Íslandsmyndir byggðar á Landsat TM gögnum (73)

Reynslan af gerð þriggja fyrstu heildarmyndanna af Íslandi eftir Landsat gervitunglagögnum sem lauk 1993 leiddi af sér hugmyndir um frekari gagnavinnslu og nýjar heildarmyndir af landinu. Tekin var ákvörðun um að vinna tvær nýjar heildarmyndir, litmynd og innrauða litmynd, sem myndu nýta fulla upplausn Landsat TM gagnanna (30×30 metrar) og vera gerðar frá grunni með hæstu mögulegu not í huga.

Landmælingar Íslands greiddu kostnaðinn af verkefninu en styrkur fékkst frá Rannís til að greiða hluta kostnaðar. Bætt var við tækjabúnaðinn og keyptar fjórar Landsat TM myndir til viðbótar þeim sem til voru frá gerð eldri heildarmynda og því var í nýja verkefninu byggt á 16 TM myndum frá tímabilinu 1986-1994. Í myndvinnslunni var hver „hrá“ mynd rétt upp miðað við fyrirliggjandi landmælingagögn og kort í mælikvarða 1:50 000, síðan voru rákir hreinsaðar úr myndunum en slíkt var til vandræða við jöklana, en að lokum voru myndirnar birtujafnaðar þannig að mögulegt væri að klippa þær saman og fá svipaða litaáferð. Allar útgáfur voru geymdar og því voru fjórar útgáfur af hverri mynd varðveittar, alls 64 stafrænar landshlutamyndir, hver um sig í a.m.k. fjórum böndum. Út frá þeim voru heildarmyndirnar síðan klipptar saman og réttar upp. Útbúið var sérstakt kort sem sýnir hvaða hlutar Íslandsmyndanna voru gerðir úr hverri hinna upphaflegu mynda. Myndvinnsluna vann Þórir Már Einarsson verkfræðingur, starfsmaður Landmælinga Íslands á þeim tíma og var samsetningunni lokið árið 1995.

Innrauða myndin var gerð úr böndum 2, 3, og 4, en litmyndin úr böndum 1, 2 og 3 og var stærð hvorrar myndar 705 Mb. Búnir voru til maskar fyrir sjóinn kringum landið til að gera myndina áferðarfallegri sem yfirlitsmynd. Notkun myndanna varð með ýmsum hætti en almennt séð minni en fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir. Mest var notagildið fyrir verkefni á vegum Landgræðslunnar og RALA, en einnig fyrir ýmis rannsóknaverkefni þar sem nú mátti sjá allt landið í einu lagi með jafnri áferð og meira samræmi í ýmsum efnisatriðum. Þá varð önnur Íslandsmyndin þekkt af því að vera bakgrunnsmynd í veðurfréttum á annarri af stóru sjónvarpsstöðvunum á þeim tíma.

Með Íslandsmyndunum sköpuðust ýmis tækifæri fyrir marga og nýjar hugmyndir fæddust fyrir fleiri verkefni. Einkum var litið til hærri upplausnar gagna Landsat-7 ETM+ (15×15 metra myndeiningar), en markaðssetning slíkra gagna tafðist um sex ár fram til 1999 eftir að Landsat-6 hrapaði „í sjóinn“  í geimskoti í október 1993. Í millitíðinni komu ný Spot gögn á markaðinn með mun meiri upplausn en Landsat TM og eftir það var ekki hugsað meira um uppbyggingu í kringum nýjar heildarmyndir byggðar á Landsat ETM+ gögnum.

Íslandsmyndirnar eru merkilegar heimildir um stöðu landsins á ákveðnu tímabili og það er mjög áhugavert að skoða þær í heildarsamhengi út frá ýmsu sem á þeim sést. Þegar frá líður leita hins vegar á hugann spurningar um upprunalegu myndgögnin sem heildarmyndirnar eru klipptar saman úr. Út frá flatarmáli landsins er ljóst að töluverður meirihluti Landsat TM gagnanna hefur ekki nýst í samklipptu Íslandsmyndunum og víða er umtalsverð skörun. Þar er því til mikið efni sem nýta má til samanburðarrannsókna. Þetta efni mun ekki vera hægt að nýta nú þar sem tölva, fjölmörg mismunandi drif fyrir ólíka segulmiðla og hugbúnaður er aflagður hjá Landmælingum. Það eru hins vegar örugglega leiðir til að afrita segulmiðlana sem myndefnið er geymt á þó að Landmælingar eigi ekki slíkan búnað. Gögnin eru til en á þessu stigi óopnanleg á stofnuninni og finna þarf leiðir til afritunar þeirra annars staðar þannig að myndefnið nýtist.

Þorvaldur Bragason

Nánari upplýsingar: Þorvaldur Bragason og Magnús Guðmundsson (1998). Heildarmyndir af Íslandi. Náttúrufræðingurinn 68 (1) 17-26.

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .