Kerfisbundin söfnun gervitunglagagna (66)

Þær gervitunglamyndir af Íslandi sem teknar hafa verið frá upphafi eru líklega orðnar einhverjir tugir þúsunda á hálfum fimmta áratug. Flestar þessara mynda hafa í sjálfu sér lítið sem ekkert gildi, þar sem landið er oftast hulið skýjum, þakið snjó eða myndir ónothæfar af öðrum orsökum. Skýjalausar myndir, teknar að sumri geta hins vegar gefið mjög mikilsverðar upplýsingar og í bestu tilfellum verið ómetanlegar. Það er hins vegar miður að við getum ekki vitað nú hvaða myndefni muni skipta mestu máli fyrir okkur að eiga til samanburðar í framtíðinni.

Það má hins vegar geta sér til um hvað líklegt sé að skipti mestu máli til framtíðar vegna samanburðar ólíkra gagna aftur í tímann. Að sjálfsögðu er efst á lista myndefni þar sem landið sést skýjalaust yfir hásumarið. Gervitunglin eru með ólíkum búnaði, mismunandi upplausn í gögnum, mismunandi umferðatíðni, sum stillanleg fyrir örari myndatöku og útbúin myndnemum sem eru næmir á ólíkum bylgjulengdum rafsegulrófsins svo eitthvað sé nefnt. Þessi mismunur gefur mikla fjölbreytni sem er bæði kostur og galli eftir því hvernig á málin er litið frá sjónarhóli varðveislu og opins aðgengis.

Hingað til hefur verið aflað nokkurs magns gervitunglagagna fyrir íslenskar stofnanir. Gögnin hafa verið notuð fyrir ýmis ólík verkefni og ekkert endilega miðlað mikið á milli stofnananna. Gögnin eru ýmist geymd á tölvukerfum eða afrit þeirra til á segulmiðlum á ýmsu formi í geymslum og hillum í kringum þá starfsmenn sem unnið hafa með gögnin. Varðveislan er því oft ekki við kjöraðstæður og aðgengileg útgefin skrá á þessu sviði er aðeins til frá Landmælingum Íslands (Þórunn E. Sighvats, 2011). Í sumum tilfellum, einkum þar sem um elstu gervitunglagögnin er að ræða, eru gögnin sem keypt voru í upphafi á mjög margbreytilegum spólum, kassettum, geisladiskum og öðrum segulmiðlum sem ekki er lengur hægt að lesa í gagnadrifum og tölvusamstæðum stofnananna. Þau eru því ekki nothæf fyrir samfélagið þó þau séu í rauninni „til í hillunni“. Ef þeim væri skilað til varðveislu í safn eins og Þjóðskjalasafn væru þau jafn ónothæf fyrir þá sem á þurfa að halda, ending segulmiðlanna er takmörkuð og því væri varðveisla gagnanna með þessum hætti í rauninni ekki til neins. Það eina sem hægt er að gera felst í því að a.m.k. einn aðili eða stofnun í landinu eigi möguleika á að keyra gögn af mismunandi segulmiðlum inn á tölvukerfi þar sem auðvelt væri að afrita gögnin með reglubundnum hætti og miðla þeim síðan þaðan á formi sem hægt er að nota í mismunandi myndvinnslu- eða landupplýsingakerfum ólíkra notenda.

Þá kemur að spurningunni um það hvernig eigi að vera mögulegt að hafa yfirsýn yfir „góð“ gervitunglagögn af landinu. Besta leiðin til þess er að skilgreina almenna þætti fyrir leit að myndgögnum í þeim leitargrunnum fyrir gervitunglagögn sem nú er hægt að fá upplýsingar um á netinu. Með því að skoða slíkar skrár væri hægt að velja hvers konar myndgögn, frá hvaða tíma og hvaða gervitunglum ætti að safna hér á landi.

Ef einungis er hugsað um að eiga skýjalausar eða skýjalitlar myndir (innan við 10% skýjahula), myndataka að sumri og eina þekju af landinu frá hverju gervitungli eða gervitunglum sömu gerðar,  yrðu myndirnar ekkert óyfirstíganlega margar. Sumar þeirra hafa þegar verið keyptar og eru til á stofnunum og einhverjar þeirra elstu fást jafnvel ókeypis eða fyrir lítið fé frá söluaðilum. Mörg þessara gervitungla eru hins vegar í eigu fyrirtækja sem lúta lögmálum á markaði og þau geta hent gögnum þegar þeim hentar til dæmis ef það er of dýrt að geyma þau. Einnig er vert að hafa áhyggjur af því að segulbönd eyðileggjast með tímanum og þekkt dæmi eru um að það hafi einmitt komið fyrir í stórum stíl í slíkum söfnum.

Það er því ekki seinna vænna að gera skrá um „bestu“ gervitunglagögn af Íslandi í erlendum gagnabönkum. Frekar er líklegt að í slíkum lista yrðu innan við 1000 myndir og hugsanlega mun færri. Tekið skal fram að hér er ekki verið að telja með veðurtunglamyndir sem sýna stærri svæði í minni upplausn. Með því að gera aðra skrá yfir þær myndir sem eru til á íslenskum stofnunum lægi fyrir hvað þarf ekki að fá eða kaupa. Kostnaður af slíkri upplýsingaöflun þarf ekki að vera mjög mikill, en út frá skilgreindri þörf samkvæmt mati þeirra sem best til þekkja mætti meta kostnaðinn af gagnakaupum. Áætlað magn mynda sem þyrfti til hleypur því líklega á nokkrum hundruðum. Hin hliðin á þessu máli, þ.e hvernig á að varðveita segulmiðla, afrit þeirra og veita aðgang að upplýsingum um gögnin, er efni fyrir aðra pistla.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...