eru nú til tæknilýsingar (Technical Guidelines) fyrir alla 34 efnisflokkana sem falla undir viðaukana þrjá með tilskipuninni. Þegar þeir eru skoðaðir nánar kemur hins vegar í ljós að þó að sumir efnisflokkarnir, einkum í fyrstu tveimur viðaukunum nái flestu sem til þarf, þá eru önnur sérsvið þar sem verulega skortir á að hægt sé að nota tæknilýsingarnar. Dæmi um eitt þeirra efnissviða er jarðhiti.
Jarðhiti sem slíkur er ekki sérstakt viðfangsefni í INSPIRE. Jarðhitagögn eins og þau eru skilgreind á Íslandi falla hins vegar undir ýmsar viðaukagreinar tilskipunarinnar. Fljótt á litið falla til dæmis gögn Orkustofnunar á sviði jarðhita undir a.m.k. fimm ólíkar efnisgreinar af fyrrnefndum 34 greinum. Jarðhiti kemur semsagt fyrir í nokkrum ólíkum tæknilýsingum og oft ekki gert hátt undir höfði, samanber skýrslu sem gerð hefur verið þar um.
Stórt viðfangsefni eins og borholur fellur undir viðauka II.4 – Jarðfræði. Þegar flett er upp á því hvað staðallinn fyrir það svið getur um kemur í ljós að skylduskráningaratriði eru aðeins tvö (einkvæmt númer og staðsetningarhnit) og fjögur önnur valkvæm, þar á meðal tilgangsskráning. Í lista yfir þá flokka sem má nota til að skrá tilgang (upphaflegur tilgangur með borun) koma fyrir 35 flokkar fyrir tilgang með borun þar sem aðeins einn er sérstaklega skilgreindur fyrir jarðhitaborholur, sem er allt of lítið fyrir okkar þarfir hér á landi. Samkvæmt þessu afmarkaða dæmi er hægt að skrá yfirlitsupplýsingar, en skráningin hentar ekki fyrir eins sértæka skráningu og fram fer á Íslandi, m.a. í svonefndri Borholuskrá OS, sem geymir mjög ítarlegar upplýsingar um rúmlega 14.000 borholur af öllum gerðum (heitt vatn, kalt vatn, kjarnaholur).
Áður en kemur að því innan nokkurra ára að Landmælingar Íslands fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þurfi að sjá til þess að gögnum hafi verið skilað frá Íslandi um alla efnisflokkana 34 í INSPIRE, þarf að svara nokkrum mikilvægum spurningum. Hvaða aðili innanlands á að bera ábyrgð á að safna saman landrænum jarðfræðigögnum, þar á meðal um jarðhita og setja þau upp í gagnatöflur og gagnasett sem skilað er til evrópsks gagnaöflunaraðila samkvæmt tæknilýsingum INSPIRE?
Þegar sú ákvörðun liggur fyrir getur Orkustofnun sem heldur utan um landsskrá um borholur, sent þeirri stofnun útkeyrslu ákveðinna upplýsinga (dálka) úr skránni. Stofnunin sem móttekur gögnin þarf því næst að setja þau upp samkvæmt tæknilýsingum fyrir viðauka II.4 – Jarðfræði. Vitað er að borholuskráin geymir góðar upplýsingar um skylduatriðin tvö, en ekki allar upplýsingar um öll valkvæmu atriðin fjögur með þeim hætti sem ætlast er til, þar sem notuð er önnur flokkun og annað fyrirkomulag.
Ef litið er á jarðhitaborholur sérstaklega er þekkt að aðeins hluti af þeim borholum sem boraðar eru vegna jarðhita enda sem nýtingarholur af einhverju tagi, en þær holur er hins vegar mestur áhugi á að sjá í fjölþjóðlegum kortasjám á netinu. Og þá er komið að annarri grundvallarspurningu. Hvaða borholur úr borholuskrá í hverju landi, á að hafa í gagnasetti sem birtist í fjölþjóðlegum kortasjám? Það er allt of mikið að setja þar upplýsingar um allar borholur hvers lands og því þarf að vera til valið mengi úr skrá. INSPIRE staðlarnir henta ekki fyrir slíkt og taka verður ákvörðun í fjölþjóðlegu samstarfi.
Fyrir liggur að í að minnsta kosti fjórum fjölþjóðlegum verkefnum, þar sem birta á gögn um meðal annars jarðhita, er annað hvort verið að leita eftir að fá „sömu“ gögnin fyrir verkefnin, eða þróa kortasjár þar sem gefið hefur verið í skyn að um slíkt verði beðið, verði verkefnin að raunveruleika (þ.e. ekki aðeins tilraunaverkefni). Dæmi um þetta eru þekjur fyrir „Surface heat flow“ og „Temperature at depth“ og örugglega einnig valdar jarðhitaborholur ef það gagnasett stæði til boða. Hér er um að ræða „IRENA. Renewable Energy Atlas“, „Arctic Portal“, „EGIP – European Geothermal Information Platform“ (kortasjá byggð á tilraunaverkefni um jarðhita) og „EGDI – European Geological Data Infrastructure“ (kortasjá á sviði jarðfræði byggð á hugmyndafræði INSPIRE).
Til að geta sett fram góð gagnasett hér á landi á fyrrnefndum sviðum þurfa annars vegar að vera til nákvæmari kortagögn sem allir eru sammála um að sýni raunveruleikann (surface heat flow og temperature at depth) og hins vegar þurfa að vera til betri gagnastaðlar svo hægt sé að setja gögn (eins og t.d. nýtingarholur jarðhita úr borholuskrám ýmissa landa) upp með sama hætti í öllum löndum. Slíkt er forsenda fyrir því að þau geti birst samkvæmt hugmyndafræði INSPIRE um að sækja gögn til birtingar á vefþjóna frá ólíkum löndum, þar sem gögnunum sjálfum er haldið við. Íslenskir aðilar sem starfa á sviði jarðfræði og jarðhita þurfa greinilega að hefja samstarf um samstillingu sjónarmiða, því það er óþarfi að hafa eyður þar sem Ísland er á yfirlitskortum alþjóðlegra kortasjáa þegar gögn eru til, en hafa ekki verið sett rétt upp eða samstillt til að möguleiki sé á því að birta þau (onegeology.org). Staðlavinna er því forsenda þess að samræmd gagnasett verði til sem geti nýst alls staðar.
Þorvaldur Bragason