Jarðkönnunarkort (35)

Íslenskar stofnanir hafa stundum þurft að fara út fyrir hefðbundið verksvið sitt til að vinna verkefni sem eru jafnvel ekki beinlínis hluti af þeirra lagalega hlutverki. Ástæðurnar eru oft þær að ekki eru til nauðsynleg gögn frá öðrum með nægilegum gæðum til að mögulegt sé að vinna ákveðin samfélagsleg verkefni sem eru á ábyrgð viðkomandi stofnana. Gerð jarðfræðikorta á Orkustofnun er eitt dæmi um slíkt. Kortin voru í mörgum tilfellum unnin sem hluti af rannsóknaverkefnum og birt sem fylgigögn með útgefnum skýrslum. Með þessum kortum fór síðan fram samræming í framsetningu jarðfræðilegra fyrirbæra á kortum í tiltölulega stórum mælikvarða og hér var lagður grunnur að útgáfu á sértækum kortaflokkum samkvæmt samræmdum blaðskiptingum í nokkrum mælikvörðum.

Orkustofnun vann frá upphafsárum stofnunarinnar að kortagerð víða um land vegna nýtingar á vatnsafli og jarðhita. Einkum voru unnin kort í mælikvörðum frá 1:20 000 – 1:100 000. Frá því um 1980 var farið að vinna að samræmingu og þróun kortastaðla, en fram að því var unnið í ýmsum mælikvörðum án þeirrar samræmingar sem fylgdi í kjölfarið. Árið 1982 hóf Vatnsorkudeild OS samræmda jarðfræðikortlagningu í mælikvarða 1:50 000, en þar var um að ræða berggrunnskort, jarðgrunnskort og vatnafarskort. Frá árinu 1988 var farið að gefa út kort í samræmdri kortblaðaskiptingu við staðfræðikort Landmælinga Íslands í mælikvarða 1:25 000 og jafnframt hætt að nota kortblaðaskiptingu Orkustofnunar í mælikvarða 1:20 000. Í mars 1992 tók Orkustofnun svo í notkun ArcInfo landupplýsingahugbúnað og voru fyrstu kortin sem byggðu alfarið á stafrænni vinnslu gerð það ár. Þau voru útprentuð á tölvuteiknara í takmörkuðu upplagi, en árið 1995 voru fyrstu kortin sem unnin voru með þessari aðferð prentuð og gefin út. Eftir það var eldri kortavinnsla lögð af og eingöngu unnið í tölvukortagerð. Svonefnd Jarðkönnunarkort í mælikvarða 1:25 000 voru á sínum tíma unnin á Jarðkönnunardeild Vatnsorkudeildar OS, en önnur kort í þessum flokki voru ýmist unnin á Jarðhitadeild eða Vatnsorkudeild OS.

Jarðfræði- og vatnafarskort Orkustofnunar hafa í seinni tíð verið nefnd Jarðkönnunarkort til aðgreiningar frá Orkugrunnkortum, sem eru fyrst og fremst vandaðir hæðar- og vatnafarsgrunnar í formlegum kortaröðum. Jarðkönnunarkortin eru af ótal gerðum, einkum jarðfræðikort, berggrunnskort, jarðgrunnskort, jarðhitakort og vatnafarskort. Í kortaflokknum eru yfir 180 titlar gerðir á nokkurra  áratuga tímabili fram til ársins 2003, þegar stjórnsýsluleg aðgreining varð milli Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna – ÍSOR. Kortin eru í mælikvörðum allt frá 1:5000 upp í 1:2 000 000. Rúmur þriðjungur þeirra er formlega útgefinn, þ.e. kort prentuð í prentsmiðju, en meirihlutinn er hins vegar útprentaður á tölvuprentara eða ljósritaður.

Þau kort sem flokkuð hafa verið í yfirflokkinn Jarðkönnunarkort, eru í raun margir ólíkir kortaflokkar. Kort í helstu mælikvörðunum skiptast því margvíslega eftir efni, stærð og gerð og eru sett fram samkvæmt mismunandi kortblaðaskiptingum. Gerð hefur verið skrá yfir alla flokka Jarðkönnunarkorta og Orkugrunnkorta á OS til að draga enn skýrar fram einkenni og sérstöðu þeirra. Verulegur hluti efnisins sem kortin sýna er nú til á stafrænu formi í landupplýsingakerfum og gagnagrunnum hjá ÍSOR og Orkustofnun. Þar með er orðinn til ómetanlegur efniviður kortagagna í tiltölulega stórum mælikvarða, sem mögulegt er að nota sem grunn að ýmsum útgáfum jarðfræðigagnagrunna hér á landi í framtíðinni.

Orkustofnun hefur lagt áherslu á að veita aðgang á netinu að upplýsingum um kort sem gerð hafa verið á vegum stofnunarinnar (eða verið unnin í samstarfi við aðra). Þegar skráningu Orkugrunnkorta lauk var hafist handa við að fá yfirsýn yfir jarðfræði- og vatnafarskort Orkustofnunar, sem á þeim tíma var farið að nefna einu nafni Jarðkönnunarkort til aðgreiningar. Flokkurinn er í raun og veru mjög margbreytilegur og innbyrðis ósamstæður, en mikilvægt var talið að ná utan um heildina og mögulegt væri síðar að endurskoða innbyrðis skiptingu frekar. Til voru góðar skrár sem nýttust við skráningu Jarðkönnunarkortanna og var byggt á efni þeirra (Freysteinn Sigurðsson o.fl. 1996,  Árni Hjartarson 2003, Guðrún S. Jónsdóttir 2007), en síðan bætt við nokkrum nýjum skráningarþáttum. Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), þar sem vinnsla og viðhald kortanna fer nú fram, voru aðskildar um mitt ár 2003 og var því ákveðið að í kortaflokkinn féllu kort gerð fram að þeim tímapunkti.

Stærsta vandamálið við þau kort sem tilheyra Jarðkönnunarkortum er að þau eru bæði útgefin og óútgefin, sem fellir þau undir aðgreind lög um skráningu og varðveislu. Landsbókasafn Íslands á að fá útgefin kort í skylduskilum til safnsins og þar eru að öllu jöfnu aðeins útgefin kort skráð og varðveitt. Önnur kort eru í lagalegum skilningi skjöl, þ.m.t. útprentanir, filmur og ljósrit, sem eiga að falla undir lög um Þjóðskjalasafn. Safnið skráir hins vegar að öllu jöfnu ekki kort, heldur fer fram á að kortasöfnum sé skilað fullskráðum til safnsins.

Jarðkönnunarkort OS eru alls 184 titlar unnir á tímabilinu 1972-2002, þar af eru 173 eiginleg kort, annað eru jarðlagasnið sem talin eru til þessa flokks. Kortin eru af ýmsum gerðum, í ólíkum mælikvörðum og sett fram í mismunandi blaðskiptingum. Flest eru kortin í þremur mælikvarðaflokkum: 1:50 000 (þar sem þau eru flest eða 62 talsins), 1: 25 000 og 1:20 000, en annars eru mælikvarðarnir sem notaðir eru nær tveimur tugum.

Mest er um hefðbundin jarðfræðikort í áðurnefndum þremur mælikvarðaflokkum, einkum í mælikvarða 1:25 000 og berggrunnskort, jarðgrunnskort, jarðhitakort og vatnafarskort. Sem dæmi um aðra efnisflokka má nefna: þyngdarkort, segulkort, sprungukort, örnefnakort, mannvirkjakort, náttúruminjakort, sýnatökukort, áfokskort, grunnvatnskort og jöklakort.

Þó 65% hinna eiginlegu kortatitla (112 af 173) séu í mælikvörðum 1: 25 000 og 1:50 000 er ekki um að ræða staðlaðar blaðskiptingar, samræmdar við önnur íslensk kort í þeim mælikvörðum nema í fjórðungi þeirra tilfella (28).

Af kortunum 173 er um þriðjungur (59) prentuð og útgefin. Farið var yfir safnkost Landsbókasafns Íslands í framhaldi af skráningunni og séð til þess að safnið ætti til eintök af öllum þeim útgefnu kortum, sem hafa nú verið skráð miðlægt. Skráning allra annarra korta í flokknum (útprentanir, filmur og ljósrit) er hins vegar á ábyrgð OS. Í framhaldi af skráningunni og skönnuninni var eintökum af öllum kortunum pakkað í viðurkenndar umbúðir og þeim skilað til varðveislu hjá Þjóðskjalasafni Íslands ásamt fullbúnum skrám. Öll kortin voru skönnuð á tiff formi og jafnframt færð yfir á jpg. Myndir af skönnuðum kortum voru síðan birtar í Orkuvefsjá ásamt skrám um þau, þar sem kortin eru nú leitarbær eftir kortrömmum. Nokkrir efnisþættir úr kortaskrá fyrir Orkugrunnkort og Jarðkönnunarkort voru árið 2013 jafnframt gerðir leitarbærir á vefsíðu stofnunarinnar.

Ítarefni:  Freysteinn Sigurðsson o.fl. (1996): Jarðfræðikortlagning á Orkustofnun [Greinargerð OS]

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...