Kortagerð AMS á Íslandi (86)

Ritaðar heimildir um kortagerð og útgáfu bandarísku herkortastofnunarinnar Army Map Service (AMS) af Íslandi eftir seinni heimsstyrjöldina hafa ekki fundist svo vitað sé. Það eina sem vitað er um á prenti tengt þeirri kortagerð birtist í bók Ágústar Böðvarssonar um landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi (1996) og er þar fjallað að stærstum hluta um landmælingaþáttinn og loftmyndir sem teknar voru hér á landi og voru lagðar til grundvallar í kortateiknuninni. Þar koma jafnframt fram upplýsingar um fyrstu kortin í endurskoðaðri útgáfu umræddra korta af suðvesturhluta landsins (C761), en þau voru unnin í samstarfi Landmælinga Íslands og annarrar bandarískrar stofnunar Defence Mapping Agency (DMA). Sá efniviður sem til varð í þessum verkefnum, þ.á.m. ýmsar kortafilmur, hefur verið mjög mikið notaður í ótal verkefnum hér á landi um áratuga skeið.

Bandaríska herkortastofnunin AMS gaf út kort af Íslandi í nokkrum mælikvörðum á árunum kringum 1950.  Í upphafi var kortaflokkurinn C762 gefinn út í Bandaríkjunum á árabilinu 1948-1950 og taldi hann 300 kort í mælikvarða 1:50 000. Síðar komu kort í mælikvörðum 1:250 000, 1:500 000 og 1:1 000 000.

Atlasblöð dönsku kortagerðarmannanna í mælikvarða 1:100 000, mælingar þeirra og annar efniviður eins og örnefnaskrár gegndu veigamiklu hlutverki í yfirfærslu upplýsinga inn á þessi 300 kortblöð AMS í mælikvarða 1:50 000. Kortin byggðu annars á nýteknum loftmyndum af landinu frá 1945 og 1946. Um er að ræða kort sem hugsuð voru til nota í hernaði og bera þau þess á vissan hátt merki, enda áherslur lagðar á áberandi reitakerfi og að draga fram á kortfletinum fyrirbæri sem auðvelt er að átta sig á þegar farið er um landið.

Áferð kortanna er því ekkert í líkingu við áferð korta Dananna af landinu. Þau eru frekar litlaus og óáhugaverð í útliti, en höfðu ýmislegt annað sér til ágætis sem sóst var eftir, eins og skýrari og auðlesnari hæðarlínur. Örnefni voru ekki rituð upp á íslensku, sbr. að þ er ritað með th og ð sem d.

Löngu eftir gerð kortanna var lager þeirra sendur til Íslands og voru kortin lengi til sölu hjá Landmælingum Íslands. Kortin af suðvesturhorninu seldust upp fljótlega og var ekki mögulegt að fá heildarsett eftir það, þó að aðrir landshlutar væru fáanlegir fram undir síðustu aldamót.

Kortaröð AMS C562 í mælikvarða 1:250 000 kom út í 14 kortblöðum árið 1951 í framhaldi af kortaútgáfunni í mælikvarða 1:50 000. Sú kortaröð kom einnig út prentuð á plast og upphleypt, en sú kortaröð fékk merkinguna AMS C562P og kom út 1952. Upphleypt kort úr þessum flokki hafa verið til sem samsettar veggmyndir á nokkrum stofnunum hér á landi eins og margir þekkja. Til eru AMS kort í mælikvarða 1:500 000 og heildarkort í mælikvarða 1:1000 000. Þessi kort hafa mögulega komið út í fleiri en einni gerð og einhverjum öðrum útgáfum, en heildarmyndin hvað útgáfuna varðar er óljós fyrir mörgum. Það virðist því full ástæða til að einhver taki að sér að kafa dýpra í útgáfusögu þessara korta. Þar þarf að hafa allar klær úti við að finna skýrslur sem hljóta að hafa verið gerðar í Bandaríkjunum um verkefnið þó þær hafi ekki borist Íslendingum eftir því sem best er vitað. Þá þarf einnig að tryggja að í íslenskum söfnum séu til eintök af öllum útgáfum og gerðum korta AMS, en ekki er alveg öruggt að svo sé.

Þorvaldur Bragason

  • Forsíða

    Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Birtir eru tenglar í vefsíður sem sýna kortagögn og annað landfræðilegt efni innanlands sem utan. Vefsíðunum er raðað eftir völdum efnisflokkum sem aðgengilegir eru á forsíðu, en stutt skýring fylgir hverri skráningu. Jafnframt eru birtar fréttir um það sem helst er að gerast hér á landi í útgáfumálum korta og landupplýsingaþjónustu á netinu .