Gróðurmynd og Landsat gögn (72)

Alþingi samþykkti árið 1991 þingsályktun um „Kortlagningu gróðurlendis Íslands“ þar sem gert var ráð fyrir að nýta gervitunglagögn til vinnslu heildarmyndar af öllu landinu til að sýna gróðurþekju landsins. Styrkur fékkst síðan frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins til tækja- og gagnakaupa.  Keyptur var tölvubúnaður og ERDAS myndvinnsluhugbúnaður sem var mjög útbreiddur á þeim tíma um allan heim og sett upp starfsemi á Landmælingum Íslands til að vinna verkefnið, en stofnunin hafði á árinu 1989 hafið undirbúning að starfsemi á sviði einfaldrar myndvinnslu gervitunglagagna. Í samstarfi við erlenda aðila höfðu verið gefnar út tvær veggmyndir með Landsat myndum (innrauð mynd og litmynd) af hluta suðvesturhorns landsins, sem vöktu umræður og gáfu fyrirheit um ný tækifæri með notkun slíkra mynda.

Ákveðið var að kaupa 12 Landsat TM myndir með 30×30 metra upplausn og náðist með því að þekja nánast allt landið með myndum frá tímabilinu 1986-1992. Það sem á vantaði voru fjögur lítil svæði og voru til stafræn gögn af þeim svæðum úr eldri Landsat gögnum með 60×80 metra upplausn. Þar sem tölvubúnaðurinn réð ekki við allt það gagnamagn sem til þurfti fyrir myndvinnslu í fullri upplausn TM gagnanna var ákveðið að varpa gögnunum þannig að út fengist 100×100 metra myndupplausn og þar með var myndefnið allt til. Í þessu verkefni var samstarf Landmælinga Íslands við Landgræðslu ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA), en sjálf tölvuvinnslan (1989-1993) var í höndum Hans H. Hansen landfræðings sem starfaði á þeim tíma hjá Landmælingum.

Fyrsta heildarmyndin var gerð í innrauðum litum. Hún var með 100×100 metra myndeiningum, gerð úr þremur TM böndum 2, 3 og 4 og var 79 mb að stærð. Myndir voru réttar upp miðað við landmælingagögn, kort og annað efni sem til þurfti og síðan „klipptar“ saman. Þegar innrauða heildarmyndin var tilbúin kom að flokkun myndarinnar með það fyrir augum að útbúa flokkaða mynd með átta yfirborðsflokkum sem sýndi mismunandi gróður og yfirborð á landinu. Úr varð flokkuð mynd sem fékk heitið Gróðurmynd. Út frá mismunandi endurkasti frá gróðri sem sást á innrauðu myndinni var reynt að draga mörk milli fjögurra flokka gróðurs (gróið land, allvel gróið land, fremur rýrt land og rýrt land) og fjögurra annarra yfirborðsflokka (melar og urðir, sandar og hraun, jöklar og fannir, og vatn). Þessi flokkun studdist við reynslu margra sérfræðinga og notuð voru ýmis gögn s.s.  loftmyndir, gróðurkort og ljósmyndir. Gróðurmyndin var gerð sem eitt lag og varð 10 Mb að stærð. Í þessu ferli var samhliða ákveðið að nýta myndefnið betur og útbúa svarthvíta heildarmynd af landinu í 30×30 metra upplausn myndeininga, byggða á böndum 2, 3 og 4. Sú mynd reyndist 210 Mb að stærð.

Þessar þrjár fyrstu stafrænu heildarmyndir af landinu voru allar tilbúnar árið 1993 og þá gerðar aðgengilegar öðrum. Þar sem fjárveiting nægði aðeins fyrir hluta kostnaðar var settur verðmiði á myndefnið og innheimt gjald af notendum. Þekktasta nýting svarthvítu myndarinnar var tengd vinnu Orkustofnunar við að staðsetja orkukosti á landinu og birtist hún sem undirlag fjölda mynda í skýrslum.

Gróðurmyndin varð þekktust þessara heildarmynda þar sem hún var gefin út sem kort á pappírsformi í mælikvarða 1:600 000 með skýringum, einnig árið 1993. Myndin fór víða og var hún jafnframt formlega gefin út og seld stafræn í mismunandi upplausn.

Gerð Gróðurmyndarinnar og útgáfa hennar var ekki óumdeild. Skiptust þeir sem höfðu skoðun á verkefninu í tvo meginflokka; þá sem voru ánægðir með ný gögn, tækni og framsetningarmáta og síðan þá sem töldu upplausn gagnanna ekki nægilega og dregnar væru rangar ályktanir af myndefninu og töldu þar flatarmál gróins lands oftúlkað. Ýmislegt kom fram í myndefninu sem áhugi var á að laga, svo sem að eyða röndum við jökla, birtujafna myndir og fá nýjar heildarmyndir bæði í innrauðu og venjulegum litum af öllu landinu í fullri upplausn gagnanna. Leiddi það til þess að farið var í ný verkefni, sem fjallað verður um í næsta pistli.

Þorvaldur Bragason

Nánari upplýsingar: Þorvaldur Bragason og Magnús Guðmundsson (1998). Heildarmyndir af Íslandi. Náttúrufræðingurinn 68 (1) 17-26.

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .