Íslandskort Breta 1940-1941 (88)

Þegar Bretar hernámu Ísland í maí 1940 höfðu Þjóðverjar þegar hertekið Danmörku og höfðu þar með fullan aðgang að öllum kortagögnum, mælingum, loftmyndum og öðrum gögnum sem Geodætisk Institut var að nota til að ljúka kortlagningu Íslands í mælikvarða 1:100 000. Bretarnir þurftu hins vegar nauðsynlega kort og var brugðið á það ráð að hefja gerð korta í mælikvörðunum 1:50 000 og 1:100 000 sem byggði á blaðskiptingu og mælikvarða þeirra dönsku korta sem þeir komust yfir. Helstu upplýsingarnar sem fá má um þennan kortaflokk hér á landi fást með því að skoða safn slíkra korta í kortasafni Landsbókasafns, en ekki er vitað um skrif hér á landi eða skýrslur um þetta verkefni frá Bretlandi á stríðsárunum. Kortin bæta ef til vill ekki miklu við staðfræðilega séð frá fyrirmyndinni (kortum Dananna), en hafa umtalsvert gildi sem heimildir um mikilvægi korta og hernaðarleg umsvif á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í kortasafni Landsbókasafns er varðveitt handbundin bók þar sem safnað hefur verið saman ýmsum breskum kortum af Íslandi og Norður-Atlantshafi frá tímabilinu 1940-1946, auk þess sem til er nokkuð af stökum kortum úr sama kortaflokki. Miðað við það að breska setuliðið var hér aðeins á árunum 1940 og 1941 er í raun merkilegt hve margir titlar hafa verið gerðir og gefnir út í ýmsum mælikvörðum. Á einum sérvef Landsbókasafns, íslandskort.is, hafa engar upplýsingar um þessi kort verið settar fram og í kortasafni Landmælinga Íslands sem skoða má upplýsingar um á netinu eru heldur engar heimildir um þessi kort.

Nokkur kort í mælikvarða 1:50 000 virðast hafa verið gerð af svæðum á Reykjanesskaga og gefin út árið 1940. Byggja þau öll á blaðskiptingum fjórðungsblaða dönsku landmælingamannanna. Mesti fjöldinn eru síðan kort í mælikvarða 1:100 000 sem byggja á blaðskiptingu Atlasblaðanna frá Dönum. Um er að ræða tugi kortatitla þar sem kortin ná samtals hringinn kringum landið. Skýringum dönsku kortanna er haldið, en bætt við skýringum á ensku um fleiri atriði, t.d. er teikning af aðliggjandi kortnúmerum í kortaröðinni. Fram kemur að kortin séu unnin eftir dönskum kortum og íslenskum upplýsingum.

Í innbundnu bókinni eru auk eintaka úr fyrrnefndum kortaflokkum, kort í minni mælikvörðum. Gefin hafa verið út kort árið 1941 í mælikvarða 1:250 000 þar sem átta kortblöð þekja allt landið og eru örnefni skrifuð „upp á ensku“. Þá eru fjögur kortblöð sem þekja allt landið í mælikvarða 1:500 000, auk þess sem til eru heildarkort í mælikvörðum 1:600 000, 1:1 000 000 og loks kort af Norður- Atlantshafi í mælikvarða 1:2 000 000 sem sýnir m.a. upplýsingar um flugvelli. Grunnar margra þessara korta eru ekki með mjög ítarlegum staðfræðilegum upplýsingum, en ýmsu öðru sem hafði gildi á stríðstímum. Heildarumfang þessa kortagerðarverkefnis Breta í stríðinu er ekki ljóst, en af því sem sjá má af fyrrnefndum kortum hefur þurft mikinn fjölda starfsmanna á stuttum tíma til að ná að vinna verkefnið.

Umfang kortaútgáfu  Breta og Bandaríkjamanna af Íslandi í og eftir heimsstyrjöldina síðari hefur í augum margra verið fremur óskýrt. Ekkert virðist hafa borist af skýrslum til landsins um þessi verkefni og handahófskennt er hvort eintökum af öllum gerðum korta hefur verið haldið til haga. Það á þó síst við um kortagerð Bandaríkjamanna í mælikvarða 1:50 000. Þetta er í raun alger andstaða við upplýsingar um kortagerð Dananna á fyrri helmingi 20. aldar, þar sem allt liggur mjög skýrt fyrir og miklar heimildir til á öllum sviðum þar sem Danir hafa lagt sig fram um að skila öllum frumgögnum til Íslands.

Hér er því í raun ákveðin eyða í kortasögunni þar sem fjöldi útgefinna titla er verulegur. Það er að mínu mati nauðsynlegt að rannsaka þessa sögu og fá fyllri mynd af útgáfu breskra og bandarískra korta frá þessum tíma, þannig að fá megi a.m.k. á fyrsta stigi upplýsingar um hvaða kortaflokkar urðu í raun og veru til. Sama mætti jafnframt segja um kortagerð fleiri þjóða af Íslandi, en vitað er að innan Sovétríkjanna voru m.a. einnig gerð kort af Íslandi, sem eru líklega ekki til á mörgum stöðum hér á landi. Þá eru einnig ótalin öll Íslandskortin sem gefin voru út af erlendum útgáfufyrirtækjum og notuð hérlendis af erlendum ferðamönnum.

Þorvaldur Bragason

  • Velkomin á landakort.is

    Landakort.is er vefgátt fyrir landfræðilegar upplýsingar á Íslandi. Lesa meira...