Kennsluefni um kortasjár (53)

Kortasjár eru afar margvíslegar að gerð og taka hugbúnaður, tækni og viðmót stöðugum breytingum. Framsetning kortagagna fer í auknum mæli fram á Netinu og hefur sú þróun verið hraðvaxandi á liðnum árum. Kennsluefni fyrir börn og unglinga hefur hins vegar vantað á þessu sviði, en mikilvægt er að bæta kortalæsi og auka skilning á gagnsemi af notkun korta og tengdra landupplýsingagagna á netinu. Það er nánast sama hvert við lítum, ef við erum á faraldsfæti þurfum að gera okkur grein fyrir því hvar við erum stödd, hvar þeir staðir eru sem við ætlum á og hvernig við komust á milli staða. Aðgengilegustu leiðirnar til þess nú á tímum eru í gegnum vefsíður, kortasjár og öpp í farsímum.

Börn og unglingar eru mjög fljót að öðlast tölvufærni og þurfa ekki alltaf hjálp fullorðinna til þess. Þau eru fljót að nálgast upplýsingar eins og um strætisvagnaferðir, finna út t.d. á Google Maps hvar þau búa og finna staðsetningar á götukortum eins og eru á Já.is svo eitthvað sé nefnt.

Meðal nýjustu viðbótanna við þessa kortanotkun á Netinu er farsímaleikurinn Pokémon Go. Hvað sem segja má um þann leik og þau margvíslegu áhrif sem hann hefur haft á notendur, bæði slæm og góð, þá er það ljóst að kortalæsi hefur tekið gríðarlegum breytingum við leikinn. Börn og unglingar sem voru ekkert endilega mikið að velta fyrir sér heitum á götum og stöðum þar sem þau eru stödd hverju sinni, eru nú orðnir sérfræðingar að tengja saman staði og upplýsingar sem birtast ofan á stafrænu korti. Slíkt var e.t.v. óvænt en gefur án efa mikil tækifæri á næstunni til að þjálfa ungmenni í notkun kortagagna almennt.

En hvernig gengur þeim að nýta sér þær upplýsingar sem eru aðgengilegar í hinum fjölbreyttu kortasjám sem nú eru opnar á netinu? Þar kemur meðal annars að skólunum og landafræðikennslu í þeim og því vakna spurningar um stöðuna þar á þessu sviði?

Það er líklegt að í einhverjum skólum séu áhugasamir kennarar sem hafa tekið upp fræðslu á þessu sviði, þó það sé kannski ekki á margra vitorði. Það kennsluefni sem sumir skólar hafa verið að reyna að nota á liðnum árum, t.d. í námsefni um Norðurlönd byggt á verkefni tengt efni Náttúruvefsjár, hefur ekki verið endurskoðað og er ekki hægt að nota og vinna, þar sem kortasjáin sem verkefnið snýst um (Náttúruvefsjá) var lokað á netinu fyrir mörgum árum.

En hvað þarf að gera? Eins og sést á forsíðu landakort.is eru til á Íslandi a.m.k. um eitt hundrað opnar kortasjár. Meirihluti þeirra er rekinn á vegum sveitarfélaga en einnig stór hluti á vegum opinberra stofnana og fyrirtækja. Fyrir utan þessar íslensku kortasjár er fjöldi erlendra hnattrænna kortaverkefna á netinu sem einnig er verið að nota í íslensku umhverfi. Þarna eru notaðar hinar fjölbreytilegustu hugbúnaðarlausnir og veftól, sem margir þurfa nokkurn tíma til að læra á.

Það vantar hins vegar kennslugögn til að nýta efni allra þessara margvíslegu kortasjáa. Ein leið til að bæta þar úr er að útbúa stuttar kennslumyndir fyrir mismunandi tegundir og gerðir, svipað og þekkt er til dæmis á YouTube. Það mætti hugsa sér að gera slíkt kennsluefni með dæmi um notkun á hugbúnaði frá stærstu þjónustuaðilum á þessu sviði á Íslandi. Til að framkvæma verkefnið þyrfti að leita samstarfs við þessi fyrirtæki og aðra viðskiptavini þeirra sem nýta hugbúnaðinn, og velja kortasjár sem gætu verið sérvalin dæmi um góðar lausnir og fjölbreytta notkunarmöguleika. Út frá þessum stuttu kennslumyndum mætti síðan útbúa verkefni um leit og notkun efnis úr öðrum kortasjám sem nýta sama hugbúnað og sýnidæmi, en fela í sér annað viðfangsefni og/eða landsvæði. Þar sem flest sveitarfélög hafa látið setja upp kortasjár ætti að vera nægur efniviður í áhugaverð verkefni í nærumhverfi flestra skóla landsins. Sama mætti síðan gera fyrir nokkur helstu símaöppin, að leita samstarfs við hugbúnaðarfyrirtæki á því sviði og fyrirtæki sem hafa komið fram með viðmót fyrir síma eins og Já.is og Strætó.

Það er hlutverk fræðsluyfirvalda að styðja slíka uppbyggingu og koma verkefnum og öðru efni á þessu sviði inn í skólana. Meira að segja er til „Þróunarsjóður námsgagna“ undir hatti Rannís, þar sem leita má eftir fjárhagslegum stuðningi. Það er jafnframt til faglegur farvegur innan samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA) sem mætti nýta til að samstilla aðila með áðurnefnd markmið í huga, enda er innan samtakanna starfandi fagfólk og sérfræðingar sem þekkir hvað best til málaflokksins.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .