Mál og menning hefur gefið út fjögur ný fjórðungskort af Íslandi í mælikvarða 1:300 000. Kortin ná yfir Suðvesturland, Norðvesturland, Norðausturland og Suðausturland. Við endurgerð kortanna hefur sérstök áhersla verið lögð á nýtt og vandað hæðarlíkan af landinu í náttúrulegum litum þar sem sérstök áhersla er lögð á gróðurlendur landsins og myndræna skyggingu hálendisins. Fjölmörg náttúrufyrirbæri, eins og fjallgarðar og jöklar, sjást nú mun betur en áður.
Á kortunum eru nýjustu upplýsingar um vegakerfi landsins, tjaldstæði, sundlaugar, söfn og annað það sem gagnast ferðamönnum. Á bakhlið þeirra eru lýsingar og litmyndir af helstu náttúruperlum fjórðunganna, þar sem bent er á ýmis einkenni viðkomandi staða og er allur texti á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, þýsku og frönsku. Þar er einnig að finna ítarlega vegalengdatöflu.
Þá eru jafnframt komnar út hjá Máli og menningu nýjar endurskoðaðar útgáfur af Kortabók Íslands og Ferðakorti í mælikvarða 1:600 000 sem sýnir allt landið.
Kortabók Íslands inniheldur ný kort í mælikvarða 1:300 000, með útliti Íslandsatlass Eddu, sem kom út árið 2005. Hér eru svipbrigði landsins sýnd á 60 kortum sem unnin eru með stafrænni kortatækni og sýna landið allt, frá hæstu tindum til ystu annesja og eyja. Kortabókin er gormabundin í hentugu handbókarbroti og geymir yfir 9000 örnefni. Auk þess eru í henni fjöldi þéttbýliskorta, ítarlegar nafnaskrár og kort yfir tjaldstæði, sundlaugar, söfn og golfvelli.