Gagarín setur upp nýja kortaþjónustu fyrir Já.is

Á vefsíðu símaskrárinnar Já.is er komin upp ný gagnvirk kortaþjónusta, sem býður uppá fjölbreytta korttengda leitarmöguleika  þegar finna þarf heimilisföng og símanúmer aðila á ýmsum sviðum í samfélaginu. Vefsjáin er unnin af fyrirtækinu Gagarín og byggir meðal annars á gögnum frá Landupplýsingakerfi Reykjavíkur (LUKR), Landmælingum Íslands og heimilisfangaskrá Hnits hf.

Vefsjáin er þannig uppbyggð að auk leitar á korti eða loftmynd, t.d. að ákveðnu heimilisfangi, er hægt að leita eftir ákveðnum þjónustuflokkum samkvæmt níu landsvæðum. Þar eru síðan fjórir undirflokkar sem skiptast nánar innbyrðis. Gisting er flokkuð í nokkra flokka allt frá hótelum til tjaldsvæða, menning felur meðal annars í sér bíó, bókasöfn og önnur söfn og afþreying sýnir síðan m.a. golfvelli og sundlaugar. Undir flokknum annað, má m.a. finna aptótek, banka, bensínstöðvar, heilsugæslu/sjúkrahús, lögreglu, pósthús og upplýsingamiðstöðvar.

Fyrirtækið Gagarín hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á liðnum árum fyrir verkefni sem það hefur unnið á sviði sýninga, margmiðlunar og ýmissa veflausna. Sem dæmi um kortavefsjár sem unnar hafa verið af fyrirtækinu má nefna þjóðgarðana: Þingvelli, Skaftafell, Jökulsárgljúfur og Snæfellsjökul, auk kortalausna á vefsíðunum visitreykjavik.is og reykjavik.is, sem og fleiri verkefni sem lesa má nánar um á  www.gagarin.is

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...