Gögnum má í meginatriðum skipta í tvo grunnflokka eftir því hvort þau eru í eðli sínu staðtengjanleg eða ekki. Landrænum (staðtengjanlegum) gögnum hefur oft verið skipt í fjóra yfirflokka: fjarkönnunargögn (loftmyndir og gervitunglagögn), kortagögn (kort og stafræn landupplýsingagögn), staðtengd rannsóknagögn og landræn stjórnsýslugögn. Form gagnanna er annaðhvort hefðbundið (pappír/filmur) eða stafrænt (rasti, vektor, texti/tölur). Gagnlegt er að gera greinarmun á stafrænum skrám annars vegar og hins vegar stærri gagnasöfnum (gagnaflokkum/gagnasettum) þar sem skráðar eru sérstaklega ýmsar nánari upplýsingar um hin stafrænu gögn (landræn lýsigögn / e. spatial metadata ). Sömu gögnin eru hins vegar oft til á ólíku formi og eru af mismunandi gerðum.
Landræn gögn gefa upplýsingar um staði eða svæði á yfirborði jarðar og felst sérstaða þeirra meðal annars í því að sýna má staðsetningu með staðsetningarhnitum, en það gefur möguleika á leit eftir landfræðilegri legu. Flestir þeirra sem vinna með landræn gögn fást við afmarkaða gagnaflokka. Hver flokkur er í raun mjög sértækur heimur og þeir sem vinna innan hans eru sjaldan að hugsa heildrænt um mál allra gerða og forma landrænna gagna. Því getur mikilvægt efni auðveldlega farið forgörðum af því að enginn einn aðili var sérstaklega að hugsa heildrænt til dæmis um samhæfingu í varðveislumálum á landsvísu.
Við skipulagningu varðveisluverkefna á þessu sviði er mikilvægt að huga að heildarmyndinni þannig að skráningarferli gagna nýtist bæði vegna miðlunar á netinu og vegna varðveislunnar, sem fer ýmist fram í bókasöfnum, skjalasöfnum eða minjasöfnum. Við alla gagnavörslu er skráning og utanumhald lýsigagna grundvallaratriði.
Landræn lýsigögn eru notuð til að lýsa stafrænum landupplýsingum, annars vegar landrænum gagnasettum og vefþjónustum sem ætlaðar eru til birtingar slíkra gagna og hins vegar gagnagrunnum og stafrænum gagnaskrám. Landrænt efni eins og útgefin kort á pappír er hins vegar yfirleitt skráð samkvæmt bókfræðilegum skráningarreglum og stöðlum. Vefaðgengi er yfirleitt í gegnum hefðbundnar vefsíður, kortasjár eða landræna lýsigagnavefi.
Þeir hagsmunaaðilar sem helst tengjast landupplýsingamálum á Íslandi eru: landupplýsingageirinn, vísindastofnanir, útgefendur, stjórnsýslan og söfnin, en þessir hópar virðast ekki hafa mikil tengsl sín á milli. Vegna smæðar samfélagsins var fyrir hina stafrænu byltingu í vinnslu korta og annarra landrænna gagna, mögulegt fyrir marga sérfræðinga að hafa nokkuð góða yfirsýn og vita hvert ætti að leita eftir slíkum gögnum. Þetta hefur breyst enda gögnin orðin flóknari og fjölbreytilegri um leið og þau eru dreifðari, bæði hjá opinberum stofnunum, sveitarfélögum og hjá fyrirtækjum á markaði, innanlands sem utan. Eignarhald landrænna gagna er ekki lengur fyrst og fremst opinbert heldur einnig hjá einkaaðilum, það dregur úr möguleikum til að tryggja varðveislu innan opinberra safna. Það er samfélagslega mikilvægt að til sé yfirlit yfir öll landræn gögn af Íslandi, hver sem á þau eða geymir.
Þorvaldur Bragason