Ein undirgrein og afurð frá kortavinnu Geodætisk Institut af Íslandi var gerð veggkorta af landinu. Veggkortin voru til í skólum á öllum skólastigum og um allt land og voru á sínum tíma undirstaða allrar landfræðikennslu um Ísland auk þess að nýtast í kennslu í fleiri námsgreinum um áratuga skeið, eða þar til þau voru leyst af hólmi með veggkortum sem Námsgagnastofnun lét gera í samstarfi við Svía.
Í bók Ágústar Böðvarssonar um landmælingar og kortagerð Dana á Íslandi (1996) eru á bls. 298 og 299 myndir af nokkrum þessara korta. Annars vegar er um að ræða svonefnt „tákngreint“ skólaveggkort sem gert var í mælikvarða 1:500 000, en kom einnig út í útgáfum í mælikvörðum 1:350 000, 1:750 000 og 1:1 000 000. Hins vegar var svonefnt „litgreint“ skólaveggkort sem gefið var út bæði í mælikvarða 1:350 000 og 1:500 000. Þar voru svæði landsins undir 200 metra hæðarlínunni sýnd með tveimur mismunandi grænum litum. Þessi framsetning sem ætlað var að afmarka betur í huga þess sem sá kortið hvað væri láglendi og hvað hálendi, ruglaði suma í ríminu sem misskildu að þessi svæði væru öll vel gróin en ekki önnur, samanber sunnlensku sandana sem allir eru neðan þessara hæðarmarka og eru grænir á kortunum.
Á þessum kortum var búið að fækka allverulega ýmsum fyrirbærum frá þeim kortum sem byggt var á, en með því fékkst stóra myndin skýrari. Þar kemur meðal annars fram sýsluskipting landsins eins og hún var á sínum tíma, helstu þéttbýlisstaðir voru dregnir skýrt fram, öll örnefni voru stór, helstu vegir og vegaslóðar í sterkum litum, ákveðnir hæðarflokkar voru í litum á litgreinda kortinu, en síðan voru jöklar, ár og vötn einnig dregin mjög skýrt fram.
Það er hins vegar eðlilegur fylgifiskur kortaútgáfu að eftir því sem ýmsir þættir á yfirborði landsins breytast þarf að breyta kortum. Svo fór að skólakerfið fékk nýja veggkortaseríu sem fyrirtækið Esselte í Svíþjóð vann fyrir Námsgagnastofnun. Þau voru hins vegar mjög ólík þeim dönsku og gerð með myndefni sem skírskotaði til víðtækara notagildis í skólastarfi.
Saga skólakorta á Íslandi kemur víða við, en hvort sem um er að ræða veggkort eða kortabækur (atlasa) er hún ekki mjög aðgengileg almenningi. Þessi saga er hins vegar stórmerkileg og ýmislegt áhugavert sem að baki henni býr og við hugsum ekki alltaf um. Þar eru margir landfræðilegir þættir sem fróðlegt væri að geta lesið meira um. Dæmi þar um er ritun landaheita og borga á íslensku, stöðug barátta við uppfærslur vegna breytinga á landamærum og ríkjum eða öðrum svæðismörkum, sem og síbreytileg þemakort og annað landfræðilegt fræðsluefni. Þjóðin hefur öll meira eða minna fengið fyrstu fræðslu um landið í gegnum einhverjar af þessum útgáfum og því eru þær samofnar minningum margra úr æsku.
Þorvaldur Bragason