Bókasöfn eru af margvíslegum gerðum. Við þekkjum almenningsbókasöfn, skólabókasöfn, rannsóknabókasöfn stofnana og þjóðbókasöfn eins og Landsbókasafn Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Almennt má segja að meðan söfnin þurftu fyrst og fremst að fást við prentaðar bækur og tímarit, skráningu þeirra, útlán og varðveislu eins og var lengi fram eftir síðustu öld og er víða enn, var hægt að byggja á þeirri formfestu sem þróast hafði lengi til dæmis í skráningarkerfum og í flokkunarkerfi eins og Dewey kerfinu.
Aðrar gerðir safna falla annað hvort undir flokk einhvers konar skjalasafna, minjasafna og annarra tegunda safna sem ekki verða rædd sérstaklega á þessum vettvangi, en hér er um að ræða meðal annars héraðsskjalasöfnin og Þjóðskjalasafnið, ljósmyndasöfn og kvikmyndasöfn, byggðasöfnin og Þjóðminjasafnið, og síðan listasöfn svo dæmi séu tekin. Skörun á hlutverki milli allra þessara gerða safna hefur í sjálfu sér ekki valdið deilum og samhljómur virðist hafa verið um ákveðna sýn og hlutverkaskiptingu. Starfsfólk hinna ólíku gerða safna kemur úr ýmsum faggreinum. Bókasafns- og upplýsingafræðingar hafa verið ráðandi í bókasöfnunum, sagnfræðingar hafa verið leiðandi í skjalasöfnunum og minjasöfnunum, listfræðingar í listasöfnunum o.s.frv.
Ein gerð safna, kortasöfn, hefur ekki verið talin upp hér á undan, en kort hafa venjulega verið meðhöndluð í bókasöfnum eða skjalasöfnum eftir því hvort þau eru prentuð og útgefin eða ekki, en óútgefin sérkóperuð kort eins og skipulagskort, kortafilmur og kortateikningar opinberra aðila teljast skjöl samkvæmt lögum. Útgefin og óútgefin kort falla til dæmis undir mismunandi lög þó tilgangur með gerð þeirra sé sá sami. Frá landfræðilegu sjónarmiði hefur verið vandamál að nútíma tækni hefur ekki verið nýtt nægjanlega til að veita vefaðgengi að safnkosti margra kortasafna. Kort í söfnum hafa hins vegar oftast verið meðhöndluð í stykkjatali eins og bækur og skjöl. Þau hafa verið skráð sem slík í skrár án staðsetningarhnita, sem veitir þá ekki möguleika á leitarleiðum gegnum stafrænar kortalausnir eins og í kortasjám á netinu. Nokkrar áhugaverðar lausnir eru þó til á því sviði sem sýna dæmi um möguleikana.
Hér á landi eru engin kortasöfn rekin sem sjálfstæðar stofnanir, en kortasöfn eru á nokkrum stöðum sem hluti safna, t.d. hjá Landmælingum Íslands, Orkustofnun, en á lykilsafninu á þessu sviði, kortadeild Landsbókasafns er skilgreind kortadeild. Þessi þrjú söfn veita ítarlegan aðgang að upplýsingum um safnkost sinn á netinu, eins og sjá má á vefsíðunni landkönnun.is sem vísar á einum stað á ýmsar upplýsingar um þessi söfn og safnkost þeirra.
Í pistlum á þessum vettvangi (sjá pistlalista á landakort.is), hefur verið fjallað nokkuð um kortasöfn, kortaskráningu og aðgengi kortasafna. Kveikjan að hugmyndum undirritaðs um margt á því sviði má rekja til umræðna á alþjóðlegum ráðstefnum og af lestri greina í erlendum fagtímaritum kringum síðustu aldamót um hlutverk og getu bókasafna í framtíðinni til að verða upplýsingamiðstöðvar fyrir kortaefni og önnur landfræðileg gögn. Leiðandi í þeirri umræðu voru sérfræðingar á sviði kortasafna eins og James Boxall, Michael Goodchild, Jan Smits o.fl.
Megininntak þessarar umræðu byggðist á því að margir höfðu áhyggjur af því að þekking og reynsla starfsmanna bókasafna sem varðveittu kort víða um heim væri í meginatriðum á öðrum sviðum en á sviði korta og annarra landfræðilegra gagna. Öll hin nýju form og fjölbreytileg stafræn gögn á sviði landupplýsinga sem komin voru á markaðinn væru það margbreytileg að starfsfólkið þyrfti að hafa þekkingarlegan bakgrunn, úr starfsreynslu eða námi á landfræðilegum efnisþáttum til að geta skráð og miðlað þekkingu og sinnt þörfum notenda. Þeir töldu brotalöm vera á þessu í kortasöfnum heimsins og ef ekki yrði að gert myndu bókasöfnin missa stöðu sína sem virkar upplýsingamiðstöðvar fyrir kortagögn. Þau yrðu áfram einhvers konar geymslu- og varðveislustaðir fyrir prentuð kort, en miðlunin myndi þá færast annað. Á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan þessi umræða fór virkilega af stað hefur út frá bókasöfnunum séð flest gengið eftir sem óttast var og sýnt sig að það var full ástæða til að hafa áhyggjur.
Notendur kortaefnis og annarra landfræðilegra upplýsinga líta ekki lengur á pappírskort sem lykilgögn með sama hætti og áður. Öll miðlun fer nú meira og minna fram gegnum netlausnir eins og kortasjár. Notendur vilja geta fengið val um mismunandi gerðir landfræðilegra gagna, hvort sem um er að ræða kort úr stafrænum gagnasettum, skannaðar myndir af hefðbundnum kortum, loftmyndir, gervitunglamyndir eða önnur form landfræðilegra gagna, enda orðnir vanir slíku meðal annars af þekktum kortasjám með hnattþekjandi kortagögnum á netinu.
Mörg kortasöfn víða um heim hafa hins vegar verið að bregðast við því að koma upplýsingum hins landfræðilega menningararfs hvers lands í aðgengilegar lausnir gegnum vefverkefni. Samtök eða hópur innan alþjóða kortagerðarsambandsins (ICA Commission on Cartographic Heritage into the Digital) heldur til dæmis árlega stórar ráðstefnur til að fjalla um verkefni sem unnin eru á þessu sviði um allan heim.
Hér á landi eru bókasöfn og skjalasöfn fyrst og fremst geymslustaðir fyrir kort, en ekki virkar upplýsingamiðstöðvar á því sviði. Það hlutverk hefur fest í sessi á liðnum árum. Það hefur ekki tekist að koma á samstarfi milli íslenska safnageirans og landupplýsingageirans þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá veru fyrir nokkrum árum („Frumkvæði í varðveislumálum“, pistill birtur á landakort.is (16), 16. febrúar 2017). Það virðist heldur ekki vera nægur áhugi innan Háskóla Íslands á að taka á menntunarmálum á þessu sviði, sem er auk opinberrar stefnumótunar ein lykilforsenda þess að hægt sé að bæta stöðuna.
Staðan þarf hins vegar engan veginn að vera með þessum hætti ef vilji væri til breytinga og ljósi punkturinn er að það eru til ýmsar góðar fyrirmyndir og hugmyndir þekktar, til að koma góðu lagi á þessi mál hér á landi. Til þess þarf hins vegar skilning og vilja þeirra sem ráða stofnunum og fjármögnun verkefna á þessu sviði. Ég nefni viljandi ekki kostnað, því þetta mál snýst í raun ekki á þessu stigi um mikið fjármagn, heldur fyrst og fremst að ná meiri skilvirkni og samhæfingu út úr kerfinu. Það þarf fyrst og fremst markvissa stefnu í varðveislu- og aðgengismálum landfræðilegra gagna og að fá einhverjar menntunarleiðir, t.d. námskeið á háskólastigi. Það er hvort tveggja á ábyrgð stofnana sem falla undir menntamálayfirvöld. Þeir pistlar sem hafa áður verið skrifaðir og birtir á þessari vefsíðu eru efni sem útskýrir stöðuna, þeir fjalla um fagleg grunnatriði á sviði upplýsingafræði landrænna gagna, sýna dæmi um verkefni og hugsanlegar fyrirmyndir og benda á mögulegar lausnir.
Þorvaldur Bragason