Opið aðgengi að landrænum gögnum byggir mjög á því að til verði vel skilgreind, skipulögð og samhæfð landræn gagnasett, sem birta má meðal annars í kortasjám og landgáttum af ýmsu tagi á Netinu. Á mörgum stofnunum hefur orðið til mikil reynsla við gerð, miðlun og birtingu landrænna gagna og lýsigagna fyrir þau. Þessi reynsla er hins vegar alltaf bundin við einstaklinga sem koma og fara. Það getur því haft alvarleg áhrif á framgang verkefna þegar reyndur starfsmaður hverfur frá vinnustað sínum. Stofnanir leggja misjafnlega mikla áherslu á varðveislumál á þessu sviði, en þar sem skilningur er til staðar má oft vinna flókin verkefni á stuttum tíma.
Gagnasett Orkustofnunar birtast í Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá (birtust áður í Gagnavefsjá og Náttúruvefsjá) eða er miðlað til annarra notenda vegna notkunar í landupplýsingakerfum þeirra. Upplýsingar um gögnin birtast einnig í kortasjánum í formi lýsigagna. Orkustofnun hefur byggt upp eigin lýsigagnagrunn fyrir landræn gögn á stofnuninni (gömul sem ný), en upplýsingar úr grunninum hafa meðal annars verið notaðar til að færa upplýsingar inn í lýsigagnavefina Landlýsingu og Landupplýsingagátt, sem hafa birt upplýsingar á landsvísu um landræn gagnasöfn frá stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum.
Lýsigögn sem birtast í fyrrnefndum kortasjám stofnunarinnar eru yfirlitslýsigögn byggð á 12 af 22 atriðum í kjarna ISO 19115 lýsigagnastaðalsins, en ítarlegri skráning annarra lýsigagna fer síðan fram í lýsigagnagrunninum. Grunnurinn hefur opnað leið til að halda góðri yfirsýn yfir stafrænar landupplýsingar. Verkefnið hefur verið kynnt öðrum stofnunum og væri mögulegt ef áhugi er fyrir hendi að þróa það lengra með það fyrir augum að uppsetning þess nýttist fleirum. Grunnurinn er forsenda samræmingar lýsigagna sem birt eru frá stofnuninni, bæði þeirra sem birtast í kortasjám Orkustofnunar, Landgrunnsvefsjá og Orkuvefsjá, og þeirra sem birtast utan stofnunarinnar eins og í Landlýsingu, Landupplýsingagátt og INSPIRE Geoportal.
Lýsigögn ættu að vera lykillinn að tengingu og samstarfi milli safnanna í landinu og þeirra sem vinna með landupplýsingar. Mikilvægt er að draga úr tvíverknaði í upplýsingagjöf og gagnaafhendingu með því að vinna allt ferlið frá skráningu korta til varðveislu og síðan birtingar á Netinu, sem eitt samhangandi verkefni. Margar stofnanir og sveitarfélög á Íslandi búa yfir kortagögnum af öllum formum og gerðum, sem orðið hafa til í starfseminni á löngum tíma. Aðgengi að gögnunum er oft takmarkað og jafnvel fáir sem vita um þau. Þessi gögn hafa mörg hver upphaflega verið kort á pappír eða filmum, jafnvel ekki formlega gefin út þrátt fyrir að vera hluti af stórum kortaflokkum og síðar verið skönnuð og vigruð til notkunar í landupplýsingakerfum. Ný landupplýsingagögn verða oft að útgefnum kortum, en dæmi eru um að stafrænum gögnum með ólíkan uppruna sé síðan blandað saman í stafrænum gagnaþekjum og notandinn veit ekki hvað er gert úr hverju. Sömu kortagögnin geta birst allt í senn sem stafrænar vektor gagnaþekjur, rastagögn eða efni á pappír og filmum. Eina leiðin til að fá alvöru yfirsýn er að eiga aðgengileg vönduð og skipuleg lýsigögn.
Þrátt fyrir nýja landræna lýsigagnagátt, Landupplýsingagátt, er mikilvægt frá sögulegu sjónarmiði að hafa áfram aðgang að heimildum úr frumkvöðlaverkefninu Landlýsingu og upplýsingar um þau gagnasett sem þar birtust, enda er Landlýsing ómetanleg heimild um þróun landupplýsingamála á fyrsta áratug aldarinnar. Landlýsingu hefur því miður verið lokað á Netinu en enn er hægt að skoða hluta upplýsinganna í verkefninu gegnum vefsafn.is og Wayback Machine. Hvorki Landlýsingu né Landupplýsingagátt hefur hins vegar verið ætlað að geyma gagnasöguna fyrir allar útgáfur (e. version) gagnasetta. Það leiðir hugann að umræðunni um mikilvægi þess að hver stofnun sem framleiðir og viðheldur landrænum gagnasettum með reglubundnum hætti þarf að eiga lýsigagnafærslur fyrir öll eldri gagnasett, alveg eins og í bókasöfnum eru til skrár fyrir hverja útgáfu tiltekinnar bókar. Þetta er því mikilvægara nú um stundir þegar fyrir liggur að samkvæmt INSPIRE tilskipuninni þarf að endurskipuleggja flest núverandi landræn gagnasett sem eru í umferð og dreifingu út frá nýjum tæknilýsingum INSPIRE sem þurfa að vera komnar í gagnið í síðasta lagi fyrir árið 2021. Það er óheppilegt að í INSPIRE tilskipuninni er ekki fjallað sérstaklega um varðveislu. Margir gera sér ekki grein fyrir þeirri staðreynd. Það þýðir að byggja þarf upp sérstaka umgjörð og verkferla til að tryggja varðveisluna, sem ekki er talin örugg þó ætla megi af núverandi umræðu meðal annars í tengslum við tilskipunina að hugsað sé fyrir þeim þætti sem öðrum.
Samþættingin í lýsigagnaskráningu stofnana snýst um að tryggja sögulegt samhengi, aðgengi og örugga varðveislu. Því verður að halda vakandi umræðunni um það sem á vantar, meðal annars um heildræna varðveislustefnu fyrir landfræðileg gögn, heildstæða kortaskrá á Netinu, nýja kortavefsjá og undanfara þeirra verkefna; nýjan lýsigagnagrunn sem heldur utan um yfirlitsupplýsingar um kortaflokka, fjarkönnunargögn og kortasjár. Öll eru þessi verkefni vel framkvæmanleg hér á landi eins og sýnt hefur verið fram á, en ábyrgðaraðilar, þ.e. mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem yfirvald Landsbókasafns, Þjóðskjalasafns og Háskóla Íslands þurfa að koma málum á hreyfingu. Til þess að koma þessum verkefnum í raunhæfan farveg þarf síðan að kalla eftir þekkingu úr ýmsum áttum.
Þorvaldur Bragason