Forgengilegar landupplýsingar (38)

Vefsíður og kortasjár geta horfið af Netinu af mörgum ástæðum. Slíkt getur til dæmis gerst vegna netárása eða mistaka í umsýslu á vefþjónum hjá vistunaraðilum, eins og gerðist fyrir nokkru varðandi vistun „landakort.is“, þar sem erlent vistunarfyrirtæki geymdi ekki afrit af efni vefþjóns sem hýsti vefinn, þegar efni hans hvarf af Netinu. Tekist hefur að byggja grunn vefsins upp aftur á gömlu afriti og er búið að setja inn alla fyrri pistla. Í sambandi við stöðu og útlit vefgáttarinnar eins og hún leit út í byrjun júnímánaðar er mikilvægt að hafa aðgang frá þeim tíma að útlitsafritum á Vefsafn.is og Wayback Machine. Á næstunni verður unnið að því að uppfæra aðra hluta vefsins sem aflöguðust og er stefnt að því að fyrra efni verði komið inn aftur með sama hætti og áður í næsta mánuði.

Margar stofnanir hafa við rekstur kortasjáa þurft að skipta um hugbúnað, með tilheyrandi kostnaði, þegar sá hugbúnaður sem notaður var er ekki lengur uppfærður eða viðhaldið af framleiðendum. Líftími margra kortasjáa er stuttur. Það er þó af mörgum talið eðlilegt, þar sem tæknin á Netinu breytist hratt, stöðugt er verið að skipta út hugbúnaði og nýjar og hraðvirkari lausnir koma fram. Efni kortasjáa hverfur því reglulega af Netinu, þar sem engin samræmd leið hefur verið sett upp vegna varðveislu slíks efnis. Því verður að finna hagkvæmar leiðir til að afrita upplýsingar um útlit og virkni núverandi kortasjáa. Þá þarf að leita leiða til að ná afritum og upplýsingum um útlit og virkni eldri kortasjáa sem ekki eru lengur opnar á netinu, en gætu verið til í afritum eða enn á innri kerfum. Móta þarf stefnu í því hvað er mikilvægast að varðveita fyrir framtíðina, um leið og huga þarf að því hvert á að vera aðgengi slíkra upplýsinga. Skera þarf úr um það hverjir eigi að bera ábyrgð á afritun, varðveislu og aðgengi þessara upplýsinga í framtíðinni. Sú ákvörðun ætti að vera hluti af opinberri varðveislustefnu landrænna gagna á Íslandi.

Meginmarkmið flestra stofnana sem starfa á sviði landrænna gagnamála er að byggja upp gagnagrunna fyrir gagnaflokka á lögbundnu fagsviði hverrar stofnunar og viðhalda gagnasettum sem eru samræmd við staðla vegna notkunar, birtingar og miðlunar fyrir ýmsa starfsemi innanlands sem utan. Það fylgir þróun Netsins og framsetningu upplýsinga á veraldarvefnum að stöðugt þarf að fylgjast með nýrri tækni og uppfæra reglubundið búnað vegna aðgengis að upplýsingum. Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá hafa virkað vel og gegnt þeim þörfum sem Orkustofnun hefur haft fyrir framsetningu sinna landrænu upplýsinga um nokkurra ára skeið, enda hentar búnaðurinn vel fyrir þá tegund gagna sem stofnunin birtir. Ekkert sérstakt ætti að vera því til fyrirstöðu að slíkt geti haldið áfram um einhver misseri, en helsta áhyggjuefnið er þó að hugbúnaðinum er ekki haldið við og Orkustofnun þarf ein stofnana að greiða fyrir þróun hans ef einhver væri, þar sem ekki eru aðrir notendur að búnaðinum. Því má ljóst vera að innan einhvers tíma mun stofnunin þurfa að endurmeta notkun þess kortasjárhugbúnaðar sem nú er í notkun. Gögnin sjálf eru hins vegar búin til í öðrum kerfum og lúta reglulegum uppfærsluferlum þar sem haldið er utan um breytingasögu og kerfisbundna lýsigagnaskráningu fyrir allar útgáfur hvers einasta gagnasetts. Millifærsla gagna í nýjan búnað til framsetningar á Netinu þegar þar að kemur ætti því ekki að verða neinum sérstökum tæknilegum vandkvæðum bundin. Virkni hugbúnaðarlausna, uppsetning og kostnaður við viðhald þeirra er hins vegar mjög mismunandi. Breytingin mun því þegar þar að kemur fela í sér meiri kostnað og taka nokkurn tíma.

Þorvaldur Bragason

 

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...