Fjarkönnun sem þýðing á enska hugtakinu „Remote Sensing“ þ.e. einhvers konar könnun úr fjarlægð, kemur líklega fyrst fram hér á landi þegar gervitunglagögn fóru að berast til landsins í miklum mæli eftir að fyrsta Landsat gervitungli Bandaríkjamanna var skotið á loft sumarið 1972. Í kjölfar þess skipaði Rannsóknaráð ríkisins þrjár fjarkönnunarnefndir, hverja á eftir annarri sem allar skiluðu formlegum útgefnum skýrslum, fyrst árið 1976, með tillögum um æskilegt skipulag fjarkönnunarmála á Íslandi.
Hugtakið fjarkönnunargögn hefur náð fótfestu í málinu sem yfirheiti yfir gögn sem aflað hefur verið með einhvers konar fjarkönnunartækni, hvort sem um er að ræða gögn frá gervitunglum á sporbaug um jörðu eða gögn sem aflað er með skönnum eða myndavélum úr flugvélum eða einhvers konar flygildum. Tveir helstu flokkar fjarkönnunargagna eru venjulega taldir vera gervitunglagögn og loftmyndir.
Gervitunglagögn koma frá gervitunglum sem send eru á sporbaug um jörðu og eru gögn þaðan send til jarðstöðva víða um heim, allt eftir því um hvaða gervitungl er að ræða og hver er eigandi þeirra. Þekktustu gervitunglin frá fyrri tíð eru bandarísku LANDSAT og NOAA gervitunglin og frönsku SPOT gervitunglin, en fjöldi nýrra gervitungla hefur bæst við á síðustu árum. Myndgögnin sem komið hafa frá þeim eru mjög mismunandi en gögnin eru gjarnan sett fram sem myndir af ýmsu tagi. Slíkar myndir hafa venjulega verið nefndar gervitunglamyndir, en hugtakið gervihnöttur var og er einnig mikið notað í almennu máli og í fjölmiðlum og er þá samheiti við orðið gervitungl. Sama gildir um gervihnattamyndir. Líklega er hugtakið gervitunglagögn meira notað af þeim sem nota slík gögn í starfi sínu, en hugtakið gervihnattagögn. Í veðurfréttum heyrist stundum talað um tunglmyndir í sömu merkingu og gervitunglamyndir, sem er bæði þjál og áhugaverð stytting.
Það sem ruglar marga í orðanotkun á þessu sviði er að sams konar tæki og eru um borð í gervitunglunum, eru oft höfð um borð í flugvélum. Með því fást gögn sömu gerðar með mun meiri nákvæmni og upplausn, en þau sýna hins vegar afmarkaðri og minni svæði. Þau gögn geta auðvitað ekki kallast gervitunglagögn, en farið er í kring um hlutina með því að tala um skannagögn eða radargögn úr flugvélum.
Hugtakið „loftmynd“ er mjög rótgróið í málinu og kemur sennilega fyrst fyrir í umfjöllun um fyrstu ljósmyndir sem teknar voru úr flugvél yfir Íslandi, nánar tiltekið yfir Reykjavík árið 1919. Orðið á sér samsvörun í danska orðinu „luftfoto“ og þýska orðinu „luftbild“. En ensku hugtökin fyrir slíkar myndir eru „aerial photograph“ og „air photo“. Þegar litið er til þessarar gerðar mynda þarf einnig að huga að ákveðnum breytileika. Sú hefð hefur skapast að þegar rætt er um loftmyndir, er átt við myndir sem eru teknar á breiðar og langar filmur með sérstökum myndavélabúnaði vegna kortagerðar og skyldra verkefna. Þessar myndir eru venjulega teknar með svokölluðu yfirgripi (a.m.k. 60% skörun milli mynda í sömu fluglínu) þannig að skoða megi þær í þrívídd, jafnframt er oftast einnig ákveðin hliðarskörun milli samsíða tekinna myndaraða. Myndasöfn slíkra mynda hér á landi eru hjá Landmælingum Íslands, Loftmyndum ehf. og Samsýn. Aðrar ljósmyndir teknar úr flugvélum, öðrum flugförum eða flygildum eru oft einnig nefndar loftmyndir, en sumum finnst fara betur á því til aðgreiningar að kalla slíkar myndir loftljósmyndir. Stundum heyrist einnig talað um flugmyndir. Tilkoma og aukning á notkun „dróna“ fyrir ljósmyndatökur og hreyfimyndatökur af ýmsu tagi mun líklega kalla á umræðu um skýrari skilgreiningar fyrir orðanotkun á þessu sviði. Til að flækja mál enn frekar eru til dæmi um loftmyndir teknar á filmur með stórum myndavélum úr geimstöð Sovétmanna á sínum tíma. Slíkar myndir eru loftmyndir í fyrri skilningi.
Út frá hugmyndafræði kerfisbundins efnisorðalykils eru fjarkönnunargögn því víðara heiti en gervitunglagögn og loftmyndir, gervihnöttur samheiti við gervitungl og gervihnattagögn og tunglgögn samheiti við gervitunglagögn. Landræn efnisorð.
Þorvaldur Bragason