Gömlum kortasjám lokað (121)

Líftími kortasjáa hefur verið nokkuð til umræðu vegna hraðra breytinga í tækni á netinu. Það virðist vera að fáar kortasjár séu opnar lengur en áratug án umtalsverðra uppfærslna eða breytinga. Þá eru nokkur þeirra fyrirtækja sem lengi voru virk í umsýslu kortasjáa fyrir stofnanir og sveitarfélög hætt starfsemi á þessu sviði. Dæmi þar um eru hugbúnaðarfyrirtækin Gagarín sem leggur nú áherslu á annað og Snertill sem er hættur starfsemi, en fyrirtækin voru bæði áberandi á þessum markaði fyrir um áratug eða svo. Við það að þjónusta fyrirtækja með ákveðinn hugbúnað hættir þarf viðskiptavinurinn að leita annarra leiða og semja við nýjan aðila sem býður þá aðrar lausnir. Því fylgir síðan oft algjör umbreyting á útliti, virkni og möguleikum til tengingar og framsetningar upplýsinga, sem jafnan er til bóta fyrir notandann, en kostar mikið fé og vinnu fyrir stofnunina eða sveitarfélagið sem um ræðir. Útlit er síðan smekksatriði, en breytingar yfir í annan hugbúnað þýða ekki endilega að metnaðurinn í fagurfræðinni sé með sama hætti og var.
Við það að kortasjá er lokað á netinu hverfa allar upplýsingar í einu vetfangi. Verkefni sem hafa yfirleitt tekið gríðarlegan tíma og kostað umtalsverða peninga eru þar með aflögð og oft engar heimildir til eftir það um útlit og efnisinnihald hinna aflögðu kortasjáa. Þó svo að í verkefninu vefsafn.is sem er afritunarverkefni á vegum Landsbókasafns Íslands fyrir íslenska vefi, næst þar ekki að afrita íslenskar kortasjár þar sem þær munu vera of flóknar hugbúnaðarlausnir. Sama er að segja um erlenda afritunarvefi vefsíðna eins og Wayback Machine, að þær afrita ekki heldur kortasjár. Eina þekkta dæmið hér á landi um útlitsafritun hefur verið afritun Orkustofnunar á útliti Gagnavefsjár og Náttúruvefsjár. Til að við gerum okkur almennt grein fyrir umfangi lokana og umbreytinga þá eru líklega aflagðar nær allar þær rúmlega 40 kortasjár sem til voru þegar vefgáttin landakort.is opnaði árið 2007 og birti tengla í þær á forsíðu. Oftast hefur verið skipt um hugbúnað, eða uppfærslur og útfærslur það mikið breyttar að um ný verkefni er að ræða þó sömu vefslóðir séu notaðar í mörgum tilfellum. Kortasjám hefur einnig fjölgað mikið, enda eru opinberlega birtar íslenskar kortasjár nú á annað hundraðið.
Orkustofnun hefur nýlega lokað þeim þremur kortasjám sem stofnunin byggði upp fyrir um tíu árum með notkun hugbúnaðar Gagarín (Flashmap), en frumgerð þess hugbúnaðar var gerð fyrir verkefnið Náttúruvefsjá nokkrum árum fyrr. Um er að ræða Orkuvefsjá, Landgrunnsvefsjá og tilraunaverkefni sem sýndi kort í mælikvarða 1:25 000. Hugbúnaðurinn þótti á sínum tíma leysa fullkomlega þær þarfir sem stofnunin hafði á þessu sviði og gengu öll verkefnin vel fyrstu árin. Með því að Veðurstofa Íslands og Umhverfisráðuneytið hættu að styðja við Náttúruvefsjá sem var á þeirra fagábyrgð, þá hætti Gagarín að þróa grunnhugbúnaðinn. Þar með þurfti Orkustofnun eftir því sem tímar liðu að færa birtingu landfræðilegra gagna sinna annað, sem hefur verið gert á nokkrum undanförnum misserum. Þar með hafa orðið til nýjar kortasjár. Kortasjá OS sem tekur við hlutverki Orkuvefsjár er unnin í samstarfi við Loftmyndir ehf, en Landgrunnssjá sem tekur við af Landgrunnsvefsjá og kortasjá fyrir kortasafn OS sem tekur við af Kortasjá 1:25 000 eru unnar í samstarfi við Alta ehf.
Orkuvefsjá (2010-2019) birti upplýsingar um landfræðileg gögn Orkustofnunar. Landgrunnsvefsjá (2009-2019) birti upplýsingar um gögn frá Drekasvæðinu vegna olíumála og vefsjá um kort 1:25 000 (2014-2019) birti upplýsingar um kort nokkurra stofnana (Landmælinga Íslands, Landsvirkjunar, Náttúrufræðistofnunar og Orkustofnunar) í mælikvarða 1:25 000, sem gerð voru og útgefin  á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar. Öll hin landfræðilegu gögn og upplýsingar um þau sem áður birtust í eldri kortasjám OS hafa nú verið sett fram með nýjum hætti og eru aðgengileg í þeim kortasjám sem tekið hafa við af þeim sem lokað var. Slíkt er hins vegar ekki alltaf raunin  við lokun kortasjáa. Til þess að hægt sá að sjá hvernig kortasjárnar litu út og hvaða upplýsingar voru birtar í þeim hefur útlitsafritun af þeim verið birt á vef Orkustofnunar. Tvær fyrrnefndu kortasjárnar Orkuvefsjá og Landgrunnsvefsjá voru bæði í enskum og íslenskum útgáfum en sú þriðja (Kortavefsjá 1:25 000) aðeins á íslensku.
Sú staðreynd að ekki er lengur hægt að finna upplýsingar um og sjá hvernig meira en helmingur íslenskra kortasjáa leit út í fyrstu útgáfu er mikið umhugsunarefni. Það að opinberar varðveislustofnanir (lykilsöfnin) skuli vísa frá sér ábyrgð á að finna lausn á afritunarmálum kortasjáa er ekki viðunandi.
Spyrja mætti hvers vegna afritun á útliti kortasjáa fer ekki fram með samræmdum hætti? Eins mætti hafa í huga til samanburðar að það á til dæmis að geyma öll afrit bréfa og tölvupósta úr skjalaskráningarkerfum stofnana og sveitarfélaga, allar útgáfur tiltekinna bóka (bæði endurprentanir og erlendar útgáfur), afrit sem tekin eru reglulega og oft á ári af öllum íslenskum vefsíðum, en kortasjám er sleppt og enginn virðist hafa áhyggjur af því. Þetta eru stórmerkilegar heimildir sem á að geyma, einhver kallaði þetta kortaatlasa nútímans. Það að geyma aðeins mismunandi útgáfur landfræðilegu frumgagnasettanna úr landupplýsingakerfunum sem liggja til grundvallar (þó það sé því miður ekki gert alls staðar eins og á að gera), leysir engan vanda þar sem útlitið á birtingunni vantar. Sagan á þessu sviði er að glatast. Það er auðvitað ekki ásættanlegt.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .