Varðveislumál landrænna gagna á Íslandi eru í óvissu vegna skorts á markvissri opinberri stefnu. Takmarkaður áhugi virðist vera innan stofnana og ráðuneyta sem málið varðar að bæta þar úr, en lykilatriðið er að setja þarf heildarstefnumótun í málaflokknum fyrir landið í heild á dagskrá. Á meðan ekkert er gert er hætta á að landrænt efni skemmist eða glatist, bæði sjálf gögnin, en einnig birtingarmyndir þeirra á ýmsu formi eins og þekkt er meðal annars á Netinu. Kortasjár eru orðnar helstu birtingarmiðlar landrænna gagna. Hraðar breytingar valda því að líftími hverrar kortasjár virðist vera stuttur og þess oft ekki gætt að afrita og varðveita nægar upplýsingar um breytingasögu og útlit sjánna óháð gögnum og gagnasettum sem að baki birtingunni liggja.
Til að skýra hvað átt er við með landrænum varðveisluverkefnum eru hér nefnd nokkur dæmi um mikilvæg forgangsverkefni sem fjalla þarf um og koma í framkvæmd sem fyrst.
Loftmyndir: Koma þarf loftfilmusöfnum landsins í örugga miðlæga geymslu, en geymslur slíkra safna hér á landi eru ekki taldar öruggar. Mikilvægt er að reyna að semja við einkaaðila um opinbera varðveislu filma í þeirra eigu. Þá þarf að fá til landsins loftmyndafilmur sem geymdar hafa verið erlendis, samræma myndaskráningu og bæta aðgengi að upplýsingum um loftmyndasöfn á Netinu. Þá þarf jafnframt að tryggja varðveislu loftmynda sem teknar hafa verið með stafrænni tækni.
Gervitunglagögn: Finna þarf út hvaða gögn eru til af Íslandi, hvar þau eru geymd í heiminum og hvaða hluti myndgagnanna hefur helst gildi sem heimildir til langtímavarðveislu hér á landi. Forgangsraða þarf svæðum, skipuleggja innkaup valins myndefnis og tryggja aðgengi og frjáls afnot í íslenskum stofnunum. Gervitunglagögn eru yfirleitt í eigu erlendra fyrirtækja og enginn veit hve lengi þau verða geymd eða um endingu segulmiðlanna sem þau eru nú varðveitt á.
Stafræn landupplýsingagögn: Setja þarf reglur um varðveisluform stafrænna landupplýsingagagna og koma verður gögnum sem geymd eru á ólíku formi og geymslumiðlum yfir á diska þar sem koma má við reglubundinni afritun. Skipuleggja þarf varðveislu og afhendingu stafrænna landupplýsinga frá stofnunum til höfuðsafna landsins.
Hefðbundin kort: Koma verður tækni- og framkvæmdakortum/skipulagskortum stofnana í samræmda skráningu, hágæðaskönnun og skil til Þjóðskjalasafns Íslands, en þúsundir slíkra korta sem komin eru á skilaskyldualdur eru talin vera geymd við óviðunandi aðstæður hér á landi. Tryggja þarf að hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni séu til eintök af öllum útgefnum Íslandskortum og aðgengi að upplýsingum um öll kort þarf að vera opið á Netinu.
Kortasjár: Tryggja verður að afrit séu tekin reglulega af útliti allra íslenskra kortasjáa, en útlit þeirra afritast til dæmis hvorki í reglubundinni afritun Landsbókasafns á íslenskum vefsíðum eða í alþjóðlegum vefafritunarverkefnum. Afritunin þyrfti ávallt að fara fram áður en útliti kortasjáa er breytt að einhverju ráði og alltaf áður en þeim er lokað. Ákvarða þarf ábyrgðaraðila á stjórnun þessarar varðveislu, en eðlilegast væri að Landsbókasafn sinnti því hlutverki eins og safnið gerir nú varðandi aðrar vefsíður.
Þorvaldur Bragason