Með tilkomu Google Earth á netinu árið 2005 og síðan fleiri hnattrænna vefverkefna varð mögulegt að skoða alla jörðina á gervitunglamyndum gegnum kortasjár. Sú breyting á aðgengi almennings á heimsvísu að gervitunglagögnum var byltingakennd og ýtti af stað spennandi þróun sem enn sér ekki fyrir endann á. Þær heildarmyndir sem liggja til grundvallar í slíkum hnattrænum kortasjám eru stöðugt uppfærðar með nýju efni og er upplausn myndanna alltaf að batna, bæði eftir því sem ný gervitungl koma fram og með því að loftmyndagrunnar frá mörgum löndum rata inn í myndefnið á ákveðnum svæðum
Áður en að þessum tímamótum kom var víða verið var að þróa ýmsar hugmyndir á þessu sviði. Ein þeirra var Digital Earth þar sem reynt var að stuðla að gerð og framsetningu hnattrænna gagnasetta þar sem kort eða gervitunglagögn af jörðinni voru undirliggjandi. Slík verkefni þróuðust víða um heim fyrir einstök lönd eða heimshluta, en mörg birtust fyrst á geisladiskum og síðar í kortasjám og öðrum veflausnum. Myndgögn byggð á loftmyndum og gervitunglagögnum voru til dæmis notuð í flughermum og voru leikir með slíku efni mjög vinsælir á tímabili.
Samsetning Landsat heildarmynda af Íslandi hjá Landmælingum Íslands 1991-1995 leiddi af sér margvíslega notkunarmöguleika. Kostir heildarmyndanna sem byggðu á Landsat Thematic Mapper myndum (30×30 m myndeiningar) voru þeir að þar var komin fram mynd af öllu landinu í náttúrulegum litum þar sem birtujöfnuð mynd gat nýst á margan hátt þó ekki væri hægt að jafna notkunarmöguleikum fyrir afmarkaðri svæði við gögn eins og loftmyndir. Um aldamótin var tekin stjórnvaldsleg ákvörðun um að Landmælingar Íslands skyldu hætta töku loftmynda, en síðustu myndirnar sem voru svarthvítar voru teknar árið 2000. Á þeim tíma voru fyrirtækin Loftmyndir ehf og Samsýn farin að taka litloftmyndir af landinu og vinna þau verkefni á samkeppnismarkaði, en þá var aðeins takmarkaður hluti landsins til. Loftmyndir ehf höfðu síðan náð myndum af öllu landinu eftir tæpan áratug, utan mynda af Vatnajökli. Í framhaldi af því kom á markaðinn heildarmynd (loftmyndamosaik) af landinu frá fyrirtækinu með allt öðrum og betri myndgæðum en áður voru til (myndgreining innan við 1 m).
Þegar farið var að huga að vinnslu SPOT heildarmyndarinnar af landinu hjá fyrirtækinu GAF í München í Þýskalandi undir stjórn Kolbeins Árnasonar starfsmanns Landmælinga, kom fram hugmynd um að nýta hugbúnað frá GAF í annað verkefni. Þar var búnaður sem gerði það kleift að setja þrívíddarlíkan og gervitunglamyndir saman og gera notendum þannig mögulegt að „fljúga“ síðan yfir landið eins og í flughermi. Tekin var ákvörðun um að senda þrívíddarlíkan og Landsat heildarmyndina í náttúrulegum litum af Íslandi (myndeiningar 30×30 m) til Þýskalands og fá samsett efni með hugbúnaði til baka á geisladiski til skoðunar og nota á stofnuninni. Á þessum árum voru Landmælingar Íslands að gefa út geisladiska með kortaflokkum stofnunarinnar og var tekin ákvörðun um að prófa að gefa út svokallaðan „flugdisk“ (Á flugi yfir Íslandi), þar sem áðurnefnd gögn voru markaðssett með vönduðu útliti og ítarefni í veglegum leiðbeiningabæklingi. Útgáfa disksins markaði tímamót því þar var í aðgengilegri lausn mögulegt að skoða allt landið með nýjum hætti (gervitunglamynd felld ofan á þrívíddarlíkan) þó upplausnin (30×30 m) væri ekki eins og alla langaði til. Diskurinn var gerður fyrir PC tölvur. Í búnaðinum gat notandinn upplifað að hann væri að fljúga yfir landið og stjórnað ferðinni t.d. hækkað og lækkað flug og stýrt hraða alfarið með músarhreyfingum.
Ákveðið var að stilla verðlagningu disksins mjög í hóf og kostaði hann í verslunum svipað og hljómdiskar og diskar með kvikmyndum á þeim tíma. Diskurinn var settur á gjafamarkaðinn fyrir jólin 2001 og skipti engum togum að hann seldist gríðarlega vel. Árið eftir var efni disksins aukið og endurbætt, bæði með nákvæmara myndefni af nokkrum stöðum og kortum.
Alls munu hafa verið seldir í heild yfir 15.000 geisladiskar á hálfu öðru ári. Ljóst er að við sem stóðum að þessu verkefni og komum útgáfunni á markað höfðum í upphafi fulla trú á að verkefnið myndi standa vel undir sér og eiga stað á markaðnum, en að viðtökur yrðu slíkar sem raun varð á kom okkur öllum á óvart.
Þetta er umhugsunarvert dæmi um það að gögn þurfa að vera til í mismunandi upplausn vegna ólíkra verkefna. Geisladiskurinn hefði ekki rúmað Íslandsmynd með mikið meiri upplausn (minni myndeiningar) en þarna var á ferðinni. Enn í dag er Landsat TM litmyndin frá 1995 sem hér um ræðir eina birtujafnaða heildarmyndin eftir gervitunglamyndum af landinu þar sem sjór er afmarkaður frá landi með einum lit, en það er nauðsynlegt áferðarlega til að markaðssetja vöru með þeim hætti sem gert var.
Þorvaldur Bragason