Íslensk kortaöpp (116)

Þó að á þessum vettvangi hafi verið fjallað mikið um margvísleg landfræðileg gagnamálefni og birtar upplýsingar um kortaverkefni sem aðgengileg hafa verið á netinu(einkum um kortagögn, fjarkönnunargögn og aðra landfræðilega vefi), er ástæða til að ræða einnig um smáforrit eða öpp með landakortum fyrir spjaldtölvur og farsíma sem eru orðin nokkuð umfangsmikill vöruflokkur. Framboð á slíku efni erlendis frá er gríðarlegt og þarf ekki annað en að fara inn á sölusíður fyrir öpp til að týnast í slíku efni frá öllum heimshornum.

Hér á landi eru nokkur ár síðan fyrstu öppin með íslenskum kortum komu á markað. Hér eins og annars staðar er oft helsti hvatinn að gerð þeirra einhvers konar þörf notenda fyrir upplýsingar með staðsetningarmöguleikum, t.d. fyrir ferðir eða annað sem hefur notagildi fyrir fólk sem hyggur á ferðalög. Þessi öpp eru mörg niðurhlaðanleg án gjaldtöku sem stjórnast af því að þau eru hugsuð sem þjónusta opinberra stofnana eða opinberra eða hálfopinberra fyrirtækja við vegfarendur og ferðalanga. Í þessum flokki eru öpp eins og strætó öppin, veðuröpp, Færðarappið frá Vegagerðinni, Hreyfilsappið og Já.is appið með tengingum við símaskrána.  Í hinum flokknum eru öpp gefin út á vegum einkafyrirtækja og einstaklinga eins og appið sem fylgir með og birtir upplýsingar úr Vegahandbókinni, Iceland Travel Companion fyrir skipulagningu ferða um Ísland og Wapp appið sem er hugsað fyrir göngufólk og sýnir meðal annars gönguleiðir og upplýsingar um þær.

Hraðinn á þessum markaði getur oft verið mikill og ekki alltaf auðvelt að fylgjast með þegar ný öpp koma á markaðinn. Á landakort.is hefur um tíma verið kafli á forsíðunni sem vísar á upplýsingar um íslensk kortaöpp. Reynt hefur verið að fylgjast með og setja þar tengla í upplýsingar á vefsíðum þar sem finna má nánari skýringar með hverju appi og leiðbeiningar um það hvar megi hlaða þeim niður. Gagnlegt væri að fá upplýsingar  um nýtt efni á þessu sviði þannig að vísa mætti á það sem fyrst eftir útgáfu, á þann hátt sem áður er nefnt. Þar sem margt getur gerst á stuttum tíma er vísast að fljótlega eftir birtingu þessa pistils verði tilefni til uppfærslu hans með vísbendingum um ný og spennandi íslensk kortaöpp.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...