Gamlar greinar um landfræði Íslands (117)

Á 19. öld varð mikil gróska í útgáfu sérhæfðra landfræðitímarita í mörgum löndum Evrópu. Nokkur þessara tímarita koma enn út og eiga því sum þeirra töluvert á annað hundrað ára samfellda útgáfusögu. Þar birtust gjarnan frásagnir af rannsóknaleiðöngrum sem farnir voru um allan heim og með þeim hætti var miðlað miklum upplýsingum á tímum þar sem miðlun sértæks fróðleiks um landfræði og náttúruvísindi var um margt bundin prentmiðlum og fyrirlestraferðum. Ferðir útlendinga til Íslands voru mörgum tilefni til að rita bækur og greinar um margvísleg náttúrufarsleg málefni á Íslandi. Að sama skapi var tækifæri fyrir Íslendinga til að miðla slíku efni til fræðasamfélagsins í öðrum löndum. Hvað umfang skrifa og birtinga á þessu sviði varðar hefur enginn Íslendingur komist nálægt því sem Þorvaldur Thoroddsen gerði í þessu efni.

Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) var höfundur margra stærstu ritverka um náttúru Íslands, samanber ferðabók hans í fjórum bindum, Lýsingu Íslands einnig í fjórum bindum og Landfræðisögu Íslands sömuleiðis í fjórum bindum í frumútgáfunni (fimm bindi í nýrri útgáfu). Í ritaskrá Þorvaldar sem birtist í fjórða bindi annarrar útgáfu ferðabókarinnar má fá góða innsýn í hvaða rit hann notaði mest til að birta greinar erlendis sem innanlands. Fyrrnefnd ritverk og tímaritsgreinarnar voru síðan grunnefniviðurinn fyrir hið fræga jarðfræðikort Þorvaldar sem kom út á tveimur blöðum í litprentaðri útgáfu í mælikvarða 1:600 000 árið 1901. Eldri gerð kortsins hafði reyndar komið út ári fyrr í einfaldari útgáfu, en þar var tilgangurinn einkum að uppfæra og leiðrétta kortagrunn Björns Gunnlaugssonar sem gerður var og gefinn út rúmri hálfri öld áður eða á árunum fyrir 1850. Jarðfræðikort Þorvaldar kom síðan út í uppfærðri útgáfu á þýsku árið 1906 og þá í mælikvarða 1:750 000.

Þegar ég starfaði á Landsbókasafni Íslands í Safnahúsinu við Hverfisgötu veturinn 1979-1980, áður en ég hóf störf hjá Landmælingum Íslands, fékk ég áhuga á að skoða þetta efni betur. Til þess kom kjörið tækifæri um veturinn þegar flytja þurfti til og endurraða erlendu bóka- og tímaritaflokkunum sem safnið átti á sviði landfræði og sagnfræði. Þegar litið er til elsta hluta tímaritasafnsins á sviði landfræði kom í ljós sem ég vissi ekki þá, að mikill hluti þess var kominn til safnsins úr bókasafni Þorvaldar Thoroddsen, sem Landsbókasafnið fékk að gjöf eftir hans dag. Sum þessara tímarita sem hann hafði keypt og safnað áratugum saman frá upphafi útgáfunnar voru og eru fallega innbundin í skinnband. Þá daga sem það kom í minn hlut að sitja yfir á lestrarsal safnsins gafst kjörið tækifæri til að fletta þessum merkilegu tímaritum árgang fyrir árgang. Í þeirri flettingu skráði ég á seðla greinar um Ísland í nokkrum norrænum landfræðitímaritum og birti í Landabréfi, fréttabréfi landfræðifélagsins snemma á níunda áratugnum, en fréttabréfið er nú aðgengilegt skannað á netinu á vefsíðu Félags landfræðinga.
Þekkturstu ritin á þessu sviði í Landsbókasafni voru: breska landfræðitímaritið Geographical Journal (áður Journal of the Royal Geographical Society of London), þýska landfræðitímaritið Petermanns geographische Mitteilungen, Geografisk Tidskrift í Danmörku og Ymer og Geografiska Annaler í Svíþjóð. Í birtingu greina um Ísland var Þorvaldur Thoroddsen mjög virkur og notaði tímaritin til að kynna Ísland og rannsóknir sínar með greinum oft um sömu eða svipuð málefni, en skrifuð á mismunandi tungumálum til birtinga í hinum ýmsu löndum.
Nú hefur ekki verið skoðað hvort þessi tímarit koma öll enn út með sama hætti og áður eða hvort Landsbókasafn hafi hugsanlega hætt kaupum á einhverjum þeirra, en aðgengi og miðlun greina úr tímaritum er orðin allt önnur í dag með tilkomu rafrænna lausna.
Sú saga sem lesa má úr áðurnefndum skrám um efni tengt Íslandi er ef til vill fyrst og fremst fróðleg frá sagnfræðilegum sjónarhóli. Fyrir utan greinar Þorvaldar Thoroddsen fannst mér fróðlegast að sjá samtímagreinar í Geografisk Tidskrift um landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi, en á tímabili í byrjun síðustu aldar birtust þar árlega langar greinar um starfsemi landmælingadeildar danska herforingjaráðsins við kortlagningu Íslands. Hvort ástæða sé til að bæta við í skrárnar nýjum greinum eða endurgera áðurnefndar skrár, veit ég ekki eða hvort bæta ætti við efni fleiri tímarita, en líklegt er að nýjar greinar séu ekki margar.
Skráin sem birt var í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen, sem ég studdist mjög við er algjör lykilskrá sem segir mikla sögu og ber vitni um ótrúlega vinnusemi og stórmerkilegt ævistarf íslensks vísindamanns á fyrri tíð. Það er að minnsta kosti áhugavert að skoða innlegg hans í áðurnefnd landfræðitímarit í ljósi umfangs annars efnis um Ísland sem birt hefur verið á sömu vígstöðvum.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .