Grunngerð landupplýsinga – Aðgerðaáætlun (29)

Hugtakið Spatial Data Infrastructure (SDI) hefur verið þýtt á íslensku sem grunngerð landupplýsinga. Það hefur einkum verið notað á þremur stigum: GSDI, RSDI og NSDI (Global, Regional og National). Umræða um grunngerðina fékk upphaflega mikla athygli á umhverfisráðstefnunni í Brasilíu árið 1992, þegar skilningur hafði aukist víða um lönd á því að til væru margvísleg gögn sem sýndu alla jörðina, en mikið vantaði hins vegar á að þau væru samstillt og samræmd í heildræn gagnasett til að nota við úrlausn fjölda verkefna, einkum á sviði umhverfismála. Umræðan jókst og fyrir hálfum öðrum áratug eða svo voru farnar að þróast í Evrópu hugmyndir á þessu sviði sem enduðu með framsetningu og síðan innleiðingu INSPIRE tilskipunarinnar (Infrastructure for Spatial Information in Europe), um landfræðilegar upplýsingar í Evrópusambandinu og á evrópska efnahagssvæðinu.

Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að komið verði á sams konar skipulagi í öllum löndum álfunnar sem hafi ákveðin grunngildi að leiðarljósi þar sem gert er ráð fyrir að sömu gögnum eða sömu tegund gagna sé ekki safnað á fleiri en einum stað og þeim viðhaldið þar sem það er hagkvæmast. Mögulegt verði að tengja saman landupplýsingar af mismunandi toga frá ólíkum aðilum án þess að hver og einn þurfi að lagfæra gögnin fyrir sig, hægt verði að samkeyra ólík gögn og nota saman. Þá skal aðgengi að landupplýsingum bætt með ýmsu móti til að auðveldara verði að finna hvað er til, sýna hvernig hægt sé að nota gögnin og gera grein fyrir því hvaða skilyrði eru fyrir notkun. Hverju landi er síðan gert skylt að koma upp samhæfðri lýsigagnaþjónustu og  niðurhalsþjónustu gagna á Netinu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ber ábyrgð á innleiðingu tilskipunarinnar á Íslandi, en ráðuneytið hefur síðan falið einni undirstofnana sinna, Landmælingum Íslands, að sjá um framkvæmd innleiðingarinnar hér á landi. Henni átti upphaflega að vera lokið árið 2019, en einstök lönd, þar á meðal Ísland hafa lengri frest, m.a. vegna seinkunar á lagasmíð um málið hérlendis, þ.e. seinka má ákveðnum verkefnum um einhver misseri. Eftir setningu laganna kom umhverfis- og auðlindaráðuneytið á fót svonefndri samræmingarnefnd um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar. Nefndinni voru gefin tvö ár til að skila aðgerðaáætlun sem gert var á réttum tíma í desember 2013. Í nefndinni sátu tíu fulltrúar ráðuneyta og stofnana auk fulltrúa samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA), sem hafa í tvo áratugi starfað að verkefnum sem byggja á þessari hugmyndafræði og unnið í ýmsum verkefnum sem hafa miðað að því að undirbúa jarðveginn fyrir þá þróun sem nú á sér stað hér á landi eftir setningu grunngerðarlaganna nr. 44/2011. Þessi vinna hefur meðal annars birst í nefndastarfi innan samtakanna á sviði landrænna staðlamála, lýsigagnamála og starfi orðanefndar.

Í tengslum við starf samræmingarnefndarinnar var gerð könnun á stöðu landupplýsingamála og tók starf nefndarinnar mið af ýmsu sem kom fram í könnuninni. Þá fór fram umræða um stöðu hvers hinna 34 undirflokka sem tilskipunin miðar við og birt mat á stöðu hvers og eins. Eitt af því sem skiptir umtalsverðu máli í innleiðingunni er að skipuleggja verður hvaða stofnun á að bera ábyrgð á gagnaframsetningu og gerð samræmdra gagnasetta í hverjum hinna 34 undirflokka, en það skal gert samkvæmt sérstökum tæknileiðbeiningum sem gerðar hafa verið fyrir hvern flokk (Technical Guidelines). Ein af hinum mikilvægu niðurstöðum könnunarinnar var að fram kom álit margra svarenda á því að mikilvægt væri að ákveðnir gagnaflokkar yrðu settir í forgang, þar sem gagnasett á þeim sviðum væru nauðsynleg forsenda þess að aðrar stofnanir gætu unnið sína vinnu eins og til væri ætlast. Í þessu sambandi voru til dæmis nefnd gagnasett um jarðamörk, stórstraumsfjörumörk og þjóðlendulínu. Það er auðvitað nauðsynlegt að verkefnum sem þessum verði forgangsraðað varðandi fjármagn og mannafla.

Til að miðla nánari fróðleik um INSPIRE og innleiðinguna á Íslandi hafa Landmælingar Íslands sett fram margvíslegt efni á vefsíðu sinni sem tengist grunngerðarverkefninu. Þar má meðal annars finna upplýsingar um lög og reglugerðir, skýrslur, tengla á helstu vefsíður og Landupplýsingagátt.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .