Gervitunglagögn frá SPOT (71)

Þegar franska SPOT-1 gervitunglinu var skotið á loft 21. febrúar 1986 hafði verkefnið verið átta ár í undirbúningi, eða frá árinu 1978. Í millitíðinni höfðu Svíar og Belgar orðið þátttakendur að hluta í verkefninu, en það var í raun hugsað meira á viðskiptalegum grunni frekar en sem þróunar- og rannsóknaverkefni. Verkefnið þróaðist síðan í það að jarðstöðvar og dreifingarskrifstofur voru settar upp í fjölmörgum löndum.

Mesti munur í gagnaaðgengi fyrir notendur frá Landsat gögnum yfir í SPOT gögn var mun meiri greinihæfni í SPOT myndum, hægt var að beina skönnunum til hliðar og fá þar með myndir af sama staðnum mun oftar en umferðartíminn sagði til um, þá var einnig mögulegt að skoða myndir í þrívídd, sem er lykilatriði í kortavinnslu. Þannig var gagnakaupendum boðið uppá að fá vöktun á svæði á tiltölulega stuttu tímabili og því var líklegra að skýjalausar myndir fengjust á svipuðum tímapunkti af völdu rannsóknasvæði. Svæði sem sáust á hverri mynd voru hins vegar mun minni eða 60×60 km á yfirborði jarðar á móti 185×185 km hjá Landsat og því þurfti meira en níu myndir til að þekja sama svæði og ein Landsat mynd náði yfir. Kostnaður var því meiri við að fá gögn af skilgreindum svæðum.

Fyrstu þrjú SPOT gervitunglin voru byggð upp með sömu tækni og fóru eftir svipuðum brautum í 832 km hæð yfir jörðu, en brautakerfið var skipulagt þannig að gervitunglið fór yfir sama stað á jörðinni á 26 daga fresti. SPOT-1 gervitunglið var tekið úr almennri notkun 31. desember 1990. Spot-2 var skotið á loft 21. janúar 1990 og SPOT-3 þann 25. september 1993. Um borð í hverju gervitungli var annars vegar skanni (HRV – High resolution visible) sem skilaði svarthvítum gögnum með 10×10 metra myndeiningum og hins vegar skanni sem skilaði gögnum með 20×20 metra myndeiningum þar sem hægt var að blanda þremur böndum saman og fá fram innrauðar litmyndir. Helstu gagnaöflunarleiðir voru gegnum Toulouse í Frakklandi og Kiruna í Svíþjóð. SPOT-4 var síðan skotið á loft 23. mars 1998. Þar voru gerðar uppfærslur á tæknibúnaði, sem fól meðal annars í sér útvíkkun á gagnaframboði efnis á fleiri sviðum rafsegulrófsins.

Mestu breytingarnar komu fram með geimskoti SPOT-5 þann 3. maí 2002. Þar komu fram nýir skannar, meðal þess HRG (High resolution geometric) sem skilaði svarthvítum (pancromatic) gögnum með 5×5 metra myndeiningum (reiknanlegar fyrir í 2,5×2,5 metra myndeiningar) og 10×10 metra myndeiningum í „multispectral“ gögnum.

Með þessum nýju gögnum sköpuðust tækifæri til að endurskipuleggja framtíðaráætlun fyrir „viðhald“ heildarmynda af Íslandi eftir gervitunglagögnum, þar sem áherslan færðist frá Landsat yfir á SPOT.

Í undanfarandi pistlum hefur verið fjallað um Landsat 1-5 og SPOT 1-5 gögn, en ekki fjallað um önnur gervitungl frá fyrstu áratugum gervitunglatækninnar. Ástæðan er sú að frá Landsat og SPOT kom það myndefni sem skilaði samsettum heildarmyndum af Íslandi fram yfir síðustu aldamót. Umfjöllun um önnur gervitungl bíður í bili. Í næstu pistlum er fyrirhugað að fjalla nokkuð um þær heildarmyndir af Íslandi sem gerðar hafa verið eftir Landsat og SPOT myndgögnum.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...