Hin raunverulega kortagerð landmælingadeildar danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske afdeling) hófst árið 1902, eftir grunnlínumælingar árið 1900, en ákveðið var að gefa kortin af Íslandi út í mælikvarðanum 1:50 000. Verkið var meðal annars undirbúið með gerð og síðan útgáfu sýnishorns af skýringum, litum og annarri framsetningu upplýsinga og þannig strax í upphafi lagt upp með samræmda sýn á útlit sem gæti nægt fyrir alla landgerðarþætti og kortlögð fyrirbæri á landinu. Kortflötur hvers útgefins kortblaðs var 40×44 cm og var viðmiðskerfið í upphafi miðað út frá Kaupmannahöfn. Kortin sem gerð voru af svæðinu frá Hornafirði vestur um að Eyjafjöllum voru mæld í mælikvarða 1:50 000, en eftir það að mestu mæld í mælikvarða 1:100 000 og stækkuð fyrir prentun í 1:50 000.Fyrstu kortin voru samkvæmt útgefnum skrám mæld 1903 og komu út árið 1905, en þau síðustu voru mæld 1914 og komu þau síðustu út árið eftir 1915. Þar með lauk kortaútgáfunni í mælikvarða 1:50 000 þegar heimsstyrjöldin fyrri var hafin í Evrópu og verkefnið stöðvaðist. Þráðurinn var tekinn upp eftir stríðið 1919-1920 en ekki gerð fleiri fjórðungsblöð. Þegar verkið hófst aftur árið 1930 eftir áratugar hlé, fór kortaútgáfan yfir í mælikvarða 1:100 000. Alls urðu titlarnir í 1:50 000 kortaflokknum 117, en hluti kortanna kom út í fleiri endurskoðuðum útgáfum síðar. Heildarfjöldi kortanna er því nokkuð hærri ef allar seinni útgáfur eru jafnframt taldar. Svæðið sem kortin þekja nær frá Hornafirði vestur um allt Suðurland, Suðvestur- og Vesturland, Snæfellsnes, Vestfirði og yfir Húnaflóa.
Númerakerfi kortanna er það sama og Atlasblaðanna í mælikvarða 1:100 000, en í hverjum slíkum reit eru fjögur svonefnd fjórðungsblöð. Í upphafi höfðu fjórðungsblöðin sjálfstæð heiti, en við endurskoðun og endurútgáfur voru sérheiti þeirra felld niður og eftir það notuð sömu heiti og viðkomandi Atlasblað en fékk að auki viðbótarauðkenni; NV, NA, SV eða SA.
Kortin voru endurprentuð lengi vel, uppfærð að einhverju leyti og seld hér á markaði af Landmælingum Íslands. Þau voru einnig fáanleg flöt í möppum sem til eru í nokkrum stofnunum og bókasöfnum. Hætt var að endurprenta þau þegar leið á síðustu öld og hurfu þau smám saman af markaði eftir því sem lagerar tæmdust.
Þessi kort eru einstakar heimildir. Eitt af því sem er sérstaklega áhugavert eru örnefni og leiðir á landinu eins og þær voru fyrir bílaöldina. Kortin má flest skoða í kortasafni Landmælinga Íslands þar sem skannanir kortanna eru aðgengilegar á vefsíðu stofnunarinnar og hjá Landsbókasafni Íslands sem hefur birt skannanir af þessum kortum á vefsíðu sinni Íslandskort.is.
(Meginheimild: Ágúst Böðvarsson: Landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi. Upphaf Landmælinga Íslands. Reykjavík, 1996).
Þorvaldur Bragason