INSPIRE landgáttin (30)

Árið 2011 var opnaður á Netinu nýr landrænn lýsigagnavefur, INSPIRE Geoportal. Markmiðið var að fylgja eftir tilskipun Evrópusambandsins um INSPIRE (Infrastructure for Spatial Information in Europe). Landræn lýsigögn eru einn grunnþátturinn í innleiðingu tilskipunarinnar, þar sem hverju einstöku landi er gert skylt að koma upp lýsigagnagátt til að auka skráningu og bæta aðgengi að upplýsingum um landræn gögn í hverju landi. Byggt er á sérstöku lýsigagnasniði (INSPIRE Metadata Implementing Rules: Technical Guidelines based on EN ISO 19115 and EN ISO 19119) þar sem tíundað er hvaða atriði skuli skráð um landræn gagnasett. Þar er vísað í staðlana sem hver þáttur er tekinn úr, settar fram skilgreiningar og sýnd dæmi. Þetta lýsigagnasnið sem fjallar í raun um valin atriði úr nokkrum stöðlum hefur á margan hátt tekið yfir kjarna upplýsinga fyrir skráningu landrænna gagnasetta í Evrópu til birtingar í samræmdum lausnum á netinu.

INSPIRE Geoportal verkefnið á að veita yfirsýn sem gengur þvert á lönd og efnisflokka gagna þannig að auðvelt verði að finna upplýsingar um landræn gagnasett þvert á landamæri. Á forsíðu vefgáttarinnar má sjá nánari skiptingu, meðal annars innsláttarham, skoðunarham fyrir samræmi gagnaskráa við staðla og síðan leitarham. Leitarhamurinn býður uppá leit eftir korti, lista yfir landsvæði eða eftir lykilorðum, en hægt er að gera flokkaðar leitir t.d. innan gagnasetta, gagnaflokka, vefþjónusta og niðurhalsþjónusta. Þegar slegin eru inn lykilorð birtast í framhaldinu listar með leitarniðurstöðum þar sem fánar landa eru fremst í línu. Með því að smella á línu birtist annars vegar kort með afmörkun landsvæðis og hins vegar stöðluð lýsigagnafærsla. Yfirleitt birtast í færslunni vísanir með tenglum í vefþjónustur, kortasjár eða annað sem gefur upplýsingar um gagnasettin sjálf.

Allar færslur í Landupplýsingagátt birtast nú í INSPIRE Geoportal, en þær speglast inn í vefgáttina einu sinni á sólarhring. Á þennan hátt getur verið mjög gagnlegt að skoða gögn á ákveðnum sviðum frá ólíkum löndum, en með því fæst yfirsýn yfir það sem til er af gögnum á tilteknum sviðum í löndum Evrópusambandsins og á evrópska efnahagssvæðinu. Með því hefur náðst að uppfylla eitt af lykilatriðum INSPIRE tilskipunarinnar og er ánægjulegt til þess að vita að íslensk gögn eru þar á meðal.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...