Fyrirtækið Iðnmennt ses, sem meðal annars rekur bókaútgáfu undir merkjum IÐNÚ, hefur keypt útgáfugrunna sem notaðir hafa verið við útgáfu helstu ferðakorta frá Landmælingum Íslands. Grunnarnir voru boðnir út og var Iðnmennt með hæsta tilboðið. Um er að ræða Vegaatlas 1:200 000, Ferðakort 1:250 000, Ferðakort 1:500 000, Ferðakortabók 1:500 000 og Ferðakort 1:750 000. Iðnmennt hefur jafnframt keypt eldri kortalager LMÍ. Eins og fram hefur komið tóku ný lög um landmælingar og kortagerð gildi 1. janúar 2007, en þar kemur meðal annars fram að Landmælingar Íslands skuli hætta sölu prentaðra korta. Stofnunin hefur með þessu hætt gerð, útgáfu og sölu ferðakorta sem hefur verið stór hluti starfseminnar um áratuga skeið.