Heildstæð varðveislustefna (2)

Það er ekki til varðveislustefna fyrir landræn (landfræðileg) gögn á Íslandi og sú staða háir samræmingu í landrænum varðveislumálum á öllum sviðum. Safnageirinn og landupplýsingageirinn hafa haft lítil tengsl sín á milli og samþætting á námi þessara fagsviða á háskólastigi hefur ekki komist á. Innan íslenskra safna virðist takmörkuð reynsla í meðferð flestra tegunda landrænna gagna annarra en hefðbundinna korta og innan landupplýsingageirans virðist ríkja almennt áhugaleysi á lýsigagnaskráningu og grundvallargildum safnastarfs. Því þarf að móta stefnu og setja markmið sem tryggja gagnaöryggi og varðveislu á landsvísu um leið og veita þarf opnari aðgang að upplýsingum á Netinu. Opinber varðveislustefna á þessu sviði þarf að ná yfir öll landræn gögn, hvers eðlis sem þau eru og hvar sem þau eru geymd.

En hvað er átt við með heildstæðri varðveislustefnu? Stefnan þarf að vera á landsvísu og fela í sér markmið sem taka á hinum ólíku gerðum, formum og efnisflokkum landrænna gagna. Ráðuneyti mennta- og menningarmála ætti að leiða stefnumótun á þessu sviði sem yfirvald málaflokksins í landinu. Stefnan þarf að byggja á skýrum markmiðum og hlutverk einstakra stofnana, sveitarfélaga og annarra þarf að vera vel skilgreint í öllum gagnaflokkum. Í tengslum við stefnuna þarf að semja um og tryggja að gögn í eigu fyrirtækja á markaði geti með samningum ratað sömu leið til varðveislu og opinber gögn. Jafnframt þarf að huga að því að samkeppnisstaða fyrirtækja á markaði raskist ekki með óheftu aðgengi annarra að þeirra gögnum, þ.e. aðgangur annarra verði lokaður í tiltekinn tíma samkvæmt sérákvæðum. Verði þetta gert skapast möguleikar á meiri samvinnu, samnýtingu gagna og sameiginlegum lausnum.

Hins vegar hefur verið talið að íslensk söfn verði ekki tilbúin til að takast á við fyrirliggjandi verkefni  á þessu sviði fyrr en þau hafa ráðið til sín starfsfólk með landfræðilegan bakgrunn.

Til þess er nauðsynlegt að nemendur í tilteknum greinum á háskólastigi eigi kost á að fara í gegnum þverfaglegt nám þannig að þeir þekki bæði vel til safnamála og landupplýsingamála, sem er lykilatriði til að breyta núverandi ástandi. Með breyttri forgangsröðun verkefna á mörgum stofnunum sem geyma landræn gögn, á að vera hægt að skipuleggja og nýta vinnu starfsmanna með öðrum hætti en nú er gert og ráða með tímanum nýja sérmenntaða safnastarfsmenn með þekkingu á öllum gerðum landrænna gagna. Stofnanir munu ekki komast undan því að taka á varðveislumálum landræns efnis, því þeim ber skylda til þess samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn. Til að tryggja varðveisluöryggi og um leið aðgengi þarf að hugsa heildrænt um allar gerðir og form gagnanna á landsvísu.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .